136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:25]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það virðist eins og hv. þingmenn stjórnarliðsins geri sér ekki grein fyrir því að í samfélaginu eru gríðarlega miklar deilur og óeining um þær breytingar sem verið er að gera á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Það er bara svoleiðis. Þeir kjósa að skella skollaeyrum við öllum þeim aragrúa athugasemda sem hafa borist okkur þingmönnum um meðferð þessa máls. Þeir kjósa að hlusta ekki á helstu fræðimenn þjóðarinnar, helstu samtök þessarar þjóðar og þá óeiningu sem er í samfélaginu við það að keyra þessar breytingar í gegn.

Við sjálfstæðismenn munum standa vörð um stjórnarskrána og taka þátt í málefnalegri umræðu fram að kjördegi ef á þarf að halda. En við viljum hvetja hæstv. ríkisstjórn til að koma hér fram með þau mál sem varða heimilin og atvinnulífið einhverju í þessu landi, þau mál sem hún hefur lofað undanfarnar vikur. Við viljum hvetja hana og styðja til að koma fram (Forseti hringir.) með þau mál og ljúka þeim í kvöld og nótt ef með þarf (Forseti hringir.) eða þess vegna yfir páskana. En breytum forgangsröðinni (Forseti hringir.) og förum að koma fram með mál (Forseti hringir.) sem skipta heimilin, fjölskyldurnar og atvinnulífið máli.