136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

gengisskráning íslensku krónunnar.

[10:34]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á að treysta í sessi hin ströngu gjaldeyrishöft sem hér var ráðist í að setja á. Þrátt fyrir það er krónuvísitalan í 210 á þessum degi. Í Kastljóssþætti þar sem formenn stjórnmálaflokkanna voru í viðræðum sagði hæstv. fjármálaráðherra að gengið væri rétt skráð. Það vakti athygli og hlýtur að leiða hugann að þeim sem skulda erlend lán, gengistryggð lán.

Vissulega er það svo að staða gengis er hagstæð fyrir útflytjendur um þessar mundir sem ekki eru skuldugir og skulda ekki erlend lán. Við á Alþingi hljótum að velta fyrir okkur hvað hæstv. fjármálaráðherra á við með því að gengið sé rétt skráð. Þess vegna ber ég upp þá ósk við hæstv. fjármálaráðherra að hann fari aðeins yfir þetta og geri okkur grein fyrir hvað hann átti við. Staðan er hagstæð fyrir þá sem flytja út og fá greitt inn í landið en að lýsa því yfir í sjónvarpi að íslenska gengið sé rétt skráð um þessar mundir, vakti mikla athygli hjá öllum, held ég hljóti að vera.