136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt að sjá að hæstv. fjármálaráðherra er í seilingarfjarlægð og getur hlustað á ræðu mína. Ég vonast til þess að hæstv. forsætisráðherra sem líka er í húsinu komi til fundar þar sem ég ætla að beina til hennar beinum spurningum sem ekki hefur verið svarað í þessari umræðu. (Gripið fram í: … nr. 37 sem er umræðan um það mál.) Ég bið nú helsta söngfugl þingsins þessa dagana að tísta ekki meira fram í fyrir mönnum en ég vildi spyrja hæstv. ráðherra og flutningsmenn þessa frumvarps nokkurra spurninga sem tengjast þessu máli og væri því þakklátur að fá þá í salinn til að þeir gætu brugðist við.

Meðan hæstv. forsætisráðherra er ekki viðstödd nota ég tækifærið og beini spurningum til — nú er hæstv. forsætisráðherra komin og get ég þá borið fram spurningar mínar af því að þær beinast einkum að henni. Sú spurning sem ég ætla að bera fyrir hæstv. forsætisráðherra og óska eftir að hún svari er varðandi túlkun á 1. gr. frumvarpsins.

Það kom fram í sjónvarpsþætti, kappræðuþætti í Norðvesturkjördæmi sem var í sjónvarpinu í kvöld að fyrstu menn á lista Vinstri grænna og Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi, hv. þm. Guðbjartur Hannesson og Jón Bjarnason, telja að 1. gr. feli í sér stóran áfanga í því að breyta núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Ég var staddur í þingsalnum þegar hæstv. forsætisráðherra flutti framsöguræðu fyrir málinu fyrir nokkru síðan. Þar kom fram, eins og í greinargerð og kom þó enn skýrar fram í svörum hæstv. forsætisráðherra við andsvörum, að 1. gr. fæli ekki í sér breytingar á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Nú spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvor skilningurinn sé réttur, sá skilningur sem hæstv. forsætisráðherra byggði á í framsöguræðu sinni og kemur fram í nefndaráliti eða sá skilningur sem leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna í Norðvesturkjördæmi leggja í málið. Ég geri ekki ráð fyrir að þeir góðu hv. þingmenn Jón Bjarnason og Guðbjartur Hannesson hafi talað gegn betri vitund í þessum sjónvarpsþætti þannig að ef skilningur hæstv. forsætisráðherra er réttur þá hafa þessir tveir hv. þingmenn greinilega misskilið málið í grundvallaratriðum og bendir það til þess að umræður hafi ekki verið mjög gaumgæfilegar í hópi stjórnarflokkanna áður en þetta mál var samþykkt en það væri gott ef hæstv. forsætisráðherra gæti upplýst um þetta.

Annað atriði sem ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra um varðar þær breytingartillögur sem meiri hluti sérnefndar um stjórnarskrármál hefur gert á frumvarpinu, einkum hvað varðar stjórnlagaþing. Sérnefndin eða meiri hluti hennar gerir ráð fyrir því að stjórnlagaþingið verði að miklum mun umfangsminna heldur en var í frumvarpinu sem hæstv. forsætisráðherra flutti. Það er gert ráð fyrir því að starfstíminn verði miklu skemmri, að þingfulltrúar verði ekki í fullu starfi sem fulltrúar heldur komi saman í fáeina daga nokkrum sinnum á starfstíma stjórnlagaþingsins og allt er umfangið minna í þessu samræmi, í samræmi við þetta.

Nú vildi ég spyrja hæstv. forsætisráðherra: Telur hún sem 1. flutningsmaður málsins að breytingarnar sem hv. þingmenn í meiri hluta sérnefndar um stjórnarskrármál hafa flutt við ákvæðið um stjórnlagaþing séu fullnægjandi? Nú geri ég ráð fyrir því að þegar frumvarpið var flutt í sinni upprunalegu mynd hafi legið einhver hugsun og eitthvert mat á bak við þá útfærslu á stjórnlagaþingi sem finna mátti í frumvarpinu. Ég geri ráð fyrir að ekki hafi verið gert ráð fyrir því að stjórnlagaþingið starfaði í 18 mánuði til tvö ár bara af einhverri tilviljun, ég geri ekki ráð fyrir því. Ég geri heldur ekki ráð fyrir því að það hafi verið tilviljun sem réð því að gert var ráð fyrir því að stjórnlagaþingsfulltrúarnir yrðu í fullu starfi og umfangið yrði verulega mikið. Þess vegna hefur hugmyndin greinilega gerbreyst í meðförum meiri hlutans í sérnefnd um stjórnarskrármál og mér finnst eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra og eftir atvikum líka hæstv. fjármálaráðherra sem er 2. flutningsmaður málsins láti í ljós álit sitt á þessari grundvallarbreytingu og láti kannski í ljós álit á því hvort þær forsendur sem lágu til grundvallar upphaflegu tillögunni um stjórnlagaþing hafi ekki reynst nægilega vel unnar eða nægilega góðar, hvort þær hafi byggt á einhverjum misskilningi og sérnefndin hafi þess vegna getað skorið þetta niður án þess að það kæmi með nokkrum hætti niður á störfum stjórnlagaþingsins.

Mér finnst rétt að fá afstöðu til þessa vegna þess að ég geri ráð fyrir því að frumvarpið hafi í upphafi verið nokkuð vel unnið. Ég geri ráð fyrir því að þeir sem fluttu frumvarpið hafi verið búnir að hugsa fyrir því hvernig áhrif það frumvarp sem þeir lögðu fram ætti að hafa. Ég geri ráð fyrir því að þeir hafi metið þörfina fyrir stjórnlagaþing. Ég geri ráð fyrir að þeir hafi metið þörfina fyrir starfstíma stjórnlagaþings. Ég geri ráð fyrir því að þeir hafi metið þörfina fyrir því hvort stjórnlagaþingsfulltrúar ættu að vera í fullu starfi eða hlutastarfi, hvort þeir ættu að starfa samfellt eða koma saman í fáeina daga nokkrum sinnum á einu ári. Ég geri ráð fyrir því að eitthvert mat hafi farið fram á því í upphafi hvernig málið var útbúið og þar af leiðandi hlýtur eitthvert nýtt mat á þörfinni að liggja fyrir þegar þessar breytingartillögur eru gerðar og mér finnst eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra tjái sig um það hvort hún telji að tillögur meiri hluta sérnefndarinnar séu raunhæfar og hvort hugmyndir flutningsmanna frumvarpsins í upprunalegri mynd þess hafi þá verið óraunhæfar, hvort flutningsmennirnir og þeir ráðgjafar sem unnu með þeim að gerð málsins hafi stórlega ofmetið bæði þann starfstíma sem þyrfti til, það vinnuframlag sem þyrfti til af hálfu stjórnlagaþingsfulltrúa og það umfang að öðru leyti sem starfsemi þess fylgir. Mér þætti mjög vænt um ef hæstv. forsætisráðherra gæti skýrt þetta og það væri líka gagn að því eins og ég sagði áðan að hæstv. fjármálaráðherra talaði um þetta.

Eins vildi ég gjarnan fá fram, þótt tími hv. þingmanna og hæstv. ráðherra sé auðvitað knappur í andsvörum, afstöðu þeirra til þess hvernig þeir telji að eigi að kjósa til stjórnlagaþings. Það eru miklar vangaveltur um það mál í nefndaráliti meiri hlutans, nefndaráliti meiri hluta sérnefndar um stjórnarskrármál. Það hefur verið nefnt að meiri hlutinn sjái kannski ekki ástæðu til að leggjast gegn persónukjöri en varpar síðan fram ýmsum vangaveltum um jöfnunarsæti með tilliti til landshluta, kynjahlutföll og þess háttar. Þar sem þeir fulltrúar sérnefndarinnar hafa verið í salnum í dag en svöruðu ekki spurningum mínum um það hvernig ætti að samræma persónukjör, jöfnunarsæti og þess háttar þá þætti mér gott að vita ef hv. flutningsmenn frumvarpsins, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, hefðu svör við þessum þáttum. Þetta flækist alveg óskaplega fyrir mér, ég verð að játa það. En það kann að vera eins og ég sagði í þingræðu um miðjan dag að mér sjáist yfir eitthvað í þessu sambandi. Ég hélt að jöfnunarsæti byggðu á því fyrirkomulagi að það væru kjördæmi og það væru listar í framboði. Ég sé ekki hvernig jöfnunarsæti geta komið til að öðru leyti. Meiri hluti sérnefndar um stjórnarskrármál virðist hafa einhverjar hugmyndir um að það geti gengið að samræma persónukjör og jöfnunarsæti. Ef hæstv. ráðherrar eru sammála þessu mati meiri hluta sérnefndarinnar væri gott að fá rökstuðning fyrir því.

Að lokum, hæstv. forseti, vil ég vekja athygli á því að ég hef komið með fjölmargar spurningar til hæstv. ráðherra og veit að þeir hafa takmarkaðan tíma í andsvörum til að svara mér og ég veit ekki hvort þeir ætla að nota andsvörin til þess. En ég bendi hæstv. ráðherrum hins vegar á að þeir hafa lögvarinn rétt í þingsköpum til að koma inn í umræðuna og flytja ræður hvenær sem þeim hentar.