136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:55]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er eðlileg krafa þeirra sem taka þátt í umræðunni að óska eftir því að flutningsmenn séu viðstaddir málið og í umræðu hér í salnum. Það var auðvitað mjög óheppilegt fyrir hv. þm. Lúðvík Bergvinsson að vera að lýsa því yfir að slíkt væri ekki nauðsynlegt þegar hæstv. fjármálaráðherra gekk í salinn til þess að verða við ósk okkar. Hv. þingmaður virðist vera búinn að gleyma því að hæstv. fjármálaráðherra, á sínum stjórnarandstöðuárum, var manna harðastur í því að krefjast þess að flutningsmenn frumvarpa, þar á meðal hæstv. ráðherrar, væru viðstaddir umræðuna. Hann gekk meira að segja svo langt hér um árið að kalla þá nöfnum fyrir það eitt að vera ekki viðstaddir. En nú er hæstv. fjármálaráðherra hér í hliðarsal og ég fagna því. Ég geri ráð fyrir því að hann verði þá viðstaddur alla umræðuna þar til hæstv. forseti (Forseti hringir.) frestar fundi.