136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:18]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er afar sérstakt að vera í andsvari við mann sem tekur að sér að segja hvað sjálfstæðismenn hafa verið að gera hér. Ég vil taka það fram við hv. þingmann að ég hef ekki komið hér upp undir þessu stjórnlagafrumvarpi fyrr en nú þannig að ég hef ekki tekið þátt í því sem hann er að segja. Það er sérkennilegt að fara í andsvar við hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur og beina því til hennar.

Virðulegur forseti. Framsóknarflokkurinn setti þau skilyrði fyrir stuðningi sínum við núverandi minnihlutaríkisstjórn og að verja hana vantrausti að hugmyndir um stjórnalagaþing yrðu teknar inn, að þing hætti 12. mars og að ákveðnum efnahagsaðgerðum yrði komið á. Það er ekkert eftir af skilyrðum Framsóknarflokksins til að verja stjórnina vantrausti. Það eina sem þeir eiga eftir er stjórnlagaþingið. (Gripið fram í.) Það hlýtur að teljast í hæsta máta óeðlilegt að stjórnmálamenn geri sér það að leik að draga upp stjórnarskrána og setja hana í gíslingu með þessum hætti til þess að ná sérstakri aðstöðu gagnvart ríkisstjórn og innan ríkisstjórnar.

Hæstv. forseti. Þetta er mín skoðun og ég stend við hana. Það er í hæsta máta óeðlilegt að taka stjórnarskrána með þessum hætti í gíslingu til þess að verja minnihlutastjórn vantrausti … (Gripið fram í.) Það væri kannski ágætt, hæstv. forseti, að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sleppti frammíköllum í augnablikinu.

Hæstv. forseti. Hv. þm. Birkir J. Jónsson, verður einfaldlega að sætta sig við að þetta er mín skoðun á framgöngu Framsóknarflokksins. (Gripið fram í.) Þú mátt gjamma en aðrir ekki.