136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:49]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til stjórnarskipunarlaga og sú umræða hefur staðið yfir í nokkra daga. Ég hef átt þess kost að fylgjast með umræðunni bæði úr þingsal og sem forseti og jafnframt úti á minni skrifstofu. Ég á ekki sæti í þeirri nefnd sem hefur unnið að undirbúningi þessa frumvarps og þess vegna vildi ég síðar í ræðu minni, herra forseti, fara yfir einstök atriði í frumvarpinu og gera grein fyrir sjónarmiðum mínum og leggja fram þær spurningar sem mér finnst ekki vera svarað í frumvarpinu.

Ég vil byrja á að segja, herra forseti, að nú er farið að birta og komið vor hjá okkur eftir erfiðan vetur þar sem við Íslendingar urðum fyrir miklu efnahagshruni sem auðvitað hefur verið víðar um heim. Við lentum í því, ef svo má að orði komast, að hér urðu stjórnarslit. Við höfum fengið marga fræðimenn til að koma til landsins til að fara yfir þau vandamál sem steðja að samfélaginu. Meðal annars kom hingað fyrrverandi forsætisráðherra Svía, Göran Persson, sem taldi að við ættum að varast sem lengst upphlaup í stjórnmálum og að stjórnmálaástandið færi úr skorðum en það er einmitt það sem er að gerast á Íslandi. Hér hafa orðið stjórnarslit. Hér starfar minnihlutavinstristjórn sem taldi að hún gæti ráðið bót á öllum okkar vandamálum á skömmum tíma. Því miður hefur það ekki gerst heldur hitt að öll úrræði og allar umbætur sem gera þarf í samfélaginu til að bankarnir, fyrirtækin og ekki síst heimilin geti litið fram á vorið og þetta ár björtum augum, hafa ekki náð fram, sáralítið hefur gerst sem hefði þó þurft að gera. Fyrri ríkisstjórn var að vísu búin að leggja fram mál sem sum hver hafa náð í gegn og það er auðvitað vel. Það er nöturlegt, herra forseti, að fylgjast með umræðunni undanfarna daga þar sem stjórnarandstaðan vildi taka á dagskrá þau mál sem eru brýnust úrlausnar í samfélaginu sem varða fyrirtækin og heimilin, og er undravert að ekki skuli heyrast hljóð úr neinni dollu fyrir utan þinghúsið þegar ekkert er að gerast í málefnum fjölskyldnanna eða fyrirtækjanna.

Það er nöturlegt, herra forseti, að ekki skuli vera tekið á þeim málum sem hér eru þó á dagskrá þingsins eins og stórt atvinnumál sem er það að klára þau málefni sem varða álverið í Helguvík þar sem gríðarlega mörg störf mundu verða til, bæði við orkuöflun og uppbyggingu álversins akkúrat á þeim tíma þegar við þurfum mest á því að halda. Nei, því miður, þá er verið að fjalla um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins og það er fjallað um það á undraverðan hátt vegna þess að það hefur komið hér fram æ ofan í æ að það á að gera með þeim hætti að samráð er með minnsta móti. Það er nánast ekkert samráð og algerlega í fullum ágreiningi við stjórnarandstöðuna. Það er öðruvísi en áður hefur verið í okkar ágæta landi þar sem menn hafa síðustu 50 árin staðið saman að því að breyta stjórnarskrá lýðveldisins. Svo er ekki nú. Hvers vegna skyldi það vera? Hverju er verið að ná fram með þeim breytingum sem nú er verið að leggja til? Ég mun koma að því síðar í ræðu minni, herra forseti.

Við sjálfstæðismenn erum að sjálfsögðu tilbúnir hér eftir sem hingað til að vinna að nauðsynlegum og eðlilegum breytingum á stjórnarskránni en það verður að vinnast á vettvangi Alþingis og meðal þeirra sem þar eru kjörnir til en ekki með því að útvista slíkum verkefnum.

Eins og ég sagði í upphafi átti ég þess kost að hlusta á margar ræður og m.a. ræðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur þegar hún fór yfir málið. Hún reifaði í raun fyrst og fremst nefndarálitið og frumvarpið en margt í ræðu hennar var undarlegt og hvernig hún fór yfir þessi mál. Ég sagði í ræðu undir liðnum um fundarstjórn forseta að líklega yrði þetta mál afgreitt af hálfu framsóknarmanna á Klörubar og það er kannski að verða raunin.

Ég verð jafnframt, þar sem ég sá hér hv. þm. Ellert Schram áðan, að lýsa undrun minni þegar ég hlustaði á ræðu hans við 2. umr. þessa máls. Ég get ekki lýst því öðruvísi en sem afskaplega miklu uppgjöri við fortíðina, uppgjöri sem ég átta mig ekki á og skil ekki að Sjálfstæðisflokkurinn skuli vera bæði með horn og klaufir í hans huga. Allt sem gerst hefur í samfélaginu síðustu 50 árin, ég nefndi það áðan, herra forseti, að í 50 ár hefur stjórnarskráin verið afgreidd ágreiningslaust og þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í fararbroddi í stjórnun lýðveldisins. Þess vegna undraðist ég mjög þá ræðu sem hv. þm. Ellert Schram flutti hér.

Það er gjarnan svo með nýja þingmenn sem mæta til leiks á Alþingi að það er mikill hátíðarbragur yfir því þegar þeir koma fyrst til þings og undirrita drengskaparheitið við stjórnarskrána. Þetta er mikil virðingarstund fyrir hvern og einn sem kemur í þennan sal að skrifa undir þetta drengskaparheit. Ég held að margir sem hafa starfað hér lengi átti sig hreinlega ekki á því hverju þeir eru að afsala frá hinu háa Alþingi. Þeir eru kjörnir af þjóðinni á þingið til að semja og samþykkja lög, hafa áhrif á stjórnarskrána og breyta henni en leggja það til eftir langa starfsdaga á Alþingi að nú eigi að útvista þessu. Þetta er kannski nýyrði frá útrásinni að nú eigi að útvista hlutum frá ríkinu. Þetta eru alger öfugmæli hvernig þetta er lagt upp í frumvarpinu, herra forseti, og mjög ótrúlegt miðað við þær aðstæður sem eru í samfélagi okkar núna hvernig þetta er lagt upp.

Ég ætla nú snúa mér örlítið að frumvarpinu sem slíku og hverri grein fyrir sig, herra forseti, og kem þá að 1. gr. frumvarpsins sem verður 79. gr. Þetta er ný grein. Þar segir:

„Náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru þjóðareign.“ — Ég hef tekið eftir því í máli manna að þjóðareignarhugtakið hefur ekki verið skýrt nákvæmlega. Ég held að það sé eitt af því sem er nauðsynlegt í þeirri umræðu sem við eigum hér að það sé skýrt nákvæmlega þannig að þingið og þjóðin viti hvað verið er að segja þarna. Jafnframt segir í 1. gr.: — „Ríkið fer með forsjá þeirra, vörslu og ráðstöfunarrétt og hefur eftirlit með nýtingu þeirra í umboði þjóðarinnar eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.“ — Þá er spurningin í hvaða lögum og hvernig á að greina frá því? Við þurfum að hafa þetta skýrara. Það koma svo síðar inn, herra forseti, breytingartillögur við frumvarpið sem ég ætla jafnframt að fara yfir, en þarna er ég að benda á að við þurfum að hafa skýrt og klárt hvað átt er við.

Ég held áfram með tilvitnun í frumvarpið, herra forseti:

„Allar náttúruauðlindir ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir. Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi.

Allir eiga rétt til umhverfis sem stuðlar að heilbrigði og þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Réttur almennings til upplýsinga um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það, svo og kostur á þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið, skal tryggður með lögum.“

Það eru margar spurningar sem vakna, herra forseti. Við erum með löggjöf hér á þinginu. Í fyrsta lagi löggjöf sem við köllum rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og gufu. Þar erum við að fara einmitt yfir þessi atriði. Hvers vegna þarf að taka þetta þarna inn? Við erum jafnframt með löggjöf sem liggur fyrir þinginu núna, þ.e. náttúruverndaráætlanir. Við erum með sérlög um þjóðgarða sem eru á nokkrum stöðum á landinu og sérlög um þjóðgarðinn á Þingvöllum. Hver er nálgunin með að koma þessu inn í stjórnarskrá og hafa svo alla þessa löggjöf sem fyrir er?

Það segir hér „áhrif framkvæmda“. Við erum með löggjöf um umhverfismat áætlana. Ég vildi gjarnan fá það skýrt fram hvernig menn ætla að láta þessa harmoníu ná saman varðandi þetta atriði, 79. gr., sem er ný, og það sem við erum að vinna með í löggjöfinni nú þegar. Við erum jafnvel með löggjöf um stjórn auðlindanna, stjórn fiskveiða. Við erum með ákveðna löggjöf og reglur um vatnsréttindi fallvatnanna. Þarna held ég að þurfi að fara yfir málin og eðlilegt að þetta sé tilgreint.

Í 2. gr., sem er núna 79. gr. laganna og verður 81. gr., segir svo, með leyfi forseta:

„Frumvarp til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari má bera upp á Alþingi. Þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarpið skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu í leynilegri atkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar. Atkvæðagreiðslan skal fara fram í fyrsta lagi einum mánuði og í síðasta lagi þremur mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi. Sé meiri hluti gildra atkvæða fylgjandi frumvarpinu, þó minnst 25 af hundraði allra kjósenda á kjörskrá, skal það staðfest af forseta Íslands og öðlast þá gildi sem stjórnarskipunarlög.

Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins skv. 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.

Nánari tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu skv. 1. og 2. mgr. skal ákveðin með lögum.“

Ég vil gera nokkur atriði í þessari grein að umtalsefni, herra forseti. Reyndar koma breytingartillögur við greinina og mun ég koma að þeim nánar síðar.

Ég vil nefna eitt atriði og það er að forseti Íslands verður að staðfesta þessi lög eins og reyndar önnur lög. Hefur það verið rætt á hinu háa Alþingi? Hafa menn skoðað það hvort forsetinn muni yfirleitt staðfesta þessi lög, þessa breytingu á stjórnarskrá? Við áttum í langri og mikilli umræðu um fjölmiðlalög og þar var heldur betur málþóf og gríðarlega mikil umræða var um fjölmiðlalögin og eignarhald á fjölmiðlum. Þá kom upp í umræðunni að ekki væri víst að forseti Íslands mundi staðfesta lögin. Ég hef ekki heyrt það en ég vil spyrja: Er það augljóst og sjálfgefið að forseti Íslands muni staðfesta þessi lög?

Á þeim tíma þegar fjölmiðlafrumvarpið var til umræðu, sem við hefðum betur fengið samþykkt og gert að lögum vegna þess að við þá atburði sem þá runnu af stað, þegar lögin náðu ekki fram og fengu ekki undirritun forseta Íslands, náðu þeir sem höfðu tökin á fjölmiðlunum yfirtökum í samfélaginu. Það skyldi þó ekki koma í ljós við þá miklu skoðun sem nú er verið að vinna að varðandi efnahagshrunið hvort það hafi ekki m.a. ásamt með ýmsu öðru verið upphafið að því að auðmenn náðu hér fótfestu og náðu því valdi sem þeir ætluðu sér? Við vissum að þáverandi hæstv. forsætisráðherra var að undirbúa lagasetningu um krosseignatengsl í samfélaginu, m.a. á milli fyrirtækja og banka. Það hefði verið þjóðinni gott ef fjölmiðlalögin hefðu náð fram að ganga og gert það gagn sem þeim var ætlað.

Á þeim tíma — af því að enn eru í Alþingishúsinu brotnar rúður og bjálkar fyrir hurðum að innan sem bera ummerki þess þegar búsáhaldabyltingin náði að berja á Alþingishúsinu — þegar fjölmiðlafrumvarpið var til umræðu var bönunum hent í Alþingishúsið og sagt að við byggjum í bananalýðveldi. Það væri gaman og fróðlegt að heyra frá þeim aðilum sem töluðu um að á Alþingi réðu menn sem væru að stjórna bananalýðveldi. Hvaða lýðveldi er það sem er að breyta stjórnarskrá sinni með þeim hætti sem hér er lagt til í fullkominni ósátt á þinginu? Frá síðustu 50 árum er verið að leggja til stjórnarskrárbreytingu í fullkominni ósátt. Mér finnst að orðið bananalýðveldi ætti að koma upp í hugann þegar við skoðum tímann og það sem gerst hefur hér frá því að við ræddum fjölmiðlalögin.

Í 2. gr. sem ég vitnaði til segir, með leyfi forseta:

„Nánari tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu … skal ákveðin með lögum.“ Því er ekki svarað til fullnustu hvernig það á að gerast.

3. gr. frumvarpsins, sem verður 80. gr. laganna, orðast svo, með leyfi forseta:

„Alþingi skal láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin lög eða málefni sem varðar almannahag ef 15 af hundraði kjósenda krefjast þess. Atkvæðagreiðslan skal fara fram innan þriggja mánaða frá því að staðfest krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu liggur fyrir.

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar er bindandi þegar hún fjallar um gildi tiltekinna laga og meiri hluti gildra atkvæða er fylgjandi tillögu sem borin er upp, þó minnst 25 af hundraði allra kjósenda á kjörskrá. Þó er ekki hægt að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög um skattamálefni og lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum.

Nánari reglur um málsmeðferð varðandi kröfu kjósenda og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar skulu settar með lögum.“

Gott væri ef flutningsmenn frumvarpsins færu svolítið yfir þessi atriði og skýrðu þau betur út. Í ýmsum athugasemdum við frumvarpið hafa komið fram athugasemdir við þessa hundraðshluta sem tilgreindir eru í 3. gr. lagafrumvarpsins, sem verður 80. gr. laganna. Skýringu vantar. Umræðu skortir um hvar þessi mörk eigi að liggja, hvort þau eru of lág eða þarf að hækka þau? Slík umræða hefur ekki átt sér stað hér. Það er ekki nógu málefnaleg umræða um frumvarpið.

Í 4. gr. frumvarpsins segir svo, með leyfi forseta:

„Við stjórnarskrána bætist nýtt ákvæði um stundarsakir, svohljóðandi:

Forseti Íslands skal boða til stjórnlagaþings til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33 17. júní 1944, þar sem byggt verði áfram á lýðræðisskipan, réttarríki og vernd mannréttinda. Stjórnlagaþing skal skipað 41 þjóðkjörnum fulltrúa og jafnmörgum til vara. Um kjörgengi og kosningu fulltrúa á þingið og skipulag þingsins skal mælt fyrir í sérstökum lögum sem sett verði að loknum alþingiskosningum vorið 2009.“

Ljóst er, herra forseti, að setja á reglur og lög eftir á. Við þurfum auðvitað að sjá hvernig heildarmyndin er. Þess vegna er ekki tímabært að klára þetta mál hér og nú. Við eigum að láta það liggja og taka frekar á dagskrá þau mál sem varða fjölskyldurnar og heimilin. Það eru þau mál sem okkur liggur á að taka fyrir. (Gripið fram í.) Við verðum að snúa dagskrá þingsins í raun og veru við, setja þetta mál aftur fyrir á dagskránni og klára þau mál sem varða fjölskyldurnar og heimilin í landinu.

Hv. þm. Atli Gíslason kallar fram í að þá eigi ég að stytta mál mitt. Málið er svo grafalvarlegt að þessi della má ekki fara í gegnum hið háa Alþingi. Við verðum auðvitað að tala um hvaða hlutir það eru sem þarf að breyta og fara yfir. Þjóðin þarf að heyra og sjá hvað er verið að gera hér og hvaða forgangsmál á Alþingi eru í dag. (Gripið fram í.) Ég held að þjóðin hafi gott af því. Þjóðin hefur gott af því og vill fá að heyra það. Þjóðin þarf að fylgjast með hvað verið er að tala um á Alþingi, hver áhersluatriðin eru og hvernig vinnubrögðin eru.

Hér er, hv. þingmaður, heill bunki af umsögnum frá umsagnaraðilum þar sem oftast kemur fram að of stuttur tími er gefinn til umsagnar og ekki sé ráðlegt að halda áfram með málið. Þetta eru málsmetandi aðilar í samfélaginu. Þetta eru menn og félagasamtök, hver sínu sérsviði. Það er sérsvið þeirra sem um ræðir, ég þarf því miklu lengri tíma til að fara yfir alla þessa pappíra til að gera grein fyrir því hvað málið er alvarlegt.

Ég ætla að halda áfram, herra forseti, að lesa upp úr 4. gr. frumvarpsins. Þar segir einmitt:

„Um kjörgengi og kosningu fulltrúa á þingið og skipulag þingsins skal mælt fyrir í sérstökum lögum sem sett verði að loknum alþingiskosningum vorið 2009. Stjórnlagaþing setur sér sjálft starfsreglur.“

Þetta stendur í frumvarpinu.

Við erum með reglur úr lögum um það hvernig skipan þingsins er, hvaða nefndir eru og hvernig þingstörfin ganga. Það eru reglur sem hafa verið margendurskoðaðar og farið yfir. Okkur gengur ekki allt of vel að fylgja þeim þannig að ég held að þetta sé allt of opið. Stjórnlagaþing mun hreinlega ekki vinna þá vinnu sem því er ætlað á svo skömmum tíma. Það er flókið, það er gríðarlega dýrt. Ég mun fara yfir það síðar í ræðu minni, herra forseti, að kostnaðurinn við stjórnlagaþing er gríðarlega mikill og við vitum sem er að við eigum ekki fyrir því. Við munum þurfa að taka lán fyrir því að reka stjórnlagaþing sem mun kosta hundruð milljóna.

Í 4. gr. segir, herra forseti:

„Stjórnlagaþing skal koma saman eigi síðar en 1. desember 2009.“

Auðvitað ætti að standa að það kæmi saman á Þingvöllum. Það væri bragur að því. Þá gengjum við aðeins í takt ef það væri sett fram.

„Þingið skal ljúka störfum eigi síðar en 17. júní 2011 en getur sjálft ákveðið að ljúka störfum fyrr.“

Það væri kostur til sparnaðar ef svo yrði, herra forseti.

„Einnig er Alþingi heimilt með ályktun að verða við beiðni stjórnlagaþings um að framlengja starfstíma þess um allt að sex mánuði.“

Það gæti verið að það þyrfti að lengja það og auka kostnaðinn enn meira. Það væri ekki útilokað og sérstaklega ef stjórnlagaþingið á sjálft að setja sér starfsreglur um lengd ræðutíma o.s.frv. getur það þurft að starfa í 6 ár en ekki 6 mánuði.

„Áður en stjórnlagaþing samþykkir frumvarp að nýrri stjórnarskrá skal það sent Alþingi til umsagnar.“

Að hugsa sér, herra forseti. Alþingi Íslendinga á að veita umsögn um stjórnarskrá sem lýðveldið á að búa við. Það er mikið valdaafsal. Hugsa sér að Alþingi Íslendinga, þeir sem eru kjörnir af þjóðinni, þjóðkjörnir fulltrúar eins og verið hefur á Alþingi frá upphafi þingsins eiga nú að veita umsögn um stjórnarskrána.

Ég held áfram með 4. gr., herra forseti:

„Þegar stjórnlagaþing hefur samþykkt frumvarp að nýrri stjórnarskrá skal það á ný sent Alþingi sem getur innan eins mánaðar ákveðið með rökstuddri tillögu að vísa frumvarpi aftur til stjórnlagaþings.“

Það er ekkert annað. Það er hægt að vísa því til baka og láta það fara aftur.

„Skal þá taka frumvarpið aftur til meðferðar þar með hliðsjón af rökstuddri tillögu Alþingis. Þarf þá 2/3 hluta fulltrúa á stjórnlagaþingi til að samþykkja frumvarpið nema fallist sé á rökstudda tillögu Alþingis um breytingar á frumvarpinu og þarf þá aðeins einfaldan meiri hluta. Náist slíkt samþykki skal frumvarpið lagt í þjóðaratkvæðagreiðslu skv. 6. mgr. en ella telst það fellt.“

Við erum með fullt af blindgötum á þessari vegferð í 4. gr. og við getum þurft að byrja ítrekað upp á nýtt, tíminn líður og kostnaður hækkar. Ég held áfram með 4. gr.:

„Berist stjórnlagaþingi ekki rökstudd tillaga frá Alþingi eftir samþykkt frumvarpsins skv. 4. mgr. skal frumvarp að nýrri stjórnarskrá lagt í þjóðaratkvæðagreiðslu skv. 6. mgr. Frumvarp að nýrri stjórnarskrá skal lagt undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu í leynilegri atkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar. Sé meiri hluti gildra atkvæða fylgjandi frumvarpinu, þó að minnsta kosti 25 af hundraði allra kjósenda á kjörskrá, skal það staðfest af forseta Íslands og er það þá gild stjórnarskipunarlög.“

Þarna eru líka pyttir um prósentur, um hundraðshluta, og við þurfum að vera viss um það að forseti Íslands staðfesti lögin. Svo segir að lokum:

„Stjórnlagaþing skal setja nánari reglur um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar.“

Það er ekki þingsins að setja reglurnar um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Það er stjórnlagaþingsins að gera það. Það er stjórnlagaþingsins að setja nánari reglur um hvernig staðið skuli að þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér virðist, herra forseti, að um nýtt þing sé að ræða. Hvers vegna eru þeir sem sitja á hinu háa Alþingi og beðið hafa þjóðina að kjósa sig að útvista frá Alþingi þeim meginverkefnum sem þeir eiga að standa fyrir? Það er ótrúlegt. Það fólk og þeir flokkar eiga ekki að bjóða sig fram til að vinna þá vinnu sem okkur ber að inna af hendi.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram meginverkefni þessara nefnda eða verkefni ríkisstjórnarinnar, þessarar minni hluta ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna, sem flokkarnir tveir voru sammála um 1. febrúar 2008. Þá setti ríkisstjórnin fram markmið í umræddu frumvarpi þar sem kveðið skyldi á um auðlindir í þjóðareign, sett yrðu ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur, ákveðin yrði aðferð við að breyta stjórnarskrá o.s.frv. Þar eru tilgreindir þeir aðilar sem voru í þessari sérstöku nefnd sem var ráðgjafahópur. Mig langar að nefna það hér, herra forseti, að formaður þessa hóps, Bryndís Hlöðversdóttir dósent og forseti lagadeildar Háskólans í Bifröst sem hefur tekist á hendur að vinna þetta verk fyrir stjórnarflokkana, er jafnframt formaður nefndar sem fyrrverandi forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson og þáverandi forsætisnefnd skipuðu til að fara yfir eftirlitshlutverk Alþingis. Ég held, herra forseti, að okkur hefði í raun verið nær nú miðað við þær aðstæður sem við búum við í þessu landi að leggja áherslu á þá vinnu sem þar var lagt upp með og ég veit raunar að verið er að vinna að því máli. Þar er talað um að eftirlitshlutverk Alþingis verði eflt.

Við áttum góða ráðstefnu í haust þar sem fengnir voru fulltrúar frá þjóðþingunum á Norðurlöndum sem fóru yfir hvernig eftirlitshlutverk væri rækt af hinum þjóðþingunum á Norðurlöndunum og við erum hreinlega óundirbúin í það verk. Það er staðreynd. Þess vegna legg ég mikla áherslu á að því verki verði hraðað og þannig að við gætum sagt við þjóðina að við sinntum því eftirlitshlutverki sem við höfum af hálfu Alþingis sem felst í að fylgjast með framkvæmdarvaldinu og löggjafarvaldinu. Ég legg til að tökum upp hliðstæðar reglur og vinnubrögð eins og tíðkast í hinum norrænu þingunum, það er mjög nauðsynlegt. Það legg ég áherslu á, sem ég veit að viðkomandi forseti þekkir og veit.

Ég hef verið fulltrúi Íslands í Norðurlandaráði. Norðurlandaráð er þannig rekið að þar eru nokkrar nefndir sem fjalla um hin ólíku mál en það eru gríðarlega miklir fjármunir sem Norðurlandaráð og Norræna ráðherraráðið hafa úr að spila innan Norðurlandaverkefnisins alls. Þar er starfandi nefnd sem er eftirlitsnefnd allra þeirra fjármuna sem Norðurlandaráð höndlar með. Sú nefnd fer reglubundið og nákvæmlega yfir hin ólíku verkefni sem Norðurlandaráð veitir fjármuni til, eins og félagskjörnir endurskoðendur voru áður fyrr í fyrirtækjum, og fylgist með því að þeim samþykktum sem ná fram hjá Norðurlandaráði sé fylgt eftir, hvort staðið er við þær ákvarðanir sem teknar eru. Hún fylgist með því hvort þeir fjármunir sem notaðir eru til hinna ólíku verkefna hafa nýst, hvort þeir hafi farið í verkefnin og hvernig þeir hafi skilað sér til baka til samfélaganna á Norðurlöndum. Ég hefði viljað að við hefðum lagt vinnu og tíma í þess háttar í stað þess að eyða því að óþörfu í að fara yfir stjórnarskrána. Okkur hefði verið nær að fara yfir eftirlitshlutverk þingsins og hafa það eins og okkur ber, þ.e. eins og það er á þjóðþingunum í nágrannalöndunum. Litið hefur verið til Bretlands hvað þetta varðar vegna þess að venjan er önnur á hinum Norðurlöndunum miðað við það sem gerist hér. Hér eru oftast meirihlutastjórnir en oftar en ekki eru minnihlutastjórnir á Norðurlöndunum. Ég tel að við eigum að leggja mikla áherslu á þetta verkefni, það er bráðnauðsynlegt fyrir okkur. Það hefði verið við hæfi að gera það einmitt vegna aðstæðnanna sem uppi eru í samfélaginu eftir bankahrunið að hér starfaði eftirlitsnefnd sem ekki er fjárlaganefnd. Hún hefði að einhverju leyti tekið að sér eftirlitshlutverk. Hinar ýmsu fagnefndir þingsins skoða nú verk sín en ég vildi sjá sérstaka nefnd óháða öðrum nefndum. Þar mega að sjálfsögðu ekki sitja ráðherrar eða formenn nefnda líkt eins og er innan Norðurlandaráðs. Við hefðum haft meira gagn af þess háttar eftirliti og það hefði haft hlutverk í því kerfishruni sem varð hjá okkur. Ég held að sé miklu brýnna að fara yfir og ræða það og hefði verið betra ef fyrrverandi hv. þingmaður til nokkurra ára, Bryndís Hlöðversdóttir, hefði einbeitt sér að þessum verkefnum. (Forseti hringir.)

Ég sé núna, herra forseti, að tíma mínum er lokið. (Forseti hringir.) Ég á þó eftir að fara yfir breytingartillögur sem fylgja frumvarpinu, (Forseti hringir.) nefndarálit minni hlutans og öll þau gögn (Forseti hringir.) sem liggja frammi, tilvitnanir (Forseti hringir.) í ýmsa þá sem veitt hafa frumvarpinu (Forseti hringir.) umsögn en ég verð að láta (Forseti hringir.) máli mínu lokið.