136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

dagskrá næsta fundar.

[13:01]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég greiði að sjálfsögðu atkvæði með þeirri tillögu að taka málin sem virkilega skipta máli í þjóðfélaginu í dag á dagskrá fram fyrir það mál sem augljóslega er ágreiningur um á Alþingi. Ef menn vilja leysa málin og greiða fyrir störfum þingsins er þetta lausnin. Það getur verið að hæstv. ríkisstjórn vilji ekki opinbera þann ágreining sem nú hefur komið fram og sést glögglega á minnihlutaáliti hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur um Helguvíkurmálið þar sem hún leggst eindregið gegn því. Þetta er kannski liður í því að koma í veg fyrir að þjóðin fái að vita að vinstri grænir styðja ekki atvinnuuppbyggingu í þessu landi.

Ég neita því enn fremur, virðulegi forseti, að við sjálfstæðismenn stöndum í einhverju málþófi hér. Við erum 26 þingmenn og stöndum vörð um mesta og merkasta plaggið í stjórnskipan okkar, stjórnarskrá lýðveldisins. (Gripið fram í.) Þvert á það sem minnihlutastjórnin og stuðningsmenn hennar og fylgismenn halda fram ef menn skoða málið og kynna sér umsagnir þær sem liggja fyrir (Forseti hringir.) eigum við sjálfstæðismenn svo sannarlega skoðanabræður og -systur (Forseti hringir.) úti í þjóðfélaginu meðal þeirra sem láta sig málið varða. (Forseti hringir.) Við ætlum að standa með því fólki.