136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:10]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir mjög góða og yfirgripsmikla ræðu, sérstaklega fyrri hlutann þar sem hann fjallaði með einstaklega skýrum hætti um stjórnarskrárbreytingar og ýmis atriði hvað þær varðar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort ég hafi skilið hann rétt að hann sé sammála okkur sjálfstæðismönnum um að eðlilegt sé að gera breytingar á 2. gr. stjórnarskrárinnar svo sem mælt er fyrir um í frumvarpinu sem hér er um ræða, þ.e. að kveðið sé á um að málinu sé vísað til þjóðarinnar. Ég gat ekki skilið þingmanninn með öðrum hætti. Eða það að hann sé í grunninn sammála þeim sjónarmiðum sem við höfum sett fram við þessar umræður. Ég vildi gjarnan fá svör við því frá hv. þingmanni.

Hv. þingmaður kom inn á það varðandi þjóðaratkvæði að minni hluti á Alþingi gæti vísað máli til þjóðarinnar og talaði um að hvernig sem slík þjóðaratkvæðagreiðsla færi væri alveg ljóst að þingmaðurinn væri að sjálfsögðu bundinn af sannfæringu sinni. Ég spyr því hvort hv. þingmaður hafi átt við að við færum svipaða leið og Svíar hafa farið, að hafa m.a. svokallaða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem þeir hafa látið fara fram fimm eða sex sinnum á síðustu árum.

Ég átta mig ekkert á því hvað tímanum líður.

(Forseti (RR): Klukkan telur upp, hv. þingmaður.)

Þá er í þriðja lagi varðandi atkvæðavægi kjósenda: Ég er sammála hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni um að það skiptir máli að stutt sé við veikari (Forseti hringir.) byggðir, sérstaklega á landsbyggðinni. Ég spyr: Telur þingmaðurinn ekki að atkvæðarétturinn sé í raun borgaraleg réttindi og eigi að vera jafn (Forseti hringir.) fyrir alla einstaklinga? Mér finnst grundvallaratriði að fá skýringar á því.