136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:46]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta voru svo sem ágæt svör svo langt sem þau náðu en ég var ekki að spyrja um eðlismuninn á stjórnlagaþingi og verkefnum þess annars vegar og löggjafarþingi og verkefnum þess hins vegar eða um endurkjör. Ég var fyrst og fremst að ræða það grundvallaratriði, og menn geta svo deilt um það hvort það eigi eða megi svipta Alþingi þessu valdi — en nota bene Alþingi mundi þá ákveða að fela stjórnlagaþingi að fara í þetta þannig að það yrði þá ákvörðun Alþingis. Sú röksemdafærsla að á einhvern hátt sé verið að veikja þingið er því að mínu viti ekki rétt því það væri þingið sjálft sem tæki þessa ákvörðun sem byggðist þá m.a. á því sjónarmiði að þinginu hefði ekki tekist að gera þessar breytingar.

Ég nefndi það sérstaklega að í báðum tilvikum er um að ræða þjóðkjörna fulltrúa, þ.e. hvort heldur er þjóðkjörinn fulltrúi á stjórnlagaþing eða þjóðkjörinn fulltrúi á Alþingi. Í báðum tilvikum sækja þingfulltrúar umboð sitt beint og milliliðalaust til þjóðarinnar, nema hvað í öðru tilviki er um að ræða persónukjör þar sem viðkomandi einstaklingur er kosinn, í hinu tilvikinu, á Alþingi, er um að ræða listakjör. Kjarninn er sá að í báðum tilvikum sækja þessir þjóðkjörnu fulltrúar vald sitt beint til þjóðarinnar.

Ég hef því átt mjög erfitt með að átta mig á þessu grundvallarsjónarmiði, sem sjálfstæðismenn, hv. þingmenn, hafa haldið frammi í þessu, að á einhvern hátt sé eðlismunur á umboði þeirra sem sætu á stjórnlagaþingi og þeirra sem sætu á Alþingi í ljósi þess að uppsprettan, valdið, er í báðum tilvikum sótt beint til þjóðarinnar. Mér hefur því þótt röksemdafærsla (Forseti hringir.) hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins hvað þetta varðar ekki ganga upp.