136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:37]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rangt hjá hv. þingmanni að hugtakið þjóðareign á náttúruauðlindum sé skýrt og hafið yfir allan vafa. Það er það kannski í höfðinu á hv. þm. Atla Gíslasyni en hann getur ekki haldið því fram að efnisinntak þess frumvarps sé skýrt og óumdeilt. Hann veit það alveg, hann er sjálfur hæstaréttarlögmaður. Hann man kannski eftir bókinni sem skrifuð var og gefin út um þjóðareign á náttúruauðlindum. Hann hefur kannski lesið greinar eftir Sigurð Líndal um þetta tiltekna hugtak þar sem hann skýrir út þá hugsun sína með rökum að það sé mjög óskýrt og gangi ekki upp í eignarréttarlegum skilningi. Það gerði hann líka í þeirri umsögn sem liggur fyrir í málinu. Það hefur Skúli Magnússon líka gert og það gerði Björg Thorarensen í umræðu um málið í sérnefnd um stjórnarskrármál árið 2007. Eiríkur Tómasson tók þar sérstaklega fram að skýrara væri að tala um ríkiseign.

Ég get nefnt miklu fleiri lögfræðinga sem hafa fjallað um þetta mál og lýst þeirri skoðun sinni að hugtakið þjóðareign á náttúruauðlindum sé óskýrt. Hvers vegna í ósköpunum (Gripið fram í: Ertu á móti …?) eigum við sjálfstæðismenn að fallast á breytingu á stjórnarskrá á grundvelli ákvæða sem eru þannig úr garði gerð að þau ýta undir og ala á meiri óvissu en nú er uppi? Þetta veit hv. þingmaður allt saman. Hann hefur lesið allar þessar greinar alveg eins og ég. Hann hefur hlustað á minn gamla kennara Sigurð Líndal tala um þessi mál, ekki bara einu sinni, ekki tvisvar, heldur margoft (Forseti hringir.) og gott ef hann kenndi ekki hv. þingmanni á námsárum hans í lagadeild Háskóla Íslands.