136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:37]
Horfa

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram ítarleg umræða um mikilvægt mál í nokkra daga. Í fyrri ræðu minni um þetta mál, frumvarp til stjórnarskipunarlaga, ræddi ég nokkuð um 4. gr. frumvarpsins sem fjallar um stjórnlagaþing þar sem hugmyndin er sú að stjórnlagaþing skipi 41 þjóðkjörinn fulltrúi og jafnmargir til vara.

Stjórnlagaþing á að hafa það hlutverk að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Það er lagt til að kosið verði til stjórnlagaþings samhliða sveitarstjórnarkosningunum vorið 2010 og að þingið komi saman 17. júní 2010 og ljúki störfum eigi síðar en 17. júní 2011, ári síðar.

Mér finnst full ástæða til að halda áfram að ræða um fyrirkomulag stjórnlagaþings enda valdsvið þess mikið og þess vegna er það mikilvægt fyrir þjóðina. Ég tel því afar brýnt að algerlega sé skýrt með hvaða hætti það eigi að starfa. Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu segir að hugtakið stjórnlagaþing sé ekki fastmótað. Þess vegna er full ástæða til að ræða fyrirkomulag þessa þings mun betur.

Eins og ég tók fram í fyrri ræðu minni, hæstv. forseti, þá voru fyrstu viðbrögð mín varðandi stjórnlagaþingið þau að hugmyndin um það hljómaði að mörgu leyti ágætlega í mínum eyrum, að minnsta kosti fyrst í stað, virðulegi forseti. En þegar ég skoða málið nánar og les umsagnir álitsgjafa sérnefndarinnar þá sé ég að stjórnlagaþing hefur marga galla. Stjórnlagaþing þarf nauðsynlega að skoða mun betur og jafnvel ígrunda að nýju. Sérstaklega er áhugavert að lesa umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem koma með hugmyndir í sínu áliti um aðrar leiðir til að tryggja fyrirkomulag samráðs við almenning. Þegar málið er skoðað betur kemur í ljós að það er beinlínis verið að ýta lýðræðislega þjóðkjörnum fulltrúum til hliðar og færa það vald sem Alþingi hefur farið með, þ.e. hlutverk stjórnarskrárgjafa, til stjórnlagaþingsins. Hér er beinlínis verið að veikja Alþingi og með þessu tel ég að verið sé að skerpa á þeirri gjá sem hefur verið á milli þings og þjóðar. Í rauninni erum við með þessu að taka undir þá umræðu í þjóðfélaginu að þingmönnum sé ekki treystandi til að vinna þau störf sem þeir eru kjörnir til. Það tel ég mjög miður og þá er vegið að virðingu Alþingis. Það er skylda okkar að gæta ávallt virðingar Alþingis í öllu sem við gerum.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga er vikið að þessu atriði og segir í umsögninni, með leyfi forseta:

„Einnig hefur stofnun stjórnlagaþings þann mikla ókost að draga mjög úr áhrifum og sjálfstæði Alþingis. Eru þessar breytingar því í miklu ósamræmi við þær kröfur sem uppi hafa verið í þjóðfélaginu um að styrkja þurfi löggjafarvaldið og efla sjálfstæði þess gagnvart framkvæmdarvaldinu.“

Ég get hins vegar tekið undir það að hér verði ráðgefandi stjórnlagaþing með einhverri þeirri útfærslu sem menn koma sér saman um sem ég tel að sé mun heillavænlegra til að ná sáttum með þjóð og þingi í þeirri samvinnu sem í því fælist.

Virðulegi forseti. Hin almenna þjóðfélagsumræða um stjórnlagaþing hefur ekki farið fram með fullnægjandi hætti. Almenningur í landinu veit ekki nákvæmlega hver hugmyndin að baki stjórnlagaþingi er. Ég tel að það vanti mikið upp á að allur almenningur hafi fulla sýn á það sem hér er verið að leggja til. Það þarf að gefa þjóðfélagsumræðunni um stjórnlagaþing meiri tíma. Ótrúlega margir hafa sveitarfélagasýnina á hlutverk stjórnlagaþings, þ.e. að hér sé um að ræða nokkurs konar íbúaþing eins og sveitarfélögin í landinu hafa verið að leggja áherslu á að halda með þátttöku íbúanna. Nokkur sveitarfélög hafa stigið skref í átt til íbúalýðræðis með góðum árangri undanfarin ár og hafa stjórnendur sveitarfélaga áttað sig á mikilvægi þess að taka ákvarðanir í samráði við íbúana.

Með virku þátttökulýðræði eiga íbúar möguleika á að koma að ákvörðunartökuferli, stefnumótun og geta haft mótandi áhrif á nærumhverfi sitt í samstarfi við sveitarfélagið sem viðkomandi býr í auk þess sem sveitarfélög hér hafa náð langt á sviði rafrænnar stjórnsýslu og gefið íbúum sveitarfélaga kost á að skrá sig á gagnvirkan vef og hafa þannig góðan aðgang að stjórnsýslunni. Árangur á sveitarstjórnarstiginu á þessu sviði kallar auðvitað á að færa íbúalýðræðið á annað stig og því er ég sammála. Stjórnlagaþing, þ.e. ráðgefandi stjórnlagaþing tel ég að svari kalli fólksins um breytingar og kröfur um beina þátttöku.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem er mjög ítarleg og vel gerð umsögn þrátt fyrir þann stutta tíma sem gefinn var til að veita umsagnir — það var aðeins ein vika — en í umsögn sambandsins um stjórnlagaþing koma fram áhyggjur vegna þess kostnaðar sem hlýst af stjórnlagaþingi og telur sambandið tæpast forsvaranlegt að stofna til slíks kostnaðar þegar unnt er að ná fram sömu markmiðum með einfaldari og hagkvæmari leiðum án þess þó að víkja frá lýðræðissjónarmiðum sem liggja að baki hugmyndinni um stjórnlagaþing. Þá er í umsögninni einnig bent á að hafa mætti til hliðsjónar fyrirkomulag sem tíðkast hefur á íbúaþingum sveitarfélaga. Í umsögninni eru ábendingar um aðrar leiðir að sama markmiði en leiðir sem eru ekki eins kostnaðarsamar og gert er ráð fyrir að stjórnlagaþing verði. Þessar ábendingar Sambands íslenskra sveitarfélaga styðja það að almenn þjóðfélagsumræða um þetta mál á eftir að fara fram og hún þarf að fara fram. Þess vegna á að bíða með stjórnlagaþingið þar til þessi umræða hefur farið fram í samfélaginu. Það er einfaldlega ekki sama hvernig staðið er að því að koma á fót stjórnlagaþingi. Þess vegna tel ég það skynsamlegt sem við sjálfstæðismenn leggjum til að breyta nú 79. gr. stjórnarskrárinnar þannig að ekki þurfi að rjúfa þing og fá endurnýjað samþykki Alþingis til að stjórnarskrárbreytingar taki gildi og skapa þannig svigrúm fyrir vandað verklag og láta aðrar breytingar bíða nýs þings.

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins skrifaði Guðmundur Ágúst Sæmundsson ágæta grein um stjórnlagaþing undir fyrirsögninni „Ódýrara og betra stjórnlagaþing“. Í greininni bendir hann m.a. á að virkja mætti allan almenning til markvissrar hugmyndavinnu og mótunar á nýrri stjórnarskrá með því að hagnýta tækni sem fyrir hendi er. Koma mætti upp stjórnlagaþingi á internetinu fyrir lítið brot af þeim fjárhæðum sem ætlaðar eru í hugmyndum ríkisstjórnarinnar.

Það þarf að gefa hugmyndinni um stjórnlagaþing meiri tíma, ég held að það sé ljóst, tíma til að þroskast í almennri þjóðfélagsumræðu. Það er alveg víst að úti í samfélaginu eru margar hugmyndir um hvernig best sé að haga stjórnlagaþingi svo að sjónarmið flestra komi fram. Með því að nota internetið í þessari vinnu, eins og Guðmundur Ágúst bendir á, er hægt að tryggja að sjónarmið allra sem vilja komist að. Með því tryggjum við t.d. að sjónarmið og hagsmunir landsbyggðarinnar verði ekki fyrir borð borin. Ég tel mjög mikilvægt að landsbyggðarfólki sé tryggð þátttaka til jafns við höfuðborgarbúa til þátttöku á stjórnlagaþingi, sama með hvaða hætti stjórnlagaþing verður.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir persónukjöri til stjórnlagaþings. Í umsögn Ragnheiðar Helgadóttur, prófessors við Háskólann í Reykjavík, kemur einmitt fram að ekki sé gert ráð fyrir kjördæmum í þessu persónukjöri sem gefur ástæðu til að óttast að fáir fulltrúar verði frá landsbyggðinni. Undir þetta get ég vissulega tekið því að ég ber hag landsbyggðarfólks fyrir brjósti og hef áhyggjur af landsbyggðinni hvað þetta varðar enda mjög óljóst í frumvarpinu hvernig og með hvaða hætti stjórnvöld hyggjast tryggja að jafnræðis sé gætt milli þéttbýlis og landsbyggðarinnar varðandi setu á stjórnlagaþingi.

Þá segir í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um þetta mál, með leyfi forseta:

„Í greininni er lagt til að fulltrúar á stjórnlagaþingi verði persónukjörnir en ekki eru nein fordæmi fyrir því fyrirkomulagi hér á landi. Má draga í efa að mikill fjöldi einstaklinga sé tilbúinn að leggja í kosningabaráttu með tilheyrandi kostnaði og óvissu sem felst í framboði. Það er raunar með öllu óljóst hvort þessi aðferð við val á fulltrúum muni leiða til þess að hæft fólk sem endurspeglar vilja þjóðarinnar veljist til setu á stjórnlagaþinginu en ekki er unnt að vísa til reynslu annarra þjóða af slíku fyrirkomulagi.“

Ég tek undir þetta með Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Mér er til efs að margir séu tilbúnir að leggja út í þann kostnað og þá óvissu sem því fylgir að fara í kosningabaráttu. Því er eðlilegt að spyrja hvort ekki væri skynsamlegra við þær aðstæður sem við búum við að velja fulltrúa á þingið með öðrum hætti, með þeim hætti að sem breiðastur hópur manna og kvenna af öllu landinu og úr flestum samtökum og hagsmunahópum verði fulltrúar þannig að raddir þessara aðila heyrist á þessu þingi eða hreinlega hugsa málið allt upp á nýtt og fara aðrar og ódýrari leiðir, eins og t.d. að nota internetið og tryggja þannig að sjónarmið allra komist sem best að. Þetta má eflaust gera án þess að vikið sé frá lýðræðissjónarmiðum sem liggja að baki hugmyndinni um stjórnlagaþing.

Í breytingartillögum meiri hluta sérnefndar um stjórnarskrármál er gert ráð fyrir að kosið verði til stjórnlagaþings samhliða sveitarstjórnarkosningum vorið 2010. Í mjög ítarlegri og góðri umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga er eðlilega ekki vikið að þessu atriði og það vekur svo sannarlega athygli að ekki virðist vera leitað aftur eftir umsögn sambandsins um svo veigamiklar breytingar á frumvarpinu sem koma til með að hafa veruleg áhrif, og jafnvel truflandi áhrif, á sveitarstjórnarkosningarnar í landinu næsta vor. Þessi breyting meiri hlutans hefur eðli málsins samkvæmt mikil áhrif á undirbúning og framkvæmd sveitarstjórnarkosninga og eflaust kosningabaráttuna sjálfa. Þá má gera ráð fyrir að kosningabaráttan fyrir sæti á stjórnlagaþingi geti skyggt á kosningabaráttuna til sveitarstjórna.

Í nefndaráliti meiri hluta sérnefndar kemur fram að rökin fyrir þessari breytingu eru m.a. þau að með þessu næst jafnframt fram töluverður sparnaður þar sem ekki þarf að kosta sérstakar kosningar. Hér held ég að það hljóti að vera átt við að kostnaðurinn við stjórnlagaþingið verði minni en áætlanir gera ráð fyrir með því að kjósa til stjórnlagaþings samhliða sveitarstjórnarkosningum.

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni um þetta mál ræddi ég einmitt um kostnað sem hlýst af kosningu til stjórnlagaþings og einnig af þjóðaratkvæðagreiðslum varðandi einstök lög eða málefni. Varla er það ætlun ríkisvaldsins að velta þessum kostnaði yfir á sveitarfélögin í landinu sem standa mörg hver mjög illa. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að alþingiskosningar kosti um 100 millj. kr. og ætla megi að kostnaðurinn við þjóðaratkvæðagreiðslu yrði sambærilegur. Varla er hægt að ætlast til að sveitarfélögin taki þann kostnað á sig eins og staða þeirra er í dag. Það má samt búast við að sveitarfélögin þurfi að koma að framkvæmd kosninganna og ég held að það sé nokkuð ljóst, en tryggja þarf að allur kostnaðurinn við framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna lendi hjá ríkisvaldinu.

Virðulegi forseti. Ég hef hér aðallega gert að umtalsefni 4. gr. frumvarpsins sem fjallar um stjórnlagaþing. Ég tel afar mikilvægt að ræða þetta vel svo að málið skýrist í umræðunni hér eins mikið og hægt er á svo stuttum tíma sem gefinn er til að fjalla um málið. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin ætlar sér að keyra málið allt í gegnum þingið án samráðs við stærsta flokkinn á Alþingi.

Eftir yfirferð um umsagnir álitsgjafa sérnefndarinnar um málið allt í heild kemur greinilega fram að margir umsagnaraðilar telja að breytingar á stjórnarskrá séu það mikilvægar að þær þurfi að ígrunda vel og ná sem víðtækastri sátt um þær ásamt því að ekki sé ástæða til að hraða svo mjög þessari vinnu heldur bíða nýs þings. Einnig verður að segjast eins og er að ekki virðist koma fram nokkur fögnuður í umsögnum yfir stjórnarskrárbreytingum sem hér á að keyra í gegnum þingið og alls ekki á að taka neitt tillit til skoðana okkar sjálfstæðismanna við þessa afgreiðslu. Ekki verður maður heldur var við mikinn almennan fögnuð úti í þjóðfélaginu varðandi málið. Fólk skilur þvert á móti ekki að breyting á stjórnarskrá geti ekki beðið þar til róast fer í þjóðfélaginu og hér fari að birta til í atvinnumálum á ný og meira jafnvægi komist á hjá heimilum og fyrirtækjum í landinu.

Nei, það er alveg greinilegt, virðulegi forseti, að málinu skal þrýst í gegnum þingið með góðu eða illu. Enn getur maður velt því fyrir sér hver tilgangurinn sé með því að keyra þessar stjórnarskrárbreytingar í gegnum þingið á svo skömmum tíma og án þess að sátt sé um málið milli þeirra flokka sem starfa á Alþingi.

Það er því hægt að taka undir með minni hluta í sérnefnd, en í nefndaráliti hans segir, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn undrast, í ljósi þess að á undanförnum árum hefur verið rætt um veg og virðingu Alþingis og spurninguna um stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu, að þeir sem mest hafa talað um að verið sé að styrkja stöðu Alþingis og efla á alla lund skuli standa að tillögu sem miðar að því að veikja Alþingi meira en nokkru sinni – að svipta Alþingi valdinu til að breyta stjórnarskránni. Það er hornsteinninn í valdastöðu Alþingis í stjórnskipulagi lýðveldisins að Alþingi hafi vald til að breyta stjórnarskránni. Nú koma þeir sem talað hafa um það að verið sé að setja Alþingi niður og flytja tillögu um að svipta Alþingi þessum rétti og fela það einhverjum öðrum.“

Ég segi enn og aftur að með því að setja á stofn sérstakt stjórnlagaþing, sem hefur þessi völd, er vegið að sjálfstæði og áhrifum Alþingis sem farið hefur með hlutverk stjórnarskrárgjafa um árabil. Það er skoðun mín að með því sé verið að taka undir það að þingmenn vinni ekki vinnuna sína og að þeim sé ekki treystandi. Hér er verið að skerpa á þeirri gjá sem hefur myndast milli þings og þjóðar en ekki er verið að styrkja tengsl og traust.

Þrátt fyrir allar þessar umsagnir sem bárust til nefndarinnar, sem voru mjög vel ígrundaðar margar hverjar, þó svo að einungis hafi verið gefin ein vika til að skila þeim inn, virðist ekki vera hlustað á álitsgjafa. Í flestum umsögnum er bent á að of skammur tími sé ætlaður til að skila umsögnum og alls ekki er hlustað á Lögmannafélagið sem leggst eindregið gegn frumvarpinu og það sama kemur fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem ég hef hér vitnað í.

Nei, virðulegi forseti, um þetta mál þarf að nást sátt á milli flokka sem hér starfa. Vinnubrögðin eins og þau hafa verið eru ekki til sóma fyrir Alþingi. Mjög mörg atriði í frumvarpinu eru óljós og þau þarf að ræða miklu betur og lengur. Er ekki skynsamlegt að staldra við og reyna að ná sáttum um þetta mikilvæga mál?