136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:21]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Frú forseti. Óhætt er að segja að sú umræða sem hér fer fram um stjórnarskrána er orðin ansi viðamikil og er svo sem ekkert skrýtið eða óeðlilegt við það. Kannski mætti segja að það væri óeðlilegt ef svo væri ekki, það eru ekki mörg mál mikilvægari fyrir þjóðina en það hvernig stjórnarskráin er og hvernig frá henni er gengið og þar með er auðvitað fátt mikilvægara fyrir stjórnlagaþingið að fjalla vel og ítarlega um en slík mál. Þó fjallar þetta stjórnarskipunarlagafrumvarp raunverulega ekki um nema fjögur atriði og þau eru auðvitað talsvert miklu fleiri atriðin í stjórnarskránni og verkefnið sem hið hugsanlega stjórnlagaþing mundi fá er auðvitað mun umfangsmeira og erfiðara í allri vinnu og útfærslu en frumvarp eins og þetta sem einungis snýr að fjórum þáttum.

Hins vegar eru þetta ekki veigalitlir þættir sem um er að ræða. Þrátt fyrir að hafa haldið tvær ræður í umræðum um þetta mál, við 1. umr. og svo fyrstu ræðu mína við 2. umr. — ég hef reyndar ekki talað oftar en þrisvar, frú forseti, en samt er farið að tala um að maður sé í málþófi — hefur mér ekki tekist að fjalla ítarlega nema um tvo af þessum þáttum, þ.e. annars vegar um það hvernig standa skal að því að breyta stjórnarskránni og um þá tillögu sem er að finna í frumvarpinu um það hvaða breytingar eigi að gera á því og hins vegar um það ákvæði að færa frumkvæðisrétt að þjóðaratkvæðagreiðslum til þjóðarinnar. Að það sé ekki aðeins Alþingi sem geti haft frumkvæði að þjóðaratkvæðagreiðslum eða forsetinn, þ.e. forseti lýðveldisins, vegna þeirra fáu tilvika sem núgildandi stjórnarskrá gerir ráð fyrir að geti leitt til þjóðaratkvæðagreiðslu. Eins og ég segi, þetta eru býsna merkileg mál og ég hefði talið að nefndin hefði átt að gefa sér betri tíma til að útfæra og skoða betur bæði þá hluti sem að þessum þáttum snúa og hafa verið unnir af fyrri nefndum og stjórnarskrárnefndum. Mér sýnist að þar séu þættir og atriði sem betur fari á en eru í þessu frumvarpi. Einnig ætti að skoða hvernig um þessi mál er fjallað annars staðar, sérstaklega í Evrópu og þá kannski sérstaklega út frá því sem ég hef nefnt í tvígang að er að finna í stjórnarskrám bæði Frakklands og Spánar, að ekki er heimilt að breyta stjórnarskrám á ófriðartímum, sem segir manni það að stjórnarskrám eigi almennt ekki að breyta nema á stöðugleikatímum þar sem hægt er að einbeita sér að verkinu án þess að óróleiki trufli. Þetta er verk sem vanda skal vel til því að lengi skal það standa og það á ekki að fikta í því dagsdaglega. Nóg um það að sinni. Ég hef kannski tækifæri til að fjalla um það örlítið betur síðar við 2. umr. ef ég fæ tækifæri til að fjalla um nefndarálitin sem fram eru komin.

Ég vil fjalla aðeins um hinar breytingarnar tvær sem verið er að leggja til og byrja þá á 1. gr. en það er greinin um þjóðareign á auðlindum og þau nýmæli sem varða ákvæði sem tengjast umhverfismálum. Í rauninni er þarna um tvenns konar ákvæði að ræða. Annars vegar um náttúruauðlindirnar og það hefur ítrekað komið til skoðunar á undanförnum árum, verið skoðað í nefndum hvernig standa eigi að þessu og verið í stefnuyfirlýsingum ríkisstjórna a.m.k. þrisvar á síðustu 18 árum og auk þess var fjallað um það af auðlindanefndinni svokölluðu sem fjallaði um fiskveiðistjórnina á sínum tíma. Út af fyrir sig var vinnan langt komin með þetta og eitthvað í áttina að því að nálgast samstöðu en ef eitthvað er hafa menn farið frá þeirri samstöðu sem var að nást í þeirri vinnu sem fram hefur farið. En þetta er ekki einfalt mál eins og sannast á því að þrátt fyrir talsvert mikla vinnu og að þetta hafi ítrekað verið í stefnuskrám hefur ekki náðst niðurstaða í málinu. Það er bæði vegna þess að það er talsvert erfitt að skilgreina hvað það er sem þjóðin getur átt, og þá er ekki verið að tala um að þetta sé ríkiseign heldur þjóðareign þannig að þarna er ekki um hefðbundið eignarhald að ræða, og síðan er spurningin á hverju er þetta eignarhald, á hvaða gæðum og á hvaða réttindum og hvernig mega einstaklingarnir svo nýta þessi gæði og þessi réttindi? Hver er réttur þeirra til nýtingarinnar og hvernig mega þeir fara með þann rétt? Og loks það sem nýta má, hvað er það á hverjum tíma og hvernig getur það hugsanlega breyst? Hugtakið nytjastofn sem rætt hefur verið er auðvitað hugtak sem getur breyst frá einum tíma til annars og fer þá eftir því hvað er verið að nytja. Dýrategund getur farið úr nytjum og ef hún er ekki lengur nytjastofn samkvæmt þeirri skilgreiningu er hún þá ekki lengur þjóðareign? Ákveðin dýrategund getur allt í einu orðið þess eðlis eða fengið verðmæti sem leiðir til þess að farið er að nytja hana og þá verður hún allt í einu þjóðareign. Og það getur meira að segja verið að það að þessi tegund verður allt í einu verðmæt og farið er að nytja hana sé einungis afrakstur hugmyndar, hugsunar og framtaks eins manns en það leiðir aftur til þess að tegundin eða stofninn verður þjóðareign. Þá kemur aftur að því hver er þá hlutur hans, hver eru réttindi hans og hvað má hann gera með þau réttindi? Þetta er hlutur sem menn hafa velt fyrir sér og verið að skoða en í rauninni ekki náð alveg til botns í hvernig fara á með.

Síðan að hinum víðtækari atriðum í frumvarpinu er varða náttúruna. Rétt er að halda því til haga að nefndin hefur reyndar komist að þeirri niðurstöðu að þarna sé ekki um fullunnið mál að ræða og er raunverulega að draga það til baka. Það er skiljanlegt þar sem hugtökin sem þarna er verið að nota eru ekki vel skilgreind, þau eru jafnvel ekki vel skilgreind í hinum umhverfislega skilningi hvað þá í hinum lögfræðilega skilningi og tekur sjálfsagt einhvern tíma fyrir þau að ná slíkri skilgreiningu. Satt að segja hafa ekki mörg lönd eða margar þjóðir farið út í það eða náð einhverri fótfestu í því að skilgreina þau þannig að þau hafi verið tekin upp í stjórnarskrá. Það eru helst fyrrum austantjaldsríki sem hafa gert það þegar þau hafa verið að búa til nýja stjórnarskrá hjá sér eftir að þau losnuðu undan oki kommúnismans eða oki sovétvaldsins. Eistar, Slóvenar og Rúmenar hafa gert tilraunir til að nálgast þetta og hafa gert það á mismunandi vegu og er kannski ekki ástæða til að fara ítarlega út í það að sinni en ég get kannski gert það seinna ef tækifæri gefst til.

Þetta ákvæði er okkur mjög mikilvægt þar sem við byggjum mjög á nýtingu náttúruauðlinda og sérstaklega sjávarauðlindinni og hún hefur auðvitað verið í umræðunni sérstaklega hvað þetta varðar. Hún er grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar og var og hefur verið þó að hlutfallslegt vægi hennar hafi minnkað á undanförnum árum en eins og menn vita hefur það breyst aftur og við þær miklu breytingar og miklu áföll sem við höfum orðið fyrir á undanförnum missirum er þessi grein orðin ekki síður mikilvæg en hún var og gæti jafnvel náð því að verða eins mikilvæg og hún var þegar mikilvægi hennar var hvað mest.

Aðeins okkur orð um stjórnlagaþingið ef tími minn leyfir að fara aðeins yfir það og hvernig stjórnlagaþing hafa komið til og hvernig þau hafa starfað og hvar þau hafa starfað og undir hvaða kringumstæðum. Hugtakið stjórnlagaþing er ekki fastmótað þó að það gefi auðvitað til kynna að þetta er þing sem er ætlað að semja ný stjórnlög eða reglur um stjórnskipan ríkis eða breyta þeim eftir atvikum. Venjulega sitja þar þjóðkjörnir fulltrúar og oftast af þjóðþingum. Slík þing hafa verið haldin víða um heim og á ýmsum tímum sögunnar en gjarnan hefur það verið við upphaf eða stofnun nýrra ríkja eða nýrra stjórnarhátta í ríkjum í kjölfar átaka eða byltinga eða niðurbrots í þjóðfélagsskipan eða stjórnlagakreppu sem hefur myndast í kjölfarið. Það er kannski þess vegna sem sum af þeim ákvæðum sem við höfum verið að fjalla um hér er nánast eingöngu að finna í stjórnarskrám fyrrum austantjalds- og sovétlýðvelda eins og ég nefndi áðan með umhverfisákvæðið og eins varðandi frumkvæðisréttinn í þjóðaratkvæðagreiðslum. Þar eru áberandi annars vegar austantjaldsríki og hins vegar reyndar sambandsríki. (Gripið fram í.) Sambandsríki — maður klikkar ekkert á þessu.

Markmið stjórnlagaþings er að undirstrika þær stoðir lýðræðisþjóðfélagsins þar sem allt vald sprettur frá þjóðinni og stjórnlög sett af fulltrúum fólksins. Það eru heilmiklar heimspekilegar kennisetningar sem fjalla um þetta, stjórnmálaheimspekin fjallar mikið um þetta, talað er um samfélagssáttmála og slíkt. Þetta á rætur sínar aftur til 17. og 18. aldar þegar breytingar voru að verða mjög víða á þjóðfélagsfyrirkomulagi og konungsríkin, einveldin, voru að gefa eftir fyrir borgaralegu þjóðskipulagi og lýðræðið að skjóta rótum. Þetta voru sáttmálar sem verið var að gera fyrir hönd þjóðarinnar, annaðhvort milli þjóðarinnar og konungsvaldsins eða að þjóðin gerði sáttmála við sjálfa sig þegar konungsvaldinu sleppti og það var að hverfa og verða raunverulega bara táknrænt. Mörg stjórnlagaþing voru haldin á 18. og 19. öld þegar þessar breytingar voru að ganga yfir og sérstaklega í Evrópu þar sem mörg konungsríki voru á þeim tíma og leifar eru enn eftir af nokkrum þeirra, en auðvitað líka í Bandaríkjunum þar sem hið fræga stjórnlagaþing var haldið í Fíladelfíu sumarið 1787 með fulltrúum allra fylkja Bandaríkjanna sem höfðu lýst yfir sjálfstæði árið 1776. Þannig sjáum við að heill áratugur leið frá því að Bandaríkin lýstu yfir sjálfstæði þar til stjórnarskráin var samin af stjórnlagaþinginu í Fíladelfíu. Afrakstur þessa þings var stjórnarskrá Bandaríkjanna sem enn er í gildi þó að henni hafi verið breytt með mörgum viðaukum eða „amendments“ eins og sagt er, númeruðum „amendments“, fram til þessa dags.

Það sem okkur stendur nær er norska stjórnarskráin sem samþykkt var á Eiðsvöllum í Noregi 17. maí 1814 og svo auðvitað dönsku grundvallarlögin frá 1849 sem eru grunnurinn og fyrirmyndin að stjórnarskránni sem við fengum 1874 og þeirri stjórnarskrá sem við búum við í dag. Það er líka merkilegt að þjóðfundurinn sem haldinn var í Reykjavík 1851 var í rauninni ígildi stjórnlagaþings þó að út af fyrir sig kæmu engin stjórnlög út úr því og aðrir atburðir yrðu til þess að það leystist upp, atburðir í Danmörku sem tengdust samskiptum Danmerkur og Þýskalands og þýskumælandi minni hlutans í Slésvík og Holstein. Það hafði þau áhrif að dönsk stjórnvöld höfðu ekki sama áhuga og áður á því að nokkuð kæmi út úr þjóðfundinum og sennilega má segja að við fyrsta tækifæri þegar mótmæli komu fram hafi fulltrúi danskra stjórnvalda, Trampe greifi, einfaldlega ákveðið að losa sig við þetta þing og hætta þessu bara og það varð líka niðurstaðan. Það varð til þess að nokkrir áratugir liðu þangað til við Íslendingar fengum okkar stjórnarskrá úr hendi Danakonungs eins og því er lýst með styttunni fyrir framan Stjórnarráðið. Það var auðvitað stjórnarskrá sem ekki hafði verið samin eða samþykkt af stjórnlagaþingi hér á landi eins og grundvallarlögin höfðu verið í Danmörku og norska stjórnarskráin í Noregi og stjórnarskrá Bandaríkjanna í Fíladelfíu. Það getur vel verið að þessi saga og þessar rætur sem okkar stjórnarskrár og stjórnlagasaga á sé að einhverju leyti þess valdandi hvernig við stöndum í stjórnarskrármálum í dag.

Frú forseti. Ég kemst ekki lengra (Forseti hringir.) í þessu en í næstu ræðu mun ég fjalla um stjórnlagaþing sem eru nær okkur í tíma en ég hef fjallað um fram að þessu.