136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Það stefnir enn einn daginn í að dagskrá þingsins verði helguð stjórnarskrármálinu meðan önnur og mikilvægari mál í þágu heimila og atvinnulífsins bíða. Við sjálfstæðismenn, herra forseti, höfum ítrekað bent á að dagskrá þingsins verði að taka mið af því ástandi sem er úti í þjóðfélaginu um þessar mundir og þingið verði að taka fyrir önnur og brýnni mál en stjórnarskrárfrumvarpið sem allir sérfræðingar — það er rétt að draga það fram — sem allir sérfræðingar og umsagnaraðilar hafa raunar bent á að þurfi lengri aðdraganda og vandaðri undirbúning.

Ég vil því gera það að tillögu minni að frumvarp forsætisráðherra um breytingar á stjórnarskrá verði sett aftast á dagskrá í dag og að fyrsta mál á dagskrá fundarins verði frumvarp iðnaðarráðherra um heimild til að reisa álver í Helguvík sem talið er að geti skapað þúsundir starfa og verið mikil vítamínsprauta fyrir hagkerfið.

Ég legg þetta til, herra forseti, og vísa í 2. mgr. 63. gr. þingskapa þar sem fram kemur að forseta Alþingis er heimilt að breyta röðun á þeim málum sem eru á dagskrá. Stjórnarskrárfrumvarpið verði að sjálfsögðu á dagskrá en það verði rætt síðar í dag.