136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:34]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Sá hæstv. forseti sem sat í stólnum áðan var með túlkanir á þingsköpunum sem ég kannast ekki við. Megum við búast við því að það sé regla að allir sem eru á mælendaskrá í hvert skipti þurfi í framtíðinni að vera í þingsalnum. Ég efast um að hæstv. forseti vilji komast að þeirri niðurstöðu til framtíðar.

Ég minni hv. þm. Mörð Árnason líka á það, og hæstv. fjármálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon, að meðan þeir voru í stjórnarandstöðu, ásamt hv. þm. Atla Gíslasyni, litu þeir öðruvísi á þingsköpin en þeir gera núna. Hér áður var sveigjanleikinn mun meiri, m.a. hjá fyrrverandi hæstv. forseta Alþingis, Halldóri Blöndal, við túlkun þingskapanna vegna þess, (Forseti hringir.) hæstv. fjármálaráðherra, að forseti Alþingis er ekki (Forseti hringir.) forseti ríkisstjórnarinnar. Hann er forseti okkar þingmanna allra. Ég vil minna hæstv. forseta á það.