136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

gjaldmiðilsmál.

[10:54]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er mjög áhugavert að heyra þingmann Sjálfstæðisflokksins, og það af öllum hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, hafa þau orð um stjórnarskiptin í Bandaríkjunum að nú sé allt betra með valdatöku demókrata í Bandaríkjunum (Gripið fram í.) þar sem repúblikanastjórnin hafi verið okkur mjög erfið (Gripið fram í.) í skauti. Það er alveg rétt.

Hér hefur komið fram að hæstv. utanríkisráðherra velur sér mjög vini, sérstaklega þegar á að fara að taka mynd. Hann hafði ekkert á móti því að vera myndaður við hliðina á Barack Obama þó að hið sama gildi ekki um ýmsa aðra eins og upplýst var áðan. (Gripið fram í.) Ég tek að sjálfsögðu undir að það er eðlilegt að við leitum góðra samskipta við ný stjórnvöld í Bandaríkjunum, það getur margt verið áhugavert í því. Þar hafa menn m.a. nefnt nýjar áherslur Bandaríkjaforseta í orkumálum og það sem við gætum lagt jafnvel af mörkum í þeim efnum eða tengst þeim. Ég minni á mikilvægi Bandaríkjamarkaðar fyrir útflutning okkar og mikilvægi þess að við höfum góð tengsl (Forseti hringir.) í viðskiptalegu og pólitísku tilliti þó að það sama gildi ekki að mínu mati um (Forseti hringir.) hinn hernaðarlega þátt.