136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

gengisskráning íslensku krónunnar.

[10:38]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að gera athugasemdir við það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði um nauðsyn þess að það sé hagstæð gengisþróun og að jafnvægisgengi skapist sem sé í takt við þær aðstæður og þann markað sem hér þarf að vera í þágu útflytjenda og þeirra sem stunda erlend viðskipti. En það er mjög mikilvægt að ráðherrar gæti orða sinna og hæstv. fjármálaráðherra ætti að fara yfir þetta viðtal því að ég held að það fari ekkert á milli mála að hann talaði þar um að gengið væri rétt skráð. En ef það var í þeim skilningi að það væri hagstætt fyrir tilteknar atvinnugreinar eins og t.d. ferðaþjónustu eða sjávarútveg er það auðvitað skiljanlegt. Það er þó geysilega mikilvægt að ríkisstjórnin og ekki síst fjármálaráðherrann átti sig á því að hann verður að tala varlega um hina íslensku krónu, svo að ekki sé minnst á þá (Forseti hringir.) sem áður voru í ráðherrastólnum, og stöðu gengisins, (Forseti hringir.) en líka að leggja fram það (Forseti hringir.) sem þarf að gera til að gengið jafnist.