136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:24]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála flestum þeim atriðum sem hv. þm. Atli Gíslason bryddaði upp á. Að vísu tel ég að frekari skerping varðandi auðlindina sé óþörf en hún skemmir ekki. Það er ekki að mínu mati gildandi réttur á Íslandi að framselja til framboðs og er hvergi stoð fyrir því í lögum. En það er allt í lagi að skerpa á því, það finnst mér sjálfsagt, það styrkir stöðu Íslands og ef það eyðir misskilningi er það af hinu góða.

Ég er sammála varðandi þjóðaratkvæði, að krefjast skoðunar með ákveðnum forsendum sem ég ætla ekki að kveða upp úr um hér en ég er ósammála því sem hv. þingmaður segir og það er það sem þetta mál snýst um. Ég er ósáttur við þá hugmynd að stjórnlagaþing og Alþingi verði jafnsett. (EBS: Þjóðin hefur síðasta orðið.) Þjóðin hefur síðasta orðið í báðum tilvikum og þá er farið að etja mönnum saman, slíta friðinn og efna til ófriðar. Við þurfum ekki á því að halda að efna til ófriðar. Við þurfum ekki á því að halda í litlu þjóðfélagi eins og á Íslandi. Það ætti reyndur leikmaður eins og hv. þm. Ellert B. Schram að þekkja manna best að það er einn fyrirliði í hverju liði. Honum verður að treysta og hann verður að stjórna liðinu til sigurs með markvísi, skipulagi og leikgleði. Það gerum við ekki með því að egna mönnum saman og notum einhverja Austur-Evrópu-hugmynd um jafnsett þing fyrir jafnsett þing. Hvaða kjaftæði er þetta?