136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:15]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þetta svar varðandi þann hluta spurningar minnar sem laut að þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég spurði reyndar um fleira. Ég spurði hv. þm. Kristin H. Gunnarsson um það hvort hann væri í raun — ég skildi ræðu hans þannig að hann væri sammála þeim sjónarmiðum og áherslum sem við sjálfstæðismenn hefðum lagt áherslu á varðandi stjórnarskrárbreytingar og með hvaða hætti þær væru bornar fram hér í þinginu og að það bæri að taka tillit til og reyna að ná sem víðtækastri sátt í málinu. Ég skildi hv. þm. Kristin H. Gunnarsson á þann veg að hann væri sammála hvað þetta varðaði enda lagði hann áherslu á mikilvægi þess að víðtækt samráð og sátt væri til staðar þegar um stjórnarskrárbreytingar væri að ræða, en ég vil spyrja hvort það hafi ekki verið réttur skilningur hjá mér hvað það varðar.

Í annan stað, sem mér finnst skipta miklu máli, er það spurningin um atkvæðavægi, þ.e. hvort við lítum á atkvæðisrétt hvers einstaklings sem ákveðin mannréttindi, sem ákveðinn hluta af borgaralegum réttindum sem sé þannig að hann sé jafngildur fyrir alla einstaklinga í þjóðfélaginu. Þannig lít ég á atkvæðisréttinn. Þess vegna lít ég þannig á að atkvæðavægi allra borgara þjóðfélagsins eigi að vera jafnt og það sé ein mikilvægasta stjórnarskrárbreytingin sem þurfi að gera að atkvæðavægi borgaranna verði jafnað sem mest má vera. Það er eitt mál og það er hluti af því sem ég lít á sem hugmyndafræðilega hugsun um gildi einstaklingsfrelsis og jafnstöðu einstaklinga. Ég legg áherslu á jafnt atkvæðavægi út frá þeim sjónarmiðum, út frá þeim forsendum.

Við komum síðan í aðra þætti, sem ég tel raunar óskylda, sem er spurningin um ákveðin almenn pólitísk viðhorf. Ég get tekið undir þau sjónarmið sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson (Forseti hringir.) setti fram hér áðan um það hvernig þurfi að styrkja byggðir eins og t.d. á Vestfjörðum og víða annars staðar á landinu. Það er mjög mikilvægt grundvallaratriði (Forseti hringir.) og þá koma að sjálfsögðu til skoðunar hvort ákvæði stjórnarskrár varðandi ákveðna svæðisstjórn geti haft þýðingu.