136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:00]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við höldum áfram að ræða frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Við höfum rætt þetta nokkuð ítarlega á undanförnum dögum í þinginu en þó eru ýmis efnisatriði sem rétt er að hnykkja á og láta koma berlega í ljós þann vanda sem við verður að etja vegna þeirra hugmynda sem uppi eru um breytingar á stjórnarskránni.

Ég vil byrja á því að færa virðulegum forseta þingsins þakkir mínar fyrir þá ákvörðun að ákveða að gera hlé á þingfundi meðan á útsendingu stóð frá stjórnmálafundi vestur á Ísafirði. Það er sérstök ástæða fyrir því að ég færi þessar þakkir og hún er sú að á fundinum kom mjög skýrt fram bæði hjá virðulegum forseta þingsins, Guðbjarti Hannessyni, og eins hjá formanni þingflokks Vinstri grænna, hv. þm. Jóni Bjarnasyni, báðir lýstu þeir því yfir í þeim umræðum sem þarna fóru fram og var sjónvarpað og við þingmenn gátum fylgst með, að þær breytingar sem nú eru gerðar á stjórnarskránni sem felast í 1. gr. þess frumvarps sem hér er verið að ræða sem eru breytingar á 79. gr. sem felst í umræðunni um hugtakið „þjóðareign á náttúruauðlindum“, báðir þessir hv. þingmenn lýstu því yfir í kvöld að þetta væri bara fyrsta skrefið í áttina að umfangsmiklum breytingum á stjórnkerfi fiskveiða.

Það er mjög mikilvægt að þessi skoðun hv. þingmanna hafi komið fram. Þess vegna vil ég enn á ný þakka virðulegum forseta fyrir fundarhléið vegna þess að þetta skiptir verulegu máli í því sem við erum að ræða hér. Af hverju skiptir það máli? Jú, vegna þess að séu þessi ummæli borin saman við aðra ræðu, sem er auðvitað grundvallarplagg í umræðunni, við ræðu hæstv. forsætisráðherra þegar frumvarpið var lagt fram þá kemur fram í þeirri ræðu, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að hafa í huga að þessu nýja stjórnarskrárákvæði er ekki ætlað að svipta menn þeim réttindum sem þeir hafa öðlast, svo sem afnotarétti af náttúruauðlindum eða atvinnuréttindum á grundvelli opinberra leyfa sem kunna að njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar sem óbein eignarréttindi. Með ákvæðinu er til dæmis ekki haggað við slíkum réttindum þeirra sem hagnýta jarðir og ýmis fasteignatengd réttindi eða stunda fiskveiðar á grundvelli veiðiheimilda.“

Þetta er boðskapur hæstv. forsætisráðherra sem er einn þeirra virðulegu þingmanna sem leggja málið fram. Síðan verðum við vitni að því að túlkun formanns þingflokks Vinstri grænna er sú að hér sé í raun og veru verið að taka fyrsta skrefið í átt til algerrar byltingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Það sama kemur fram í málflutningi virðulegs forseta Alþingis á sama fundi. Þetta er auðvitað alvarlegt mál og það er alvarlegt vegna þess að það er nauðsynlegt að leggja þetta saman við þau ummæli sem m.a. hafa eða þær athugasemdir öllu heldur sem hafa komið fram um þetta ákvæði af hálfu fræðimanna. Ég vil vísa sérstaklega til þeirra ummæla sem hafa lotið að réttaráhrifum af þessu ákvæði og það sem menn hafa bent á og fært fyrir því sterk rök að það væri ekki ljóst hver réttaráhrifin yrðu og það þyrfti og væri nauðsynlegt að menn gæfu sér betri tíma til að fá fast land undir fætur í þessu máli. Það er það sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa verið að gera athugasemdir við í þingsalnum, þ.e. að allur undirbúningur þessa máls, sú vinna sem menn geta gert kröfu til að fari fram þegar verið er að gera breytingar á jafnmikilvægu grundvallarplaggi og stjórnarskránni, þá gera menn þá kröfu að málsmeðferðin standist kröfur, þ.e. kröfur um vandvirkni, gerhygli og að menn hafi unnið vinnuna sína og það er ekki hægt að segja það um þá framvindu sem hér hefur verið, því miður.

Ég vil vekja athygli virðulegs forseta á því að hér í salnum háttar svo til að hér er enginn af þeim einstaklingum sem fluttu þetta frumvarp, það er enginn virðulegur þingmaður sem er á listanum yfir flutningsmenn viðstaddur. Hér er heldur enginn í þingsal af þeim sem sátu í þeirri nefnd sem lagði þetta mál fyrir. Hér er enginn til andsvara eða til varna eða til að taka þátt í umræðum um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Menn velta fyrir sér og ræða gjarnan á tyllidögum um virðingu Alþingis, virðulegi forseti. Væri það ekki skynsamlegt af virðulegum forseta að tryggja það að í salnum sé a.m.k. einn þingmaður sem telst til eða gæti talist til þeirra sem ábyrgð bera á þessu frumvarpi. Ég held að sóma þingsins vegna sé það nauðsynlegt að í það minnsta einn af þeim mönnum, af þeim einstaklingum sem á þessu bera ábyrgð væru kallaðir í salinn til að þetta sé ekki með því ömurlega fyrirkomulagi sem hér er boðið upp á. Með því að fara yfir þetta, og menn hafa auðvitað mismunandi skoðanir á því í hverju heiður og virðing Alþingis felst, þá finnst mér alla vega nauðsynlegt að menn séu viðstaddir umræður um stjórnarskrána.

Virðulegur forseti. Mig langar að víkja að nokkrum atriðum sem komu fram í umræðum áðan varðandi þær breytingar sem fyrirhugað er að gera vegna ráðgefandi eða sjálfstæðs stjórnlagaþings. Við sjálfstæðismenn höfum lagt á það áherslu að stjórnlagaþing verði ráðgefandi en í því frumvarpi sem hér er lagt fram er gert ráð fyrir því að það starfi sjálfstætt og fullkomlega sjálfstætt.

Fyrst vil ég segja þetta: Hvað varðar breytingar á stjórnarskránni er ég þeirrar skoðunar að þær eigi sjaldan að gera, það eigi helst að líða langt á milli og þegar þær eru gerðar eigi að vanda sig mjög vel. Ég er ekki viss um að það sé sérstaklega heppilegt fyrir íslenska þjóð að fara nú í algera uppstokkun á stjórnarskránni. Ég get tekið undir álit margra sem hafa gefið umsögn um þetta frumvarp sem kom fram, m.a. í ágætri ræðu hv. þm. Ármanns Kr. Ólafssonar, að einmitt á þeim tímum þegar upplausn ríkir, þegar menn eru óöruggir með framtíðina þá skiptir máli að grundvöllurinn sé til staðar, að honum sé ekki hnikað nema að mjög vel athuguðu máli. Ég er því ekki sammála t.d. skoðunum hv. þm. Helga Hjörvars sem fann það sem sérstakan galla við Alþingi að ekki hafi gengið hratt að breyta stjórnarskránni og það hafi ekki verið gert nógu oft. Ég minni á að það eru ekki mörg ár síðan gerðar voru veigamiklar breytingar á stjórnarskránni sem sneru að mannréttindum þar sem að baki lá mikil og góð vinna, mikill undirbúningur og mikil forvinna að þeim breytingum. Þrátt fyrir það má deila um hversu vel tókst til með þær breytingar. Það er ekki sjálfgefið en í það minnsta reyndu menn að gera eins vel og mögulegt var. Í því tilviki sem hér um ræðir er því miður ekki svo farið. Hér hafa menn hlaupið fram af miklu offorsi og miklu kappi rétt eins og verið sé að ræða um venjulegt lagafrumvarp sem menn vilji haska af eins hratt og hægt er.

Mér finnst líka merkilegt að fylgjast með því þegar margir hv. þingmenn segja að Alþingi geti ekki staðið að breytingum á stjórnarskránni og því verði að setja sérstakt stjórnlagaþing. En sömu hv. þingmenn — mér finnst þetta eiga sérstaklega við um hv. þingmenn Framsóknarflokksins en ég heyrði þetta þó hjá fleirum — eru þeirrar skoðunar samt sem áður, að þrátt fyrir að þeir telji að Alþingi sé þess ekki umkomið að breyta stjórnarskránni og geti það ekki þá flytja þeir frumvarp þar sem gert er ráð fyrir breytingum á stjórnarskránni, sérstaklega að þeim þættinum sem lýtur að auðlindum landsins sem er auðvitað grunnurinn undir efnahagsstarfsemi okkar. Það er alvarlegt mál að gera. Menn verða að gera það að mjög vönduðu og athuguðu máli og mér finnst einhvern veginn undarleg þversögnin sem felst í því þegar menn á annað borðið segja: Þingið getur ekki breytt stjórnarskránni og flytja á sama tíma frumvarp þar sem gert ráð fyrir breytingum á stjórnarskránni. Og enginn af þeim ágætu þingmönnum sem hér hafa tekið til máls af hálfu minnihlutastjórnarinnar og Framsóknarflokksins hefur almennilega útskýrt það fyrir þingheimi eða þjóðinni hvernig standi eiginlega á því. Hvers vegna er ekki farin sú leið, úr því að menn hafa einsett sér að það eigi að fara stjórnlagaþingsleiðina, hvers vegna taka menn þá ekki þá ákvörðun að vísa öllum þessum málum, þ.e. stjórnarskránni allri þangað? Hvers vegna í ósköpunum taka menn eitt ákvæði núna út til að breyta á sama tíma og þeir segja að þingið sé þess ekki umkomið og geti ekki gert þessar breytingar?

Það er auðvitað útúrsnúningur að halda því fram af því að við erum að ræða um stjórnarskrána og munum ræða hana vandlega og viljum vanda okkur og krefjumst þess að það sé tekið meira mark á þeim umsögnum sem þinginu hafa borist frá þeim aðilum sem gerst þekkja til þessara mála, þegar við krefjumst þess að það sé gert og að menn umgangist stjórnarskrána með þeim hætti sem menn hafa verið að gera, þá er alveg furðulegt að sitja undir því að það sé einhver sérstök sönnun þess að þingið geti ekki breytt stjórnarskránni. Mér þykir það öllu heldur sönnun þess að í þingsölum eru þó enn þá hv. þingmenn sem taka þetta mál alvarlega, sem eru tilbúnir til að beita sér af fullum krafti til þess m.a. að koma vitinu fyrir ríkisstjórnina og krefjast þess og kalla það fram að þær athugasemdir sem hafa komið fram sem benda til þess að hér sé á ferðinni gallaður málatilbúnaður þegar um er að ræða mikilvægustu lög þjóðarinnar, krefjast þess að tekið verði mark á þeim, að menn fari ekki fram þegar kemur að stjórnarskránni í einhvers konar pólitískum hráskinnaleik. Um það snýst krafa okkar sjálfstæðismanna. Það teljum við vera skyldu okkar í þinginu og við höfum fært fyrir því veigamikil rök, bæði með því að vitna til þeirra álita sem hér hafa komið fram og eins lagt okkar lóð á vogarskálarnar, bæði til að skýra þessi álit og bæta við þau og gera þau fyllri, þá er alveg furðulegt að síðan skuli engin umræða eiga sér stað af hálfu minnihlutastjórnarinnar eða þess flokks sem veitir þeirri stjórn hlutleysi og ver vantrausti. Það er undarlegt því hér er um að ræða svo mikilvægt mál.

Hvað varðar stjórnlagaþingið þá hnýt ég um það að í meðförum nefndarinnar hafa orðið nokkrar breytingar á því fyrirkomulagi sem menn hyggjast setja upp hvað varðar það. Breytingin frá upphaflega frumvarpinu felst m.a. í því að sá tími sem stjórnlagaþingið á að starfa er styttur umtalsvert. Upphaflega átti þetta þing að taka til starfa í desember 2009 og ljúka störfum sínum 17. júní 2011. Í breytingum í meðförum nefndarinnar er hins vegar sú niðurstaða fengin að þingið skuli koma saman 17. júní 2010 og ljúka störfum eigi síðar en 17. júní 2011. Að vísu getur þingið ákveðið að ljúka störfum fyrr.

Rök eru færð fyrir þessari breytingu og þau koma fram í nefndaráliti meiri hlutans, með leyfi forseta, svo ég grípi niður í álitið:

„Slíkar orðræður og skoðanaskipti“ — þ.e. á milli þingsins og sérstakra ráðgjafa og hagsmunasamtaka — „ættu jafnframt að verða til þess að stytta þann tíma sem þingið þarf til starfa. Þá má ætla að þrengri tímarammi gæti orðið til að gera vinnu þingsins markvissari.“

Ég er ekki sannfærður um að svo sé. Mér finnst þetta vera tegund af röksemdafærslu sem kölluð er eftiráröksemdafærsla, meira viðbragð við þeirri gagnrýni sem hefur komið fram um að þetta mundi reynast þjóðinni býsna dýrt, það mundi kosta mikla peninga á þeim tíma sem lítið fé er að hafa, þar sem menn hafa úr litlu að spila. Þá fara menn af stað, bregðast við slíkri gagnrýni með svona röksemdafærslu, að af því að það eigi að vera eitthvert samráð eða samtal á milli hagsmunaaðila og sérfræðinga og þingsins, sem ég gef mér að hafi hvort eð er átt að vera, annað væri undarlegt ef svo væri ekki, þar af leiðandi sé möguleiki á því að stytta þingtímann töluvert. Þetta er auðvitað ekkert annað en yfirklór og enn á ný finnst mér þetta vera dæmi um að svona eigi ekki að vinna stjórnarskrárvinnu. Menn koma ekki hérna með tillögur inn í þingið um stjórnlagaþing, sem er nýjung hér og mikil breyting frá því sem við höfum haft áður þar sem á að færa stjórnarskrárvaldið frá Alþingi, leggja það upp í frumvarpinu, fá svo þá gagnrýni á sig að þetta muni reynast mjög kostnaðarsamt og í staðinn fyrir að viðurkenna það og segja þá: Við ætlum þá bara að gera þetta með ódýrari hætti, heldur fara þá af þennan stað í jafnundarlegan leiðangur og kemur fram í nefndarálitinu.

Svo ég vitni aftur í álit meiri hlutans þá kemst hann að þeirri niðurstöðu, með leyfi virðulegs forseta:

„Þá telur meiri hlutinn ekki sýnt að fulltrúar þingsins þurfi að vera í fullu starfi á stjórnlagaþingi. Allt eins er hægt að rökstyðja fyrirkomulag þings sem væri með þeim hætti að þing hittist fáeina daga í senn nokkrum sinnum yfir starfstímann en í millitíðinni væru starfshópar eða vinnustofur að störfum um afmarkaðri efni o.s.frv.“

Enn á ný er hér reynt eftir á, eftir að mjög mikil gagnrýni hefur komið fram vegna kostnaðar, að leggja þetta upp þannig að menn viðurkenna að þetta verði of dýrt en þessu er gefin þessi umgjörð. Reyndar verð ég að segja, virðulegi forseti, að mér finnst margt svolítið skondið og merkilegt í meirihlutaálitinu sem hér liggur fyrir. Ég veit ekki hvaða merkingu maður á að leggja í svona texta, virðulegi forseti. Ég leyfi mér að grípa aftur niður í álitið:

„Meiri hlutinn leggst ekki gegn slíkri kosningu en áréttar þó mikilvægi þess að á stjórnlagaþingi sitji fulltrúar þjóðarinnar.“

Stóð eitthvað annað til, virðulegi forseti, en að á þessu stjórnlagaþingi sætu fulltrúar þjóðarinnar? Svo kemur heilmikil viska, með leyfi virðulegs forseta:

„Ný stjórnarskrá lýðveldisins Íslands mun verða stjórnarskrá þjóðarinnar allrar.“

Stóð til eitthvað annað? Mér finnst þetta svo undarleg, (Gripið fram í.) hafa menn hugsað sér eitthvað annað? Er þetta viðbragð við einhverri umræðu eða hvað er hér á ferðinni? Svo heldur þetta áfram og ég mun koma að því síðar í kvöld í annarri ræðu að það er auðvitað greinilegt að málið hefur ekki verið hugsað í gegn sem kemur greinilega í ljós þegar skoðað er hvernig eigi að standa að kjörinu. Það er alveg greinilegt að menn hafa ekki hugmynd um hvernig þeir ætla að gera þetta. Og ég ítreka enn á ný að það er ekki boðlegt að fara af stað með svona hugmynd í jafnmikilvægu frumvarpi eins og stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og án þess að vera búinn að átta sig á hvernig eigi að framkvæma það. (Forseti hringir.) Þetta er ekki boðlegt og þetta er ekki virðingu þingsins samboðið.