136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:22]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Á laugardaginn var kom út skýrsla fjárlaganefndar breska þingsins þar sem fjármálaráðherra Bretlands var átalinn fyrir framferði sitt gagnvart okkur Íslendingum, fyrir það offors að beita íslensk fyrirtæki hryðjuverkalögum.

Ég óskaði eftir því við hæstv. forseta þá að í dag færi fram umræða hér í þinginu um þessa skýrslu og um viðbrögð íslensku ríkisstjórnarinnar við henni. Skýrslan er auðvitað stórsigur fyrir málstað okkar Íslendinga og ég hefði talið að það þyrfti að ræða efni hennar og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við henni og hvernig hæstv. forsætisráðherra ætlar að bregðast við. Ég hefði talið einboðið að hæstv. forsætisráðherra færi nú strax og pantaði fund í Downing-stræti 10 og ræddi við flokksbróður sinn Gordon Brown um það hvernig hann ætli að bregðast við efni skýrslunnar.

Ég tel að svo miklir þjóðarhagsmunir (Forseti hringir.) séu í húfi hér, herra forseti, að taka verði þetta mál til umræðu hér á Alþingi (Forseti hringir.) strax í dag og óska eftir (Forseti hringir.) svörum við því hvenær forseti vill ræða þetta mál. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)