136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:36]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði hér fyrr þá er það mikil framför að hér eru farnar að fara fram umræður, skoðanaskipti um grundvallaratriði. Það er mikill árangur sem við höfum náð í þessari umræðu.

Aðeins út af því sem hv. þingmaður sagði. Grundvallaratriði og aðalatriði í gagnrýni okkar er að við sjálfstæðismenn viljum ekki setja Alþingi til hliðar. Það er útgangspunktur og aðalatriði í okkar huga. Það að þjóðin komi nær þessu með persónukjöri til stjórnlagaþingsins — það er ekkert á móti því að kosið sé til stjórnlagaþings sem fái það verkefni að undirbúa tillögur um breytingar á stjórnlagaþingi þar sem kallaðir hafa verið til samráðs ótalmargir aðilar í samfélaginu og sendi þær tillögur til Alþingis sem fjalli endanlega um þær. Þannig væri með góðri og traustri útfærslu hægt að halda styrk og virðingu Alþingis en kalla til hóp úr samfélaginu, valinn hóp, kjörinn hóp, til þess að vinna að því mikilvæga verkefni að breyta stjórnarskránni sem við erum nánast öll sammála um að þurfi að breyta.

Það er þessi tilraun sem við sjálfstæðismenn erum að reyna að gera og reyna að sannfæra flutningsmenn frumvarpsins um. Við erum að reyna að fá okkar bestu menn, m.a. þá sem eru í sérnefndinni, til þess að fallast á þau sjónarmið að það er ekki til farsældar fallið að setja Alþingi niður með því (Forseti hringir.) að ýta því til hliðar. Það er það sem við getum ekki samþykkt.