136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:27]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Það er nú einu sinni þannig með bæði mig og hv. þm. Mörð Árnason að við líkt og aðrir búum að fortíð okkar og með sama hætti flýr enginn heldur pólitíska fortíð sína.

Þar sem hv. þm. Mörður Árnason talaði um að ágreiningur væri í röðum okkar sjálfstæðismanna hvað varðar ákvæðið í 1. gr. þá höfum við bent á að hér var flutt tillaga um auðlindaákvæði af fyrrverandi formönnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem hv. þm. Björn Bjarnason hefur m.a. talað um að ætti að geta náðst sátt um.

Vandamálið er að þeir sem flytja þetta frumvarp og málsvarar þessa stjórnarskrárfrumvarps hafa ekki verið tilbúnir til neinna málamiðlana eða að koma neitt til móts við þau sjónarmið. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson flutti hér mjög góða ræðu á laugardaginn var um stjórnarskrármálið og vakti þá athygli á átakalínum hvað það varðar og gerði það hér áðan í ræðu sinni. (Forseti hringir.) Þessar átakalínur eigum við að hafa í huga og reyna að ná samkomulagi, (Forseti hringir.) eins og hv. þm. Ellert B. Schram hefur talað um. Við eigum að reyna að ná (Forseti hringir.) samkomulagi um það sem við getum náð samkomulagi um og afgreiða í sátt (Forseti hringir.) þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem við stöndum saman um.