136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi vil ég taka fram að það hefur margoft komið fram af hálfu okkar sjálfstæðismanna í þessari umræðu að við værum meira en tilbúnir til að setjast niður og ræða um breytingar á 79. gr. stjórnarskrárinnar með það fyrir augum að unnt verði að gera stjórnarskrárbreytingar í framtíðinni án þess að komi til alþingiskosninga. Með því teljum við að það sé opnað mjög á möguleika, t.d. næsta þings, á því að fjalla um stjórnarskrárbreytingar. Við teljum að slík breyting mundi taka alla spennu úr þessum málum, taka spennuna úr því sem fylgir því fyrir þá sem eru í ríkisstjórn á hverjum tíma eða stjórnarmeirihluta að þurfa að rjúfa þing og efna til kosninga þegar boðað er til stjórnarskrárbreytinga. Við teljum einnig að með því að gera núna þá breytingu eina sé ekki verið að útiloka neinar frekari breytingar heldur fyrst og fremst verið að vinna tíma til að vinna hugmyndirnar betur og reyna í næði að komast að sátt um þessi mál í staðinn fyrir að reyna að keyra málið í gegn eins og greinilega er augljós vilji stjórnarmeirihlutans á Alþingi, þ.e. ríkisstjórnarflokkanna og þeirra flokka sem hengt hafa sig aftan í ríkisstjórnarflokkana í þessu tiltekna máli. Það er ekki rétt að ekki hafi komið frá okkur einhver gagntilboð í þessu efni (LB: Ekki eitt einasta.) og þrátt fyrir það sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson kallar fram í þá hefur það legið skýrt fyrir að við værum til í að gera þetta og við höfum fært ágætisrök fyrir því að það væri skynsamleg lausn á þessu máli að breyta ákvæðinu sem snýst um breytingar á stjórnarskrá. Þar með er ekkert útilokað en tími vinnst til að vinna málið betur og ná meiri og breiðari sátt um þetta mál en hefur fengist með þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið.

Að lokum minni ég svo á að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra geta komið inn í umræðuna hvenær sem þeir vilja til að tjá sig ítarlegar um þessi álitamál.