136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:09]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Hér er enn til umræðu frumvarp til breytinga á stjórnarskipunarlögum. Það fer ekkert á milli mála að í umræðunni kemur það mjög skýrt fram að umfjöllun um frumvarpið var í raun ekki lokið í hv. sérnefnd sem fjallaði um málið á milli 1. og 2. umr.

Það sem hins vegar vekur athygli er að ekki er mikill áhugi á þessu máli hjá hv. flutningsmönnum. Það er enginn af flutningsmönnum frumvarpsins í þingsalnum og enginn af hv. þingmönnum sem flytja frumvarpið tekur þátt í umræðunni. Mér er næst að halda að enginn sé í húsinu, eitthvað er því að dofna yfir áhuga hv. þingmanna yfir málinu, enda blasir það algerlega við að það er svo vanreifað og svo stórgallað að ljóst er að það verður að …

(Forseti (KHG): Hæstv. forsætisráðherra er í húsinu.)

Það er gott að vita að hæstv. forsætisráðherra er komin í húsið og væntanlega fylgist hún með umræðunni, enda veitir ekki af satt að segja miðað við innkomu hennar í umræðuna, svo lítil sem þátttaka hæstv. forsætisráðherra hefur verið raunar, en það er alveg ljóst að hún á heilmikla vinnu eftir í að kynna sér afstöðu okkar sjálfstæðismanna til málsins.

Hins vegar er eitt jákvætt sem er að gerast, að stjórnarliðar sem styðja frumvarpið eru farnir að taka þátt í umræðum með andsvörum og eru þar af leiðandi farnir að sýna sjónarmiðum okkar sjálfstæðismanna meiri skilning og athygli þeirra hefur beinst að því sem við erum að tefla fram í umræðunni og tel ég að það sé af hinu góða. Það ber kannski vott um að búa megi svo um hnútana í lokaafgreiðslu málsins að sátt náist um það, sem er auðvitað verkefni okkar. Allar deilur um að fram fari mikil umræða um málið eru náttúrlega alveg ótrúlegar vegna þess að umræður um breytingar á stjórnarskránni eru fullkomlega eðlilegar, ekki síst þegar litið er til þess að samkvæmt frumvarpinu upphaflega, ég tala ekki um frumvarpi framsóknarmanna sem hér hefur verið til umræðu, var gert ráð fyrir margra missira umfjöllun um breytingar á stjórnarskránni og endurskoðun hennar. Það á því ekki að koma neinum á óvart að nokkurn tíma þurfi til að fara yfir málið.

Hæstv. forseti. Ég ætla að fara yfir nokkur atriði sem ég tel alveg nauðsynlegt að við rifjum upp og förum yfir. Fyrst um framgang málsins og framgöngu flutningsmanna og þá áherslu sem hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og aðrir flutningsmenn hafa lagt á málið, sem tala um að nú sé nauðsynlegt vegna aðstæðna í samfélaginu að gera breytingar á stjórnarskránni.

Við skulum rifja það upp að 1. flutningsmaður frumvarpsins, hæstv. forsætisráðherra, hefur verið á Alþingi Íslendinga í 30 ár. (Gripið fram í: 31 ár.) 31 ár, já, það er rétt að telja þetta ár með. Hún hefur setið í fjórum ríkisstjórnum, þessi hæstv. ráðherra, fjórum ríkisstjórnum, og það er ekki fyrr en núna sem allt í einu hvarflar að henni að þörf sé fyrir breytingar á stjórnarskránni. Ég man ekki eftir því að þær ríkisstjórnir sem hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur setið í hafi sýnt því nokkurn einasta áhuga svo ég viti til að gera þær grundvallarbreytingar á stjórnarskránni sem hér er lagt upp með.

Hæstv. fjármálaráðherra sem hefur (Gripið fram í.) verið í … Árið 1995 voru gerðar breytingar á stjórnarskránni en ég minnist þess ekki að hæstv. forsætisráðherra hafi haft nokkurn atbeina að þeim breytingum svo afgerandi væri.

Hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hefur setið hér í yfir 25 ár. Ég sem forseti Alþingis heiðraði þau sérstaklega, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, fyrir langvarandi setu, en ég hef ekki orðið var við þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra hafi setið í ríkisstjórn um stund, að á vettvangi þeirrar ríkisstjórnar hafi hann beitt sér fyrir því að gera breytingar á stjórnarskránni. Það er skyndiákvörðun undir pressu, sérstaklega frá bjarghring ríkisstjórnarinnar, frá Framsóknarflokknum, sem ákveðið er að leggja út í þessa vegferð. Það er sorglegt að svo skuli staðið að málum. Ég tel að það séu ámælisverð vinnubrögð að standa svona að þessu. Aðdragandi og undirbúningur stjórnlagafrumvarpsins og breytinganna sem hér eru til meðferðar eru þannig að ekki er hægt að sætta sig við það. Og hafa það markmið að skapa hér óróleika, eins og ég hef vakið athygli á, og ófrið þegar síst þarf á því að halda í samfélaginu með því að tefla fram þessum breytingum á stjórnarskránni. Það er algerlega óskiljanlegt af hálfu forustumanna ríkisstjórnarflokkanna og Framsóknarflokksins.

Hvað um það. Við sitjum uppi með þetta og verðum að beita okkur, að sjálfsögðu. Til þess erum við þingmenn á Alþingi, að beita okkur gegn þeim málum sem við höfum sannfæringu fyrir að eigi ekki að fara í gegn. Athygli hefur verið vakin á því í umræðum að mörg mál hafa verið til meðferðar í þinginu sem hafa hlotið margfalt meiri umfjöllun í þinginu en það mál sem nú er til meðferðar, sem er þó breyting á stjórnarskránni. Breyting á vatnalögum var til meðferðar og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson þekkir vel það mál og kveinkaði sér ekki undan því að nýta allan þann tíma á hinu háa Alþingi til að ræða breytingar á vatnalögum. Það er því af mörgu að taka í þeim efnum. En þegar umræður voru árið 2007 um breytingar á stjórnarskránni beittu ágætir þingmenn sér fyrir því að nauðsynlegt væri að skoða málið betur. Því er nauðsynlegt að rifja upp þeirra eigin orð vegna þess að hæstv. heilbrigðisráðherra t.d. beitti sér þá með þeim hætti að eftir var tekið. Það er líka tekið eftir því núna að hæstv. heilbrigðis- og tryggingaráðherra, Ögmundur Jónasson, sést aldrei í námunda við Alþingishúsið þegar þetta mál er til meðferðar. Ég er alveg sannfærður um að hann er sömu skoðunar núna og hann var þegar hann talaði með þeim hætti sem ég ætla að vitna til, með leyfi forseta. Hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra, þáverandi hv. þingmaður, Ögmundur Jónasson, sagði, með leyfi forseta:

„Stjórnarskránni á ekki að breyta í þeim tilgangi að afla kjörfylgis í aðdraganda kosninga …“

Síðar sagði hann, með leyfi forseta:

„Það er grundvallaratriði að um stjórnskipan þjóðarinnar ríki stöðugleiki, sátt og festa.“

Undir þetta má taka. „Stöðugleiki, sátt og festa“ sagði hv. þm. Ögmundur Jónasson þá.

Annar ráðherra í ríkisstjórninni, Össur Skarphéðinsson, talaði á þeim tíma á svipuðum nótum. Össur Skarphéðinsson hefur hins vegar fylgst nokkuð með umræðum og er það virðingarvert, hæstv. forseti. Hann sagði á þeim tíma þegar fjallað var um stjórnarskrána, með leyfi forseta:

„Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og það er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál.“

Þetta voru orð Össurar Skarphéðinssonar, núverandi ráðherra í ríkisstjórn, sem beitir sér fyrir breytingum á stjórnarskránni, á stjórnlögum landsins í flaustri.

Fróðlegt væri að vita hvort hæstv. utanríkisráðherra hafi á NATO-fundunum sem hann hefur setið upp á síðkastið leitað ráða hjá pólitískum samherjum sínum á þeim vettvangi um hvernig best væri að standa að breytingu á stjórnarskránni. Fróðlegt væri að vita það. En það eru fleiri hæstv. ráðherrar í núverandi ríkisstjórn sem hafa tjáð sig um breytingar á stjórnarskránni. Þegar fjallað var um breytingar sem voru miklu umfangsminni, minni háttar breytingar á stjórnarskránni, sagði hæstv. núverandi ráðherra, Kolbrún Halldórsdóttir, við það tækifæri, með leyfi forseta:

„Eins og ég sagði finnst mér þetta vera óðagot og mér þykir það mjög miður því að hér er verið að fjalla um afar víðtækt og mikilvægt mál sem ég held að þjóðin verðskuldi að fái betri umfjöllun um en hér virðist eiga að fást.“

Þetta sagði núverandi hæstv. umhverfisráðherra um minni háttar breytinga á stjórnarskránni. Það er ástæða til að rifja þau orð upp vegna þess að þau hljóta að vekja þessa ágætu ráðherra og þingmenn stjórnarliðsins til umhugsunar. Núverandi fjármálaráðherra lét ekki sitt eftir liggja í þeirri umræðu. Hann sagði, með leyfi forseta:

„En ég bara trúi því ekki að menn ætli að bera það á borð að örvæntingin í stjórnarherbúðunum, sem myndaðist á fáeinum sólarhringum fyrir og um flokksþing Framsóknarflokksins“ — takið eftir, Framsóknarflokksins — „sé gjaldgeng ástæða til þess að standa svona að málum, að umgangast stjórnarskrá og vandasöm viðfangsefni þar með léttúð af þessu tagi. Ég læt segja mér það þrisvar að menn ætli í raun og veru að gangast við því að slíkt sé verjanlegt og réttlætanlegt og fara þá leið allar götur til enda.“

Þetta var ræða núverandi hæstv. fjármálaráðherra. Hann minntist þarna á Framsóknarflokkinn. Það eru fleiri sem hafa tjáð sig um þetta og ekki svo sem ástæða til að rifja það upp. En fróðlegt hefði verið að heyra afstöðu þeirra ráðherra í ríkisstjórninni sem hafa ekki talað um þetta, eins og t.d. núverandi hæstv. dómsmálaráðherra sem fjallar um þann mikilvæga málaflokk, og fróðlegt hefði verið að fá innlegg frá þeim hæstv. ráðherra sem hlýtur að hafa tekið þátt í undirbúningi og umræðum í ríkisstjórninni um þessar breytingar. En hæstv. dómsmálaráðherra hefur ekki látið sjá sig í þessari umræðu. Hún hefur ekki tekið þátt í henni. Það hefði verið mikill fengur að því að heyra sjónarmið ráðherra sem hefur fylgst vel með þessum málum sem varðar stjórnarskrá væntanlega. En fyrrgreind orð voru þeirra eigin orð, þeirra sem núna vilja breyta stjórnarskránni.

Í umfjöllun nefndarinnar, eins og hv. þingmenn sem hér eru inni og hlýða á mál mitt vita, voru mörg varnaðarorð uppi og ég ætla ekki að fjalla sérstaklega um þau vegna þess að hv. þingmenn hafa væntanlega kynnt sér það til hlítar hver afstaða umsagnaraðila hefur verið. En almennt má segja að umsagnir um frumvarpið voru neikvæðar og varað var við þessum flausturslegu vinnubrögðum.

Tillögur Sjálfstæðisflokksins hafa hins vegar gengið út á það að bæta vinnubrögðin, bæta vinnulagið, ýta frumvarpinu eins og það er til hliðar en tryggja að við gætum gert breytingar á stjórnarskránni þannig að við gætum í framhaldi af kosningum sem fram undan eru staðið að breytingum á stjórnarskrá og undirbúið það með eðlilegum hætti, m.a. hvað varðar þjóðaratkvæðagreiðslu og annað það sem hér er verið að fjalla um, en gera það þá að vel athuguðu og undirbúnu máli. Við sjálfstæðismenn höfum eins og hv. þingmenn þekkja lagt áherslu á önnur vinnubrögð en fram koma gagnvart þessu frumvarpi.

Við viljum skapa möguleika á því að hægt sé að vinna vandlega að breytingum á stjórnarskránni. Við teljum að breyta eigi stjórnarskránni í fjölmörgum atriðum og vel komi til greina að það sé gert m.a. með umfjöllun á svokölluðu stjórnlagaþingi en að það verði ráðgefandi og tillögur stjórnlagaþings um breytingar á stjórnarskránni, sem þurfa að vera fjölmargar eins og ég sagði, ættu síðan að koma inn til Alþingis til endanlegrar umfjöllunar í staðinn fyrir það sem hér er lagt til, að ýta Alþingi Íslendinga til hliðar sem ég tel ekki koma til greina. Það sem ég hef gert sérstakar athugasemdir við eru hugmyndir um stjórnlagaþing sem taki yfir löggjafarvald Alþingis og stjórnlagavaldið.

Margar tillögur hafa komið fram eins og athygli hefur verið vakin á. Framsóknarmenn komu með frumvarp sem stjórnarflokkarnir hentu til hliðar. Þeir lögðu til að kosnir yrðu 63 þingmenn á sérstakt stjórnlagaþing sem færi með það verkefni að breyta stjórnarskránni, 63 þingmenn sem stæðu í þessu missirum saman og sæju um að breyta stjórnarskránni. Síðan gerist það að stjórnarflokkarnir taka þetta í sínar hendur og lagt er fram frumvarp eins og hv. þingmenn þekkja. Því er síðan umturnað þegar ljóst var hvers konar umfang þarna var á ferðinni og hversu mikill kostnaður átti að verða við stjórnlagaþingið. Hér er komin breytingartillaga sem felur í sér að umfang stjórnlagaþings — nauðsynlegt er að almenningur í landinu viti um þetta því það er svo mikið talað um að kalla eigi þjóðina til — miðað við þær breytingartillögur sem meiri hluti nefndarinnar hefur lagt fyrir er einungis einn fjórði þess sem upphaflega var lagt af stað með af hálfu stjórnarflokkanna og enn minna umfang en Framsóknarflokkurinn lagði upp með í upphafi sem lagði til 63 þingmenn. Hér hefur verið slegið verulega undan í þessu en það þarf að ljúka því að koma í veg fyrir að þessi breyting nái fram að ganga.

Við sjálfstæðismenn leggjum áherslu á að það eigi eftir góðan undirbúning og án þess að það sé sett inn í stjórnarskrá að efna til mikillar og vandaðrar vinnu, mikils samráðs við aðila í samfélaginu á vettvangi stjórnlagaþings sem mætti kjósa til sem ráðgefandi.

Rétt er að vekja athygli á því að hugmyndir hafa komið upp um þann kost að Alþingi tæki að sér á sérstökum fundum um stjórnlagamálefni að fjalla um breytingar á stjórnarskránni þannig að tiltekinn tími ársins gæti verið tekinn frá, t.d. síðla sumars eða fyrri part sumars þar sem Alþingi fjallaði eingöngu um breytingar á stjórnarskránni. Ég tel að það kæmi vel til greina og það hlyti að mega skoða það. En hvað um það. Stjórnlagaþing sem tekur yfir hlutverk Alþingis finnst mér ekki koma til greina en við eigum að ganga til breytinga á stjórnarskránni á þeim nótum sem við sjálfstæðismenn höfum lagt áherslu á.

Aðeins að lokum, virðulegi forseti. Ég vara mjög við öllum hugmyndum, hvernig sem til verður stofnað um kjör á stjórnlagaþing, að það verði gert á sama tíma og sveitarstjórnarkosningar. Ekki á að trufla sveitarstjórnarkosningar með því að blanda þeim saman við kjör til stjórnlagaþings. Þess vegna tek ég undir varnaðarorð margra sveitarstjórnarmanna sem hafa lagt áherslu á að ekki yrði kosið til stjórnlagaþings um leið og kosið yrði til sveitarstjórna.

Að öðru leyti, hæstv. forseti, ítreka ég varnaðarorð mín um að þetta mál er ekki fullreifað og teldi ég langeðlilegast að beðið yrði með frekari umfjöllun um það.