136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:32]
Horfa

Jón Magnússon (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Er ekki eðlilegt að miða við það að ef þingmaður er ekki viðstaddur þegar hann á að taka til máls miðað við mælendaskrá falli hann bara brott af mælendaskránni. Ég hefði talið að það væri hin eðlilega regla.

Ég hlustaði með athygli á þær fróðlegu upplýsingar sem komu fram hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur. Ég verð að segja að mér finnst miður að þeir sem bera fram það frumvarp sem hér um ræðir, og hafa látið sér annt um að það nái fram að ganga, sjái ekki ástæðu til þess að fjalla um það, taka til máls, gera grein fyrir þeim sjónarmiðum sem að baki liggja eða þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru í sérnefnd um stjórnarskrármálið, hvernig á því stóð að þegar við sjálfstæðismenn buðum upp á að reyna að afgreiða málið með samkomulagi þá skyldu þeir beita okkur ofríki til að taka málið út úr nefnd í fullu ósamkomulagi við okkur til að reyna að kúga okkur í þingsal. Hvernig í ósköpunum stendur á svona vinnubrögðum? Ég held að það sé fyrst og fremst við þá að sakast hvernig á því stendur. Mér finnst miður að hv. formaður sérnefndarinnar skuli ekki hafa séð ástæðu til að tjá sig frekar en raun ber vitni um þessi mál.