136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

starfslok á Alþingi.

[17:10]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til að segja nokkur orð í tilefni þess að þetta er sennilega síðasta ferð mín í þessa pontu. Ég hef tekið ákvörðun um að hætta, sem sagt að bjóða mig ekki fram til frekari starfa á hv. Alþingi, enda hef ég setið lengi á Alþingi, í 22 ár. Ég hef verið formaður þingflokks og gegnt ráðherrastarfi í tæp átta ár þannig að þetta er orðin heilmikil reynsla og gríðarlegt tækifæri, sem ég er mjög þakklát fyrir.

Ég ber mikla virðingu fyrir Alþingi Íslendinga og óska því alls hins besta. Ég er þakklát fyrir samstarfið sem ég hef átt við þingmenn, bæði þá sem nú sitja og áður á þessum langa ferli, starfsmenn Alþingis og fólkið í landinu. Það er einstakt að fá tækifæri til að vera þingmaður og fulltrúi fólksins hér á löggjafarsamkundunni. Það gefur manni tækifæri til að kynnast lífinu í landinu betur en aðrir fá kannski tækifæri til. Maður hefur fingurinn á slagæðinni nánast alla daga og það er einstakt að fá slíkt tækifæri.

Ég hefði vissulega viljað hætta við aðrar aðstæður en eru í þjóðfélaginu í dag. Tímarnir eru viðsjárverðir, því er ekki að neita, en ég er ekki í nokkrum vafa um að við Íslendingar munum vinna okkur út úr þessu, en það mun vissulega taka einhvern tíma.

Ég nefndi áðan að ég hefði verið ráðherra og ég settist einmitt í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið um áramótin 1999/2000. Þá minnist ég þess að uppi var orðrómur um það að ég færi sennilega í félagsmálaráðuneytið en síðan gerðist það eiginlega á síðasta degi að sú breyting varð að Finnur Ingólfsson hætti í stjórnmálum og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið varð ráðuneytið sem ég settist í. Ég var fyrsta konan í því embætti og vissulega var vantrú á að kona gæti gegnt því, þar sem þetta voru atvinnumál. Raunin er hins vegar sú að ég hef alltaf haft gríðarlega mikinn áhuga á atvinnumálum og í raun er það kannski einkenni, ef ég má sjálf meta það hvað hafi einkennt störf mín á hv. Alþingi og í stjórnmálum. Ég ætla ekki að tala meira um það.

Hæstv. forseti. Ég þakka enn á ný fyrir þessi ár og óska Alþingi alls hins besta alla tíð.