136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:16]
Horfa

Björn Bjarnason (S):

Herra forseti. Hér hefur komið fram ósk á grundvelli 63. gr. þingskapalaga þar sem segir í 2. mgr., með leyfi forseta:

„Forseti getur breytt röðinni á þeim málum sem eru á dagskrá og einnig tekið mál út af dagskrá.“

Sú ósk hefur komið fram hér að forseti noti þetta vald sitt til að greiða fyrir þingstörfum og taka fyrir önnur mál áður en hafist verður handa við að ræða áfram stjórnarskipunarmálin. (Gripið fram í: Búið að svara þessu.) Forseti á að úrskurða um þetta samkvæmt þeirri ósk sem fram hefur komið. Þá dugar ekki fyrir forseta að vísa til umræðna á fundi (Gripið fram í.) þingflokksformanna eða í forsætisnefnd. Það er forsetinn sem ber þessa ábyrgð að þingið geti starfað og lokið þeim málum sem fyrir því liggja.