136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:30]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Um þetta stjórnarskipunarfrumvarp má hafa mörg orð, bæði form þess, innihald og tilgang og ég vil byrja á því að fara yfir aðdraganda að málinu og það hvernig ég hef vanist því að menn stæðu að því að breyta stjórnarskránni á þeim tíma sem ég hef verið hér.

Eins og menn þekkja ákvað þjóðin í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir tæpum 65 árum þegar hún setti nýja stjórnarskrá að henni yrði breytt með tilteknum hætti eins og greint er frá í stjórnarskránni, þeim að þingið mundi breyta henni, bæði eiga frumkvæði að því að leggja fyrir þingið breytingar og samþykkja þær, síðan að halda alþingiskosningar og taka þær fyrir síðara sinni að þingkosningum loknum. Það varð niðurstaða þjóðarinnar að sætta sig við það eða samþykkja að þessi ferill ætti að vera svona, stjórnarskrárbreytingar færu ekki sjálfstætt til atkvæðagreiðslu meðal einstakra íbúa þjóðarinnar.

Það má deila um hvort það hafi verið rétt form, hugsanlega hefur það verið skynsamlegt á þeim tíma þegar það var mikið fyrirtæki að efna til slíkrar almennrar þjóðaratkvæðagreiðslu og mikið umstang, fyrirhöfn og kostnaður sem til þess að gera fátæk þjóð í dreifbýlu landi átti kannski ekki mikil efni til að standa undir ef það yrði oft. Þá þróuðu menn með sér það fyrirkomulag að standa þannig að breytingum að um þær væri víðtækt samkomulag milli stjórnmálaflokka sem sæti ættu á Alþingi. Því hefur ekki verið framfylgt með þeim hætti að það yrði að vera einróma samkomulag, en engu að síður víðtækt samkomulag. Til dæmis voru gerðar stjórnarskrárbreytingar 1983 og 1984 þar sem þingmönnum var fjölgað úr 60 í 63 og gerðar breytingar á kosningalögum og þegar þær voru afgreiddar á síðara þingi stóðu að þeirri breytingu fjórir stjórnmálaflokkar af sex sem þá áttu sæti á þingi. Tveir þingflokkar voru andsnúnir breytingunni, þingflokkur Kvennalista og þingflokkur Bandalags jafnaðarmanna. Samtals lögðust þó ekki nema sjö þingmenn af 60 gegn breytingunni en hinir studdu hana. Hið sama má segja um stjórnarskrárbreytinguna 1999 þegar gerðar voru breytingar á stjórnarskrá til að breyta skiptingu landsins í kjördæmi, þá stóðu að breytingunni allir stjórnmálaflokkar en ekki allir þingmenn. Þá voru einnig sjö þingmenn sem greiddu atkvæði gegn þessari breytingu á síðara þinginu. Ekki hefur verið um það að ræða að unnt væri að tryggja einróma samþykki en menn hafa unnið samkvæmt þeirri vinnureglu að hafa víðtæka samstöðu. Við höfum þá í þessum tveimur dæmum nokkuð góða vísbendingu um hvað felst í víðtækri samstöðu um afgreiðslu slíkra mála.

Framan af var líka haldið þannig á málum að viðræður um breytingar á stjórnarskránni fóru fram milli stjórnmálaflokkanna sem sæti áttu á Alþingi. Formenn eða fulltrúar einstakra stjórnmálaflokka hittust og áttu frumkvæði að því að reyna að ná samkomulagi um tilteknar breytingar. Í seinni tíð hafa málin þróast á þann veg sem mér þykir mun lakari, sérstaklega eftir 1991, að þetta fór að verða ríkisstjórnarmál. Til dæmis var stjórnarskrárbreytingin 1983 borin fram af formönnum stjórnmálaflokkanna en ekki ríkisstjórninni. Eftir 1991 verða þetta í vaxandi mæli ríkisstjórnarmál, forsætisráðherra hefur frumkvæði í málinu og skipar nefndir þannig að þær fara að verða nefndir framkvæmdarvaldsins. Mér fannst, og hefur alltaf fundist, óæskileg þróun að stjórnmálaflokkarnir hleyptu málinu í þann búning að verða að ríkisstjórnarmáli og fulltrúar almennings væru orðnir vinnumenn í starfsnefnd á vegum framkvæmdarvaldsins. Þetta var gert vegna þess að forsætisráðherra og formaður stærsta stjórnmálaflokksins vildi treysta tök sín á málinu og um það varð samkomulag þannig að út af fyrir sig hafði ekki mikla þýðingu að móast mikið við. Mér fannst þetta engu að síður vond breyting og nefni hana hér vegna þess að segja má að hún ýti undir þróun sem að sumu leyti hefur orðið vaxandi í þessa veru, að breyta málinu frá því að vera samkomulagsmál yfir í að verða ríkisstjórnarmál.

Það má eiginlega segja að endapunkturinn sé í því frumvarpi sem hér liggur fyrir því að það er nánast fullkomlega ríkisstjórnarmál. Þó að það sé ekki flutt af ríkisstjórninni er aðdragandi þess algerlega á vegum ríkisstjórnarinnar. Eftir að ný ríkisstjórn tekur við skipar forsætisráðherra þriggja manna starfshóp embættismanna sem aðrir stjórnmálaflokkar koma ekkert að. Ég skal ekki fullyrða hvort það er nýjung en það er a.m.k. í samræmi við þessa þróun að einstakir flokkar, flokkar ríkisstjórnarinnar, fara að halda öðrum flokkum frá málinu á undirbúningsstigi. Þá eru menn byrjaðir að rjúfa í sundur grundvallarþráðinn í stjórnarskrárbreytingunum sem er samráð og samstaða um breytingar. Þetta er algerlega orðið ríkisstjórnarmál í þessum búningi sem hér hefur verið undirbúinn. Ég gagnrýni þessa þróun, ég held því ekki fram að þetta sé algert stílbrot frá því sem verið hefur vegna þess að þróun hefur átt sér stað sem leiðir þetta af sér en hér er lengra gengið en áður hefur verið og menn munu halda áfram að ganga þennan veg þar til eitthvað gerist sem stöðvar þessa þróun.

Mér finnst líka að tíminn sem menn hafa gefið sér til að leggja fram ígrundaðar tillögur að stjórnarskránni sé nánast enginn. Það er mjög gagnrýnivert.

Þessi þriggja manna starfshópur lagði fram tillögur. Af þeim eru ekki allar tillögur lagðar fram í frumvarpsformi. Hvar strönduðu þær tillögur sem starfshópurinn lagði fyrir forsætisráðherra um samráð í utanríkismálum, stöðu Alþingis í utanríkismálum, eins og t.d. þá tillögu að það skuli háð samþykki Alþingis að lýsa yfir stuðningi við vopnaða árás erlends ríkis í annað ríki? Það var ein af tillögum þriggja manna starfshópsins. Hana er ekki að finna í þessu frumvarpi. Ég hefði gjarnan viljað sjá þá tillögu vegna þess að mér líst vel á hana. Ég hefði viljað hafa hana á borðum, að hún hefði verið lögð fyrir stjórnmálaflokkana og alþingismenn og verið í því umræðuferli sem þarf að fara fram sem undanfari þess að menn nái samkomulagi um þær breytingar sem á að flytja.

Ég hefði líka viljað sjá aðra tillögu sem er að finna í þessu frumvarpi en ekki í frumvarpi fjórmenninganna, að alþingismenn geti vísað ákvörðunum eða lagasetningu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hefur oft verið rætt á Alþingi og oft verið áhugi á að koma því á. Hana er að finna í tillögu þessa þriggja manna starfshóps en ekki í frumvarpinu. Ég spyr: Af hverju má ekki ræða þá tillögu hér? Hver tekur að sér fyrir hönd Alþingis að skammta þinginu þær tillögur sem má ræða sem samkomulagsgrundvöll að breytingu á stjórnarskránni?

Ég hefði gjarnan viljað ræða fleiri hugmyndir fyrst menn ætla sér á annað borð að breyta stjórnarskránni. Ég get nefnt af handahófi nokkur mál sem mér finnst þess virði að taka umræðu um, eins og auðlindaákvæði í frumvarpi Ragnars Arnalds og fleiri þingmanna Alþýðubandalagsins sem flutt var fyrir mörgum árum þar sem kveðið er á um að orkan í rennandi vatni sé þjóðareign og að auðlindir undir 100 metrum undir yfirborði jarðar sé eign þjóðarinnar en ekki landeigenda. Mér finnst það vanta inn í auðlindaákvæðið sem er að finna í frumvarpi fjórmenninganna.

Ég hefði viljað kanna undirtektir fyrir því að breyta stjórnarskránni á þann veg sem ég hef lagt til og frumvörp liggja fyrir í þinginu um, að ráðherrar eigi ekki sæti á Alþingi og hafi ekki lagasetningarvald í gegnum bráðabirgðalög. Ég hefði viljað setja inn ákvæði um persónukjör og möguleika á bandalagi stjórnmálaflokka í alþingiskosningum.

Fleira má nefna af þessu tagi sem hefði verið ástæða til að taka fyrir og ræða ef menn á annað borð hafa ætlað sér að taka fyrir umræðu um að breyta stjórnarskránni. Með svona skömmum fyrirvara verður þó ekki með góðu móti farið vandlega yfir stjórnarskrána og teknar inn margar hugmyndir sem upp kunna að vakna um breytingar á henni og ræddar í þaula vegna þess að tími gefst ekki til þess. Við þær aðstæður eiga menn að einbeita sér að því sem mestu máli skiptir, og það sem mér finnst mestu máli skipta varðandi stjórnarskrána er að breyta henni á þann veg að þjóðin geri breytingar á henni en ekki Alþingi.

Breytingar á stjórnarskránni hafa aldrei orðið kosningamál í alþingiskosningum. Allt önnur mál eru þar undir og þau taka hug kjósenda og athygli þannig að þau atriði sem breytingar eru gerðar á í stjórnarskránni hverfa í skuggann. Þess vegna er ég á þeirri skoðun að stjórnarskránni beri því aðeins að breyta á þann veg að breytingin sé lögð fyrir þjóðina í almennri atkvæðagreiðslu og afgreidd með þeim hætti. Þar með er stjórnarskrárvaldið komið til þjóðarinnar þar sem það á að vera en Alþingi hefur það hlutverk að hafa frumkvæði að breytingum og samþykkja þær, þjóðin að hafna eða samþykkja.

Til viðbótar finnst mér eðlilegt að alþingismenn geti vísað ákvörðunum Alþingis, einstaka lagasetningu, til þjóðarinnar. Minni hluti alþingismanna á að geta gert það þegar um er að ræða mjög þýðingarmikil eða umdeild mál. Mér finnst líka koma til greina að hægt sé að kalla mál til þjóðarinnar með undirskriftasöfnun eins og lagt er til í frumvarpinu en þá held ég að menn verði að einskorða sig við skýr mál og afgreidd, þ.e. löggjöf. Ég sé ekki færa leið til að kalla einstök málefni í almenna þjóðaratkvæðagreiðslu sem ekki yrðu fyrst afgreidd á Alþingi eða hefðu verið rædd þar því að Alþingi getur aldrei verið bundið af niðurstöðum slíkrar atkvæðagreiðslu. Alþingismenn eru, verða og eiga að vera einungis bundnir af sannfæringu sinni en engu boði, hvorki frá ríkisstjórn, kjósendum né öðrum. Þjóðaratkvæðagreiðsla um eitthvert málefni þar sem lýst er yfir skoðun almennings á því málefni, hvort sem þar er um að ræða dauðarefsingar eða eitthvað slíkt, getur einungis verið leiðbeinandi fyrir Alþingi en ekki bindandi fyrir einstaka alþingismenn. Þess vegna verða þjóðaratkvæðagreiðslur um málefni að afmarkast við löggjöf þannig að hægt sé að fá úrskurð um það hvort tiltekin löggjöf eða samþykkt Alþingis njóti stuðnings þjóðarinnar eða ekki og þjóðin geti þá kallað til sín slíkar ákvarðanir ef nægjanlegur stuðningur er við það.

Ég leggst eindregið gegn því, virðulegi forseti, að halda áfram á þeirri braut að gera breytingar á stjórnarskránni í miklum ágreiningi. Sérstaklega finnst mér fráleitt að ætla sér að fara í gegn með efnislegar breytingar núna á stjórnarskránni í andstöðu við stærsta þingflokk Alþingis. Ég held að það séu engin dæmi um slíkt og það væri mikið ógæfuspor ef þingið færi inn á þá braut.

Ég get að mörgu leyti skilið þá sjálfstæðismenn sem bregðast hart við þessari fyrirætlan ríkisstjórnarflokkanna og Framsóknarflokksins, þeir leggjast mjög gegn henni og beita sér af fullum þunga vegna þess að það skapar fordæmi sem fylgt verður eftir síðar, hvort sem sá flokkur verður stærsti þingflokkurinn í framtíðinni eða ekki. Það er önnur saga, enda skiptir það ekki máli.

Það sem mér finnst að núverandi þing geti gert og eigi jafnvel að gera, er að gera þá breytingu eina á stjórnarskránni sem mælir fyrir um formbreytingu þaðan í frá. Þó að ágreiningur kunni að vera um það, sem ég veit ekki og heyrist reyndar á máli ræðumanna að ekki muni verða, fyndist mér í lagi að afgreiða þá breytingu í ágreiningi vegna þess að það er ekki efnisleg breyting á stjórnarskránni, það er formbreyting sem færir ákvörðunarvaldið frá fáum, þ.e. alþingismönnum, til þjóðarinnar. Hún sker þá alltaf úr í því.

Ég vildi láta þetta koma fram, virðulegi forseti. Hins vegar er ég á þeirri skoðun eins og kannski hefur komið fram í öðrum málum og að nokkru leyti í þessari ræðu varðandi efnisinnihald frumvarpsins að ég er sammála þeim áformum sem er að finna í 2. gr. frumvarpsins sem er um formbreytinguna. Ég er líka í meginatriðum sammála því að setja inn í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á auðlindum. Ég hef hins vegar efasemdir um að það ákvæði sem er í 1. gr. bíti nokkuð. Það er greinilegt að þar hefur náðst samkomulag um það vegna þess að það breytir engu frá því sem er. En það er nákvæmlega það sem þarf að gera, það þarf að setja ákvæði inn í stjórnarskrá um þjóðareign á auðlindum sem er það skýrt að það tekur fyrir þá misnotkun sem er í gangi í dag, eins og t.d. í sjávarútveginum. (Gripið fram í: Það eru nú ekki allir …) Það má vel vera að ekki séu allir sammála því, en eitt er víst að það eru mjög margir sammála því að það fyrirkomulag sem er í sjávarútveginum er misnotkun. Um 80% af kjósendum Framsóknarflokksins eru t.d. á þeirri skoðun, við skulum ekki gleyma því, og hafa verið lengi. Jafnvel þótt þeim hafi farið fækkandi hefur það hlutfall ekki breyst. (Gripið fram í.)

Ef þingmönnum auðnast ekki að setja lög sem njóta stuðnings kjósenda sinna endar það illa, það getur ekki farið hjá því. Það er mikill ágreiningur um framkvæmdina varðandi nýtingu á sjávarauðlindinni og ég sé ekki að 1. gr. frumvarpsins breyti neinu um það. Það er hugsanlegt að hún getið orðið til góðs, ávinningur getur orðið af henni varðandi erlenda aðila ef þjóðin gengur í Evrópusambandið, en ég er ekki alveg viss um að það hafi neina efnislega breytingu. Miðað við núverandi kerfi gætu erlendir aðilar eignast nýtingarréttinn á þessari auðlind. Mér sýnist á öllu að þeir gætu það áfram miðað við orðalag á þessari grein þannig að það leiddi ekki af sér neinar nýjar varnir sem væri nauðsynlegt að reisa. Mér finnst þurfa að skoða hana betur og ég bendi m.a. á gamalt frumvarp Ragnars Arnalds og fleiri sem flutt var síðast á 122. löggjafarþingi, 1997–1998, að því er mig minnir. Upp úr því frumvarpi má taka ákvæði varðandi þjóðareign á auðlindum sem mundu bæta 1. gr. frumvarpsins.

Ég hef farið yfir afstöðu mína til 3. gr. og tel ekki framkvæmanlegt að þjóðaratkvæðagreiðsla um ótiltekið málefni fari fram sem geti verið bindandi, hún getur aðeins verið leiðbeinandi og mér finnst vanta inn í það ákvæði að minni hluti þingmanna geti vísað samþykktum lögum eða samþykkt Alþingis í atkvæðagreiðslu. Mér finnst það algjörlega vanta inn í þetta frumvarp.

Ég vil aðeins fara aftur í tímann til þess tíma þegar menn ræddu stjórnarskrárbreytinguna 1983. Þá var mjög sótt á um að gera breytingar á stjórnarskránni á þann veg að jafna vægi atkvæða. Niðurstaðan varð sú að gera slíkt en deilurnar stóðu kannski ekki um að menn legðust svo mjög gegn því, heldur hitt að á það var bent að það væri fleira réttlæti eða ranglæti en misvægi atkvæða. Það væri líka mikið ranglæti fólgið í þeirri byggðaþróun sem þá hafði verið í gangi með þeim afleiðingum að landsvæði á landsbyggðinni veiktust og höfuðborgarsvæðið styrktist. Stjórnmálaflokkarnir fjórir sem stóðu að þeirri breytingu þá gerðu samkomulag til að sætta menn innan sinna raða sem töluðu fyrir stöðu landsbyggðarinnar og gerðu samþykkt um að þeir, þ.e. þingflokkar Alþýðubandalags, Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, mundu beita sér fyrir aukinni valddreifingu og virkara lýðræði samhliða afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár. Það var sem sé loforð um að þessir flokkar mundu beita sér fyrir breytingum sem mundu styrkja stöðu landsbyggðarinnar.

Meðal annars var skipuð sérstök nefnd til að undirbúa tillögur í því skyni. Hún var sett á fót og hélt fundi og skilaði niðurstöðu sem var á þann veg að styrkja bæri stöðu landsbyggðarinnar með þeim hætti að taka upp þriðja stjórnsýslustigið, auka völd og áhrif landsmanna í einstökum héruðum frá því sem þá var. Um þetta urðu þingflokkarnir meira og minna sammála þannig að þetta varð tillaga sem sett var fram til að stuðla að valddreifingu í þjóðfélaginu, draga úr miðstýringunni sem þá var þegar orðin mjög mikil og hafði þá þegar leitt til vaxandi styrks höfuðborgarsvæðisins og grafið undan styrk landsbyggðarinnar.

Í stuttu máli má segja að niðurstaðan af þessum fyrirheitum hefur orðið sú að ekkert hefur náð fram sem máli skiptir og staða landsbyggðarinnar hefur veikst stig af stigi á þeim 25 árum sem liðin eru síðan þessi umræða fór fram í þingsölum. Það hefur haft í för með sér mikinn skaða, bæði félagslegan og efnahagslegan skaða fyrir fólk sem býr víða um land. Það er engin ástæða til að draga fjöður yfir það eða gleyma þeim hagsmunum og láta sem það eina sem máli skiptir séu einhver atriði sem fyrst og fremst snúa að þeim sem lifa og hrærast hér á höfuðborgarsvæðinu.

Sem dæmi um þróunina má nefna að á þessu árabili, frá árinu 1991 til 2008, fjölgaði störfum starfandi á landinu um 42.000. Af þeirri fjölgun voru 39.000 á höfuðborgarsvæðinu en aðeins 3.000 utan þess.

Það má líka nefna að í aðdraganda þessarar umræðu fyrir 25 árum, fyrir aldarfjórðungi, voru um 120.000 íbúar á höfuðborgarsvæðinu en um 105.000 utan þess. Í dag eru tölurnar þannig að á höfuðborgarsvæðinu búa um 200.000 manns en aðeins um 116.000 utan þess. Það hefur fækkað verulega á sumum svæðum og á öðrum fjölgað lítils háttar þó að sú fjölgun dugi ekki til að halda í við fjölgunina á landsvísu, þá einkum á þeim svæðum sem liggja að höfuðborgarsvæðinu.

Það má líka nefna sem dæmi um efnahagsleg áhrif að árið 1998 var gerður samanburður á fasteignaverði á nokkrum stöðum á landinu og borið saman við höfuðborgarsvæðið. Sem dæmi má nefna að þá var fasteignaverð á Ísafirði 74% af því fasteignaverði sem var í Reykjavík, mælt sem verð á fermetra í einbýlishúsi. Samkvæmt upplýsingum hjá Fasteignaskrá Íslands er staðan þannig núna, miðað við árslok 2006 sem eru þær nýjustu sem ég sá um verðþróun á einstökum landsvæðum, að fasteignaverð á Ísafirði er ekki lengur 74% í einbýlishúsi af því sem er í Reykjavík, heldur aðeins 25%. Verðið hefur sem sagt fallið um tvo þriðju borið saman við Reykjavík.

Á Húsavík var verð á fermetra í einbýlishúsi 68% af því verði sem var í Reykjavík árið 1998 en í Norðurþingi, sem Húsavík er hluti af núna, er verðið komið úr 68% niður í 43%. Hvað ræður þessu? Verð á eignum ræðst af kaupmætti fólksins sem er á viðkomandi svæði. Kaupmátturinn ræðst af atvinnulífinu. Það hafa orðið gríðarlegar breytingar á þessu árabili á atvinnulífi, á meðaltekjum — þær hafa fallið mjög mikið á stórum svæðum á landsbyggðinni borið saman við það sem gerist á höfuðborgarsvæðinu og kaupgetan því orðið minni. Fólki hefur fækkað verulega þannig að eftirspurnin hefur dregist verulega saman eftir eignum. Það leiðir auðvitað af sér fallandi verð. Hver vill tala fyrir hagsmunum þessa fólks hér í þingsölum? Hver vill fara hér upp og bera fram breytingar á stjórnarskrá til að bæta því fólki það efnahagslega tjón sem það hefur orðið fyrir á undanförnum 20 eða 25 árum? Það er enginn talsmaður hér sem gefur sig fram til þess, það hefur enginn áhyggjur af þessum málum. En þetta er milljónatap fyrir hverja fjölskyldu á þessum svæðum sem fólk hefur þurft að bera bótalaust af ýmsum ástæðum sem stjórnmálamenn hefðu getað haft áhrif á og beitt sér fyrir að væru með öðrum hætti og skaplegri en orðið hefur.

Umræður um stöðu landsbyggðarinnar heyrast varla í þingsölum. Þær eru þagnaðar, umræðurnar sem fóru fram mjög háværar og þungar í þingsölum fyrir aldarfjórðungi þegar menn ræddu stjórnarskrárbreytingar.

Ég er hér með ræðu Tómasar Árnasonar, fyrrverandi ráðherra og þingmanns Framsóknarflokksins, sem hann flutti í þessu húsi fyrir réttum 25 árum, 4. apríl 1984, þegar verið var að ræða stjórnarskrárbreytinguna sem ég gat um. Hann rakti í ítarlegu máli sjónarmið sín og sagðist út af fyrir sig geta fallist á þá breytingu sem verið var að gera, að fjölga þingsætum og færa þau í vaxandi mæli af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið til að mæta fólksfjölguninni, en stóra málið væri að tryggja stöðu landsbyggðarinnar í stjórnarskránni. Það væri það mál sem hann bæri mest fyrir brjósti og vildi ná samstöðu um milli stjórnmálaflokkanna, um breytingar á stjórnarskránni sem tryggja mundu stöðu landsbyggðarinnar.

Því miður hefur það orðið sem ég rakti fyrr í ræðu minni, að efndir á þeim aðgerðum sem þá voru uppi hafa engar orðið og staða landsbyggðarinnar hefur versnað að miklum mun. Það væri mörgum þarft verk að lesa þessa aldarfjórðungsgömlu ræðu Tómasar Árnasonar, kynna sér þau sjónarmið sem hann setti fram og reyndar fleiri þingmenn á þeim tíma og svara því hverju þessar tillögur skila til þess að styrkja stöðu landsbyggðarinnar til að bæta fólki það efnahagslega tjón sem það hefur orðið fyrir á þessum 25 árum, eins og t.d. á Ísafirði þar sem fasteignaverð á einbýlishúsum er nú aðeins 25% af verði sambærilegrar íbúðar í Reykjavík en var þá 74%. Það er mikið tjón, það eru margir milljarðar sem glatast hafa úr höndum fólksins sem býr á Ísafirði. Og hver vill koma fram með tillögur í þessu frumvarpi og benda á að hve miklu leyti það bætir stöðu þessa fólks? Mér finnst vera dálítill skortur á því að menn taki á þessu máli og viðurkenni það sem pólitískt viðfangsefni. Mér finnst eins og a.m.k. þeir sem bera þetta mál fram séu búnir að setja það í glatkistuna, setja málefni landsbyggðarinnar í ruslakörfuna og láta eins og þau sé viðfangsefni sem þurfi ekki að tala um. Er það þannig að menn ætli sér að gera Ísland að borgríki? Er það þannig að nýta eigi allar auðlindir landsbyggðarinnar til að byggja upp fjármálafyrirtæki í Reykjavík? Er það þannig að atvinnustarfsemin, tekjurnar og arðurinn sem leiða af hinum auðugu fiskimiðum sem eru umhverfis Vestfirði — á hverju ári er þar dregið úr sjó miklu meira magn af fiski en Færeyingar draga úr öllum sínum fiskimiðum — eigi allt að enda hér í Austurstrætinu? Það er það sem er að gerast.

Um 11.000 bjuggu á Vestfjörðum fyrir tveimur áratugum. Í dag eru það 7.500. Þrótturinn fer úr landsvæðunum með sama áframhaldi, krafturinn til að halda uppi öflugri byggð minnkar með fækkandi fólki, hann minnkar með fækkandi tækifærum og minnkandi möguleikum til að hafa afl. Menn höfðu dálítið afl á Vestfjörðum framan af meðan það voru öflug sjávarútvegsfyrirtæki af því að þau gáfu af sér góðar tekjur og menn gátu gert ýmislegt í krafti þess styrks. Nú er þetta ekki nema svipur hjá sjón, nú eru menn meira og minna orðnir leiguliðar og kaupa aðganginn að fiskimiðunum dýrum dómum og stærstur hluturinn af tekjunum af sjósókninni og vinnslunni rennur til þeirra sem eru ekkert í þessari atvinnugrein.

Það er varla von að menn hafi mikinn kraft til að halda í sitt fólk og standast snúning höfuðborgarsvæðinu sem getur boðið upp á fjölbreytta atvinnu og miklu hærri laun þegar svona er í pottinn búið. Hvað ætla menn að gera til að breyta þessu? Ætla menn ekkert að breyta þessu? Eiga Vestfirðir bara að verða einar stórar Hornstrandir? Það er algjörlega óviðunandi fyrirkomulag, virðulegi forseti, að láta hlutina áfram þróast með þessum hætti því að menn vita hvað mun gerast á næstu 20 árum. Ég vitna hér í aldarfjórðungsgamlar ræður Tómasar Árnasonar og við getum bara ímyndað okkur hvernig staðan verður eftir réttan aldarfjórðung þegar einhver þingmaður sem þá er fer að vitna í þessa ræðu Tómasar, sem þá verður 50 ára gömul, og bera ástandið þá saman við það sem er núna á ýmsum stöðum á landsbyggðinni. Það liggur alveg fyrir að þeir staðir verða ekki heldur svipir hjá sjón frá því sem nú er.

Vilja menn hafa landið þannig? Ég vil það ekki og mér finnst vanta að menn ræði stjórnarskrána og beita henni til að koma í veg fyrir þessa þróun og gefa mönnum tækifæri á að breyta henni. Menn voru með hugmyndirnar fyrir 25 árum um það hverju þyrfti að breyta í stjórnarskránni til að landsbyggðin næði tökum á eigin málum og gæti farið að snúa vörn í sókn. Þær má í raun og veru finna í þessu frumvarpi, í greinargerð með því sem lagt er fram af fjórum þingmönnum og ráðherrum þegar verið er að lýsa stjórnlagaþingi. Hugmyndir um stjórnlagaþing voru ræddar í þingsölum fyrir 25 árum eins og nú.

Það kemur nefnilega fram á blaðsíðu 23 í frumvarpinu, þegar gerð er grein fyrir stjórnlagaþingi erlendis, á hverju það hefur byggst. Í öllum þeim tilvikum þar sem um var að ræða stjórnlagaþing í Evrópu var um að ræða sambandsríki þannig að stjórnlagaþingið var vettvangur fólks alls staðar að úr landinu þar sem menn hittust á sambandsríkjagrundvelli sem þýðir að ekkert eitt landsvæði gat eða getur í krafti yfirburðafólksfjölda eða stöðu sinnar skipað málum á öðru landsvæði í andstöðu við fólkið þar. Þegar menn draga hér upp stjórnlagaþingshugmyndir segi ég eins og Tómas Árnason fyrir 25 árum: Stjórnlagaþingið á að vera leið til að breyta stjórnarskránni þannig að landsbyggðin fái völd í sínar hendur sem hún þarf að hafa til að ráða framvindu mála á sínu landsvæði. Flutt var algjörlega ný stjórnarskrá í framhaldi af þessum umræðum árið 1983 og 1984 sem samin var af aðilum utan þings og einn hv. þingmaður sem þá var, Ólafur Þórarinn Þórðarson heitinn, flutti tvisvar sinnum nýtt frumvarp til stjórnarskipunarlaga, algjörlega nýja stjórnarskrá.

Það er stjórnarskrá sem margt er í sem síðan er búið að taka upp. Þessi stjórnarskrá er um sambandslagaríki, hún er um fylki, hún fjallar um að skipta landinu upp í nokkur svæði sem hafa ríka sjálfsstjórn í sínum málum. Það er það sem þarf, ef menn vilja á annað borð að landsbyggðin lifi með einhverjum sæmilegum þrótti þarf að fara þessa leið. Ég spyr þá sem flytja þetta mál: Eruð þið tilbúin til þess að gefa landsbyggðinni þau vopn upp í hendurnar sem duga til að snúna öfugþróuninni við til að fara úr þessari hnignun sem verið hefur áratugum saman, og sérstaklega síðustu 25 árin, yfir í sókn þar sem menn sækja fram? Hvað á það að þýða að ekki er hægt að leggja vegi á Vestfjörðum fyrir afskiptum stofnana ríkisins í Reykjavík eða einstaklinga sem geta í krafti afskipta sinna og þráhyggju farið með mál fyrir dómstóla og komið í veg fyrir það árum saman að ónýtir vegir eru lagaðir? Hvað á það að þýða, virðulegi forseti, að bjóða fólki upp á það?

Nú síðast voru slegin út af borðinu áform um að laga vondan veg í Barðastrandarsýslu af Skipulagsstofnun ríkisins. Það gengur ekki, virðulegi forseti, að fólk sem býr hér og er sennilega alveg sama um hversu lengi menn mega keyra þessa malarvegi, setji það í forgang að vernda grjót, jurtir og fugla og segi við fólkið sem þarna býr að það geti bara keyrt á sínum vondu vegum svo lengi sem þurfa þykir. Þetta er algjörlega óviðunandi ástand, virðulegi forseti.