136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:26]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fer algerlega málefnalega í þetta mál og algerlega reiði- og beiskjulaust. Ég vil bara finna lausnir. Ég vil bara finna niðurstöðu. Það er það sem ég vil. Af hverju klárum við ekki 2. umr. og setjum málið í nefnd milli 2. og 3. umr. og finnum lausnir, klárum þetta svo hin mikilvægu mál komist að.

Hvað varðar 1. gr. er algerlega ljóst í mínum augum að einkaeignarrétturinn og réttarstaða gagnvart auðlindum mun ekki breytast, hv. þm. Árni Johnsen. Það er mín skoðun sem lögfræðings og það mun ekki breyta því. Það er líka mjög algengt að það séu tveir skipstjórar til sjós, reyndar ekki á sama báti. Menn stunda togveiðar saman, eru með eina vörpu og toga saman. (Gripið fram í.) Það eru líka stýrimenn um borð sem eru ráðgefandi. Það má kannski veita þeim meiri völd. Aðalatriðið er þetta með stjórnlagaþingið, að við höfum ekki borið gæfu til að endurskoða stjórnarskrána frá grunni í heild sinni sem hv. þingmaður lýsti í ræðu sinni að væri full þörf á og þar er ég honum einlæglega sammála. Við bárum gæfu til þess að endurskoða mannréttindakaflann og var vel unnið að því verki og gagnlegt, en heildina þurfum við að skoða, stöðu forsetans, stöðu hins þrískipta ríkisvalds, löggjafarvaldsins, framkvæmdarvaldsins og dómsvaldsins. Allt þetta þurfum við að skoða. Þessi umræða hefur lokast inn í flokkspólitísku búri á Alþingi. Það er ekkert að því að tvö þing — stjórnlagaþing er eingöngu kosið til þessa verkefnis — geti skilað niðurstöðu sem Alþingi geti síðan sætt sig við. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu því að ég, hv. þingmaður, treysti þjóðinni og ég trúi á þjóðina (Forseti hringir.) og ég trúi að leita eigi til hennar um mikilsverð mál.