136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:48]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekkert óeðlilegt við það að hv. þingmaður sé ekki sammála okkur. Hann þarf ekkert að skammast sín fyrir það. Það er eðlilegt að menn hafi mismunandi skoðanir. (Gripið fram í.) En ég tel ekki að munurinn felist í því hvernig kosið er til stjórnlagaþingsins og hvernig kosið er til löggjafarþingsins. Það er ekki það sem mér finnst skipta máli í þessu þó að ég hafi ýmsar athugasemdir við það hvernig menn ætli að útfæra persónukjörið sem á að viðhafa í tilfelli stjórnlagaþingsins. Ég er síður en svo á móti því að persónukjör sé viðhaft en ég fæ kannski tækifæri til þess að ræða þetta í annarri ræðu.

Það sem að mér finnst skipta mestu máli í þessu er sú samfella sem er í starfi löggjafarþingsins og að löggjafarþingið og störf þess eru reglulega borin undir kjósendur í kosningum og verk þeirra sem kjörnir eru á löggjafarþing (Gripið fram í.) eru borin undir kjósendur í kosningum en þeir sem eru á stjórnlagaþingi eru væntanlega ekki endurkjörnir. En jafnvel þó að afraksturinn sé borinn undir þjóðaratkvæði eru takmörk fyrir því hversu langt þú getur gengið í því að fá álit þjóðarinnar á afrakstri stjórnarskrárvinnu, hvort sem er á stjórnlagaþingi eða á löggjafarþingi. Nú erum við t.d. að fjalla um fjögur afbrigði, fjórar greinar, og þær væru hugsanlega bornar undir þjóðaratkvæði. (Forseti hringir.) Á að bera þetta upp í einu lagi og eiga menn að taka afstöðu í einni atkvæðagreiðslu til allra (Forseti hringir.) fjögurra eða er sá möguleiki fyrir hendi að taka eigi afstöðu til hverrar greinar (Forseti hringir.) fyrir sig?