136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:16]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu fyrir utan þær pillur sem hv. þingmaður sendi Framsóknarflokknum, sem ég mun koma að hér á eftir.

Hv. þingmaður lýsti í öllum meginatriðum yfir stuðningi við frumvarpið sem við ræðum hér, þ.e. þau efnisatriði sem við höfum haft til umræðu, og fyrir það vil ég þakka, ólíkt mörgum öðrum flokksfélögum hv. þingmanns sem hafa tekið þátt í umræðunni. En þegar hv. þingmaður lætur að því liggja að Framsóknarflokkurinn stundi einhvern pólitískan leik og hafi í raun og veru hertekið Vinstri græna og Samfylkingu varðandi þá hugmynd að koma á fót stjórnlagaþingi er hv. þingmaður að dylgja. Hann er að dylgja vegna þess að Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn standa heils hugar að stjórnlagaþinginu og það hefur mátt marka á öllum ræðum hér, (Gripið fram í: Það er rétt.) þannig að hv. þingmaður og hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru að dylgja um það að Framsóknarflokkurinn sé að beita aðra flokka hér á þingi einhverju ofbeldi. Það er Sjálfstæðisflokkurinn hér á Alþingi sem er gjörsamlega einangraður í þessu máli ef hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki upplifað það.

Þegar hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru að reyna að koma því til skila að hér sé ekki um neitt málþóf að ræða vil ég benda á það, herra forseti, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa komið 300 sinnum upp í ræðustól Alþingis á tveimur dögum til þess að ræða um fundarstjórn forseta í kringum þetta mál. Tala svo í hinu orðinu um að nauðsynlegt sé að ræða stjórnarskrármálið vel en taka allt að klukkutíma á milli hverrar einustu ræðu til þess að koma hér upp og ræða um fundarstjórn forseta, tala svo í hinu orðinu um að það þurfi að fara að ræða einhver önnur mál en tefja þess í stað umræðuna með þeim hætti að þeir eru búnir að koma 300 sinnum upp og hafa misnotað það fundarform sem við höfum iðkað hér er varðar að tala um fundarstjórn forseta. (Gripið fram í.)