136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:01]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Aðeins vegna þeirra orðaskipta sem áttu sér stað milli hv. þm. Guðfinnu Bjarnadóttur og Álfheiðar Ingadóttur vil ég hvetja hv. þm. Álfheiði Ingadóttur til að lesa umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. (Gripið fram í.) Þar kemur skýrt fram að sambandið leggst gegn því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar, með mjög skýrum hætti. Ég bendi hv. þingmanni líka á að í gær var birt viðtal við Halldór Halldórsson, formann Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem gerði alvarlegar athugasemdir við að kosið yrði til stjórnlagaþings á sama tíma og boðað yrði og kosið væri til sveitarstjórna. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hafði miklar áhyggjur af því að kosningabarátta vegna stjórnlagaþings mundi koma mjög niður á kosningabaráttu til sveitarstjórna og galt varhuga við þeirri hugmynd sem fram kemur í frumvarpinu, bara svona til að halda þessu til haga vegna síðustu orðaskipta sem hér áttu sér stað.

Ég vil, áður en lengra er haldið, sérstaklega vegna þess að hér í salnum eru þrír hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, Álfheiður Ingadóttir, Mörður Árnason sem nú er nýkominn hingað til (Gripið fram í.) umræðunnar — fyrirgefið, stjórnarmeirihlutans — og hv. þm. Atli Gíslason, koma ákveðnum upplýsingum á framfæri við þá. Við sjálfstæðismenn höfum þurft að sæta samfelldum árásum frá stjórnarmeirihlutanum vegna þátttöku okkar í þessari umræðu, umræðu um stjórnarskrá lýðveldisins, grundvallarlög samfélagsins. Því hefur verið haldið fram við okkur að við stunduðum hér málþóf. Þar hittir kannski skrattinn ömmu sína vegna þess að þeir hv. þingmenn sem halda því fram eru þeir menn sem haldið hafa uppi málþófi í ýmsum og léttvægari málum en því sem hér er til umfjöllunar.

Þann 9. mars árið 2007 sagði hæstv. utanríkisráðherra, með leyfi forseta:

„Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og það er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál.“

Þetta er auðvitað sjónarmið sem við sjálfstæðismenn erum að reyna að halda hér á lofti í umræðu um grundvallarlög lýðræðisins, að um þau sé fjallað af ábyrgð og að við náum sátt um þessi mál. Þá er að líta á það sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði í Borgarnesræðu sinni en þar lagði hún til að stjórnmál sátta og rökræðu en ekki átaka og kappræðu væru viðhöfð í íslenskum stjórnmálum. Hins vegar virðist sem formannsskiptin í Samfylkingunni hafi leitt til þess að menn hafi lagt umræðustjórnmálin til hliðar, tekið upp átakastjórnmál og ætli núna að knýja í gegnum þetta þing með offorsi breytingu á stjórnarskipunarlögum.

Því hefur verið haldið fram af þessum hv. þingmönnum sem ég hér nefndi og kalla venjulega fram í ræður okkar sjálfstæðismanna að við séum að halda uppi málþófi. Ég vek athygli hv. þm. Atla Gíslasonar á því að umræður um stjórnarskrána hafa nú staðið yfir í rúma 34 klukkutíma. Í þeirri umræðu hafa sjálfstæðismenn tekið þátt en einnig þingmenn annarra flokka þótt þeir hafi lítið sést í umræðunni upp á síðkastið. Ég bendi hv. þingmönnum á að þegar menn ræddu hér um fjölmiðlafrumvarpið töluðu þessir hv. þingmenn í 92 klukkustundir og 59 mínútur. Þegar við ræddum hér um EES-samninginn, sem var mikilvægur, ræddu menn það mál í 100 klukkustundir. Umræðan um vatnalög tók 51 klukkustund og umræða um Ríkisútvarpið tók 119 klukkustundir og 46 mínútur. Virkur þátttakandi í þeirri umræðu var einmitt Mörður Árnason sem nú er kominn hér til umræðunnar á fyrsta degi og sakar okkur sjálfstæðismenn um málþóf. Ég held að málþófsflokkarnir, hinir einu sönnu, ættu að líta í eigin barm. Þegar við skoðum þessar tölur sjáum við að þeim er ekki stætt á því að halda því fram að við sjálfstæðismenn höldum hér uppi málþófi. Það sem við gerum er að við ræðum efnislega um stjórnarskrána, við viljum ekki að á henni séu unnin spellvirki. Það sem við viljum er að tekin verði til umræðu á Alþingi Íslendinga þau brýnu viðfangsefni sem heimilin í landinu og fyrirtækin í landinu óska eftir að hér verði rædd. Hv. þm. Atli Gíslason veit það jafn vel og ég að breytingar á stjórnarskránni munu ekki bæta skuldastöðu heimilanna. Þær breytingar munu heldur ekki koma hjólum atvinnulífsins í gang á nýjan leik og ég hvet hv. þingmann til að koma hér í andsvar við mig og skýra það út fyrir mér hvernig breytingar á stjórnarskrá eiga að koma heimilunum og fyrirtækjunum til góða.

Ég bendi líka á það að við sjálfstæðismenn höfum barist fyrir því að á þingi verði tekin upp önnur og einnig mjög brýn mál. Þar nefni ég sérstaklega skýrslu bresku fjárlaganefndarinnar um aðgerðir Breta gagnvart Íslendingum og íslenskum hagsmunum, gagnrýni bresku fjármálanefndarinnar á Alistair Darling, flokksbróður hv. þm. Marðar Árnasonar, sem beitti miklu ofríki gegn okkur í októbermánuði. Við höfum líka viljað ræða um gjaldmiðilsmálin sem eru eitt stærsta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar en í dag var upplýst að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lagt til við ríki Mið- og Austur-Evrópu að taka evru upp einhliða, þ.e. þau ríki sem gengið hafa í Evrópusambandið en fá ekki aðgang að evrópska myntsamstarfinu. Þessu er öllu hafnað af stjórnarmeirihlutanum og það er ábyrgðarhluti meðan hagkerfið brennur, meðan fyrirtækin fá ekki það súrefni sem þau þurfa til rekstrarins og meðan heimilin í landinu hafa áhyggjur af framtíð sinni.

Ég bendi þeim sem fylgjast með umræðunni á að það erum ekki við sjálfstæðismenn sem ákveðum dagskrá fundarins, það er stjórnarmeirihlutinn og hann ber á því ábyrgð.

Það er einhvern veginn þannig og virðist vera þegar maður skoðar söguna og setur hana í samhengi við breytingar á stjórnarskrám að vinstrimennska og stjórnarskrár séu ekkert sérstaklega góð blanda. Það virðist einhvern veginn vera þannig, t.d. þegar litið er til tilrauna vinstri manna til að setja stjórnarskrá fyrir Evrópusambandið þá hefur það ekki gengið neitt sérstaklega vel. Tilraunir þeirra hafa runnið út í sandinn.

Hér er verklagið ekki betra. Það er verið að grauta saman í frumvarpi einhverjum sérstökum áhugamálum þeirra fjögurra flokka sem hér koma að, það er engin heildstæð vinna sem hér er unnin við breytingar á stjórnarskránni. Það er dálítið merkilegt þegar maður skoðar bæði þetta frumvarp og sum þau frumvörp sem orðið hafa að lögum á Alþingi að vinnubrögðin hér eru dálítið öðruvísi en á öðrum vinnustöðum. Ágætur lögfræðingur hringdi í mig um daginn og spurði: Hvernig er þetta með þessa stofnun, Alþingi Íslendinga, er það virkilega þannig að hún sé öðruvísi en aðrir vinnustaðir? Þegar menn ljúka störfum á öðrum vinnustöðum eru þeir verðlaunaðir fyrir vel unnin störf með málverkum eða blómum eða gullúrum eða styttum sem settir eru á silfurplattar sem nöfn þeirra eru greypt í. En þegar menn ljúka störfum á Alþingi virðast þeir þurfa að fá sérstaka löggjöf sjálfum sér til dýrðar samþykkta á þinginu. Ég gæti nefnt nöfn en ætla svo sem ekki að gera það af tillitssemi við þá hv. þingmenn sem ég á hér við. (MÁ: … eftirlaunafrumvarpið, Sigurður Kári. … löggjöf …)

Frú forseti. Það er athugavert — (Gripið fram í.) Hæstv. forseti. Ég verð að biðja hæstv. forseta um að hafa hemil á hv. þm. Merði Árnasyni sem leyfir mér ekki að halda ræðu minni áfram í friði. Ég skora á hæstv. forseta að benda hv. þingmanni á að honum er frjálst að skrá sig á mælendaskrá ef hann vill segja eitthvað í þessari umræðu. (Gripið fram í.)

Það er annað mjög athyglisvert við þessa umræðu, að í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar er lagt til að stofnað verði nýtt þing til hliðar við það þing sem fyrir er. Ég hef bent á að með því er grafið undan Alþingi Íslendinga, virðulegustu stofnun landsins. Mér finnst í hæsta máta óeðlilegt að æðsti maður þingsins, forseti Alþingis, hafi ekkert um það að segja, hafi ekkert framlag til þessarar umræðu. Ég hef líka saknað þess að einn hv. varaþingmaður Samfylkingarinnar skuli ekki blanda sér í þessa umræðu. Þar á ég við hv. þm. Kristrúnu Heimisdóttur. Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og varaþingmaður Samfylkingarinnar, hefur nefnilega tjáð sig um þær hugmyndir sem fram koma í þessu frumvarpi. Það gerði hún í útvarpsviðtali þann 29. mars sl. Þar sagði hv. þingmaður að með þeirri leið sem valin er í frumvarpinu sé verið, með leyfi forseta, að „leita skyndilausna“ og svo bætti hv. þingmaðurinn við:

„Alveg eins og útrásaræðið var æði og peningaæðið var æði, þá er kannski komið nýtt æði.“

Þetta „nýja æði“ felst í því að boða í skyndi til stjórnlagaþings í stað þess að leggja fé í rannsóknir á stjórnarskránni. Þetta styður auðvitað þau sjónarmið sem við sjálfstæðismenn höfum haft uppi, en einhverra hluta vegna virðist hv. þm. Kristrún Heimisdóttir sem er sammála okkur sjálfstæðismönnum í grunninn, a.m.k. hvað varðar stjórnlagaþingið, ekki sjá ástæðu til að taka þátt í umræðunni, ekki frekar en forseti þingsins. Það finnst mér ákaflega ámælisvert.

Eins og ég rakti í fyrri ræðu minni kemur fram þegar menn lesa þær umsagnir sem komið hafa fram í málinu að fyrir liggur að í þeim umsögnum sem hér liggja fyrir felst algjör falleinkunn á þessu frumvarpi. Svo gott sem allir umsagnaraðilar gagnrýna mjög þá málsmeðferð sem viðhöfð hefur verið í tengslum við þetta mál og vara mjög við efnisinnihaldi frumvarpsins.

Hv. þm. Atli Gíslason gat þess mjög oft þegar hann var í stjórnarandstöðu að menn ættu að viðhafa tiltekin vinnubrögð við lagasetningu á Alþingi og veifaði þá gjarnan þessari bók sem ég held á, Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa. Ég leyfi mér að halda því fram og skora á hv. þm. Atla Gíslason að lýsa fyrir mér þeirri skoðun sinni hvort hann telji að sú málsmeðferð sem viðhöfð hefur verið í tengslum við þetta mál standist þær kröfur sem hann gerði þegar hann var í stjórnarandstöðu og þær kröfur sem fram koma í þessari handbók. Ég tel að svo sé ekki og það er algjörlega kristaltært í mínum huga að telji hv. þm. Atli Gíslason að svo sé hljóti hann að tala gegn betri vitund.

Það eru fleiri sem vekja athygli á þessu. Í Staksteinum Morgunblaðsins 4. apríl spyr höfundur hvort við Íslendingar og þingið sé á réttri leið. Í Staksteinum segir, með leyfi forseta:

„Hvað eiga Landsvirkjun, Rarik, Samorka, Samtök atvinnulífsins, Landssamband smábátaeigenda, Viðskiptaráð, Félag umhverfisfræðinga, Orkustofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, LÍÚ og Samtök um lýðræði og almannahag, Reykjavíkurakademían og laganefnd Lögmannafélags Íslands sameiginlegt?

Jú, öll gagnrýna hvernig er verið að keyra í gegnum Alþingi breytingar á stjórnarskránni, án þess að nægilegur tími gefist til skoðunar á því, hvaða afleiðingar það hefur.

Það er sláandi að lesa umsagnir fræðimanna og hagsmunaaðila til sérnefndar um stjórnarskrármál.

Sigurður Líndal telur að skoða þyrfti 1. grein frumvarpsins betur „vegna óljósrar merkingar orða og hugtaka sem þar eru notuð“. Davíð Þorláksson lögfræðingur tekur undir það og segir „verulega misráðið af stjórnarskrárgjafanum að binda 1. gr. frumvarpsins í stjórnarskrána“.

Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í stjórnskipunarrétti, segir „að með því að naumur meiri hluti á þingi samþykki stjórnarskrárbreytingar í andstöðu við stóran stjórnmálaflokk sé stjórnarskráin færð inn í hringiðu stjórnmálanna“.

Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, segir: „Veittur var frestur til 20. mars til að skila inn umsögn. Þennan frest verður að telja mjög skamman þegar umfang málsins er haft í huga.“

Eigum við að staldra aðeins við?“

Auðvitað eigum við að gera það, frú forseti. Við eigum að staldra við þegar vinnubrögðin eru með þessum hætti, vinnubrögð sem hæstv. forsætisráðherra stendur fyrir þrátt fyrir að það sé ekki í nokkru samræmi við ákvæði sem fram koma í Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa sem hennar eigið ráðuneyti gaf út og er í algjörri andstöðu við þær hefðir sem myndast hafa á síðustu áratugum varðandi breytingar á stjórnarskrá.

Þetta er í fyrsta skipti í 50 ár sem menn kjósa að fara fram með þeim hætti sem hér er gert, þ.e. að breyta stjórnarskránni, grundvallarlögum lýðveldisins, í bullandi ágreiningi við stærsta stjórnmálaflokkinn á Alþingi.

Frú forseti. Það má margt um þetta frumvarp segja og efnisatriði þess. Því hefur verið haldið fram í umræðunni að við sjálfstæðismenn séum mótfallnir því að gerðar verði breytingar sem liðka fyrir að hægt sé að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu um hin ýmsu þjóðþrifamál. Ég segi fyrir mína parta að þetta er rangt og ég hygg að allir félagar mínir í þingflokki Sjálfstæðisflokksins taki undir með mér í því sambandi. Ég held að það sé óheppilegt að færa ákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðslu inn í stjórnarskrá með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu. Ég, og við sjálfstæðismenn hefðum talið skynsamlegra að lögfesta, vilji menn á annað borð setja lög um þjóðaratkvæðagreiðslu, að gera það í almennum lögum. Rökin fyrir því eru einfaldlega þau að það kann að vera að mismunandi sjónarmið um þjóðaratkvæðagreiðslu eigi við eftir því um hvað á að greiða atkvæði. Ég geri t.d. ráð fyrir því að hv. þm. Atli Gíslason geti tekið undir það með mér að það sé eðlilegt sjónarmið að aðrar og meiri kröfur séu gerðar um tiltekinn meiri hluta eða þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem kosið er um hvort Ísland eigi t.d. að ganga í Evrópusambandið og framselja löggjafarvald og dómsvald og eftir atvikum framkvæmdarvald til yfirþjóðlegra stofnana heldur en þegar þjóðinni er fengið það hlutverk að greiða atkvæði um það t.d. að hér verði tekin upp vinstri umferð. Ég tel að menn þurfi að nálgast þetta viðfangsefni með þessum hætti.

Það er ekki gert í þessu frumvarpi.

Tíminn er að renna frá mér, frú forseti, og ég á eftir að fjalla um þjóðareign og stjórnlagaþingið. Það er alveg ljóst að þetta frumvarp þarf miklu meiri umræðu við og ýmsir þættir þessa máls eru svo illa unnir og óljósir að það er nauðsynlegt að málið fái meiri umræðu og þroskist betur, ekki síst þegar litið er til þess að í umsögnum nánast allra umsagnaraðila sem sendu sérnefnd um stjórnarskrármál álit sitt á því máli sem við ræðum hér koma fram alvarlegar athugasemdir við efnisatriði málsins.

Það er auðvitað rétt og ég ætla bara að taka það strax fram að umsögn BSRB, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, var tiltölulega jákvæð í garð þessa frumvarps en það er líklega vegna þess að formaður þeirra samtaka situr í ríkisstjórn Íslands og styður þetta mál. Aðrir gera verulegar athugasemdir við frumvarpið og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi sé reiðubúinn að fara með slíku offorsi með mál eins og þetta sem varðar grundvallarlöggjöf lýðveldisins í gegnum þingið í þeim búningi sem það er núna. Ég mun í næstu ræðu minni (Forseti hringir.) fjalla um önnur efnisatriði þessa máls.