136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:34]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir það andsvar sem hann gaf hér. Ég dreg þá ályktun af því að um 1., 2. og 3. gr. þess frumvarps sem hér liggur fyrir megi finna sáttaleið eða sameiginlega niðurstöðu milli þeirra sem annars vegar flytja frumvarpið og styðja það og hinna sem hafa gert verulegar athugasemdir.

Mér fannst koma fram ákveðinn misskilningur í máli hv. þingmanns varðandi 4. gr. Sú hugmynd sem hér er til meðferðar, þ.e. stjórnlagaþingið og kosning á það, gengur út á það að stjórnlagaþingið fái rétt til þess að gera tillögur um breytingu á stjórnarskipun. Alþingi hefur umsagnarrétt um þá tillögu og á endanum er það þjóðin sjálf sem kveður upp úr um hvort ný stjórnarskrá skuli sett. Það þing eða sá hópur sem fær þá væntanlega tækifæri til þess að vinna að endurbótum eða endurskoðun stjórnarskrárinnar hefur þá umboð sitt beint frá þjóðinni sjálfri í gegnum persónukjör eins og það er hugsað hér. Sá hópur eða það þing hefur síðan rétt á því að leggja fram tillögur til breytinga.

Í fyrsta lagi sækir þingið uppsprettu heimilda sinna til fólksins í landinu og í annan stað er það fólkið í landinu sem á endanum mun taka afstöðu til þeirra hugmynda sem þarna verða til. Hv. þingmaður sagði að þingið gæti gert beinar breytingar á stjórnarskránni en það er ekki rétt. Þannig að ég spyr enn og aftur: Erum við ekki (Forseti hringir.) í raun og veru að tala um það að heldur styttra sé á milli okkar en hv. þingmenn vilji vera láta og að auðvelt sé að ná hér samkomulagi?