136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:24]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er náttúrlega ákveðið vandamál þegar það verður meira framboð af vöru en eftirspurn og í því vandamáli á hv. þm. Illugi Gunnarsson. Ég get þó glatt hann með því að þó ég hafi ekki verið hér í salnum þegar hann flutti ræðu sína þá var ég á skrifstofu minni, varamannskrifsstofunni á 4. hæð í Austurstræti, og sá að hann kom hér í stólinn. Því miður var hljóðið ekki mjög hátt stillt þannig að ég þurfti mjög að einbeita mér að því að fylgjast með því sem hann sagði og kann að vera að ég hafi misst af því að einhverju leyti.

Um röð ræðumanna þá er það rétt sem hv. þm. Birgir Ármannsson sagði áðan að um hana fjallar einmitt sérstök grein í þingsköpum sem gefur forseta heimildir til þess að bregða út af þeirri röð sem ræðumenn eru í þegar þeir beiðast þess og það á í fyrsta lagi við um ráðherra, í öðru lagi um framsögumann og síðan til þess að ræðuefni með og á móti skiptist á (Forseti hringir.) eða til þess að þingmaður geti gert stutta leiðréttingu eða athugasemd. Ég fer fram á það að forseti athugi (Forseti hringir.) um röð ræðumanna hér, hvort þetta eigi við og taki þetta upp og ræði þetta við aðra forseta í þinginu, þ.e. um hvernig þessu eigi að hátta (Forseti hringir.) því að eins og ég segi þá er bara framboð meira en eftirspurn á sumum ræðumönnum hér.