136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:28]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að halda mig við þá fullyrðingu mína að vinstrimennska og stjórnarskrá væru ekki sérstaklega góð blanda og ég held að þegar við skoðum söguna, og hv. þm. Mörður Árnason gerir það, komist hv. þingmaður að sömu niðurstöðu og ég. Gamall kennari minn í lagadeild sagði einhvern tíma að stjórnarskrár ýmissa ríkja sem voru undir stjórn vinstri manna væru ákaflega illa gerðar og minntu sumar hverjar á lélegar blaðagreinar í Úrvali, (MÁ: Í hvaða flokki var hann?) en ég ætla svo sem ekki að fara með það mál lengra.

Ég mótmæli hins vegar því sem hv. þingmaður sagði, að ég væri óánægður með störf samtaka á borð við BSRB og ASÍ, ég er það ekki neitt. Ég er ekkert óánægður með störf BSRB og ASÍ. Ég benti hins vegar á að það er mjög athyglisvert, og ég hef margoft gagnrýnt það, hversu oft samhljómur er milli sjónarmiða í umsögnum BSRB og þeirra sjónarmiða sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur haft fram að færa í miklum deilumálum á þinginu. Það hef ég sagt og ég hef gagnrýnt formann BSRB fyrir að líta sjálfur á þau samtök sem einhvers konar skúffufyrirtæki í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og gagnrýnt hann fyrir það. Það þýðir ekki að ég gagnrýni alla félagsmenn í BSRB, síður en svo. Foreldrar mínir voru bæði í BSRB, ég hugsa hlýlega til þeirra samtaka og tel að þau vinni að mörgu leyti ákaflega gott starf fyrir launþega þessa lands. Ég benti bara á þetta atriði og ég hygg að ef hv. þingmaður (Forseti hringir.) gerir rannsókn á því hversu oft BSRB og Vinstri hreyfingin – grænt framboð eru sammála í átakamálum sem (Forseti hringir.) hafa verið á þinginu komist hann að sömu niðurstöðu og ég.