136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:29]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér fannst hv. þm. Illugi Gunnarsson fullhvumpinn yfir því að ræða hans skyldi ekki hafa vakið verðskuldaða athygli hjá stjórnarþingmönnum og salurinn fyllst af þeim. Það er alveg ástæðulaust að taka þetta óstinnt upp. En ef hv. þingmaður ætlar að halda fram sem horfir, að hann muni tala hér nokkrum sinnum í viðbót, þá held ég að án efa muni menn mæta í salinn til þess að hlýða á það sem hv. þingmaður hefur fram að (Gripið fram í.) færa.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Merði Árnasyni því mér sjálfum hefur leikið nokkur forvitni á að vita hvað til dæmis hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir hefur um þetta mál að segja. Hún hefur verið á mælendaskrá um skeið en ekki komist að vegna breytinga sem hafa átt sér stað á mælendaskrá. Við höfum rætt þess mál á fundum þingflokksformanna og ég segi bara fyrir mig að mér leikur forvitni á að heyra þá ræðu og vænti þess að ekki verði kannski (Forseti hringir.) fiktað meira í mælendaskrá heldur en ástæða þykir til.