136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:39]
Horfa

Björn Bjarnason (S):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér gleðilegt að hæstv. forseti ætlar að taka fyrir dagskrártillögu. En eðli dagskrártillögu er það að þegar hún kemur fram á að bregðast við henni strax á þeim fundi þar sem hún er lögð fram þannig að fundurinn geti haldið áfram, annaðhvort með óbreyttri dagskrá eða þeirri nýju dagskrá sem hann samþykkir eftir að tillagan er flutt. Ég held að það sé ekki aðeins nauðsynlegt fyrir hæstv. forseta að endurskoða þessa ákvörðun sína, heldur held ég að það sé nauðsynlegt fyrir hann, til að átta sig á stöðu málsins, að gera strax hlé á þessum fundi svo hægt sé að komast til botns í málinu. Það er eðli dagskrártillögu að það ber að taka hana fyrir strax til að átta sig á því hvort fundur geti haldið áfram í sama formi eða ekki. (Gripið fram í: Ekkert um það í þingsköpum.)