136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:35]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja eins og er að mér hlýnar óendanlega mikið um hjartaræturnar að mín skuli vera saknað úr umræðunni. Þegar hv. þm. Mörður Árnason gerir sér far um að hefja umræður um fundarstjórn forseta, vegna þess að ég muni væntanlega vera á mælendaskrá einhvern tíma síðar í nótt, þá get ekki annað sagt en að mér þyki afskaplega vænt um að heyra hversu mjög hann saknar mín. Ég treysti því þá að hv. þm. Mörður Árnason verði hér til að hlýða á ræðu mína og jafnvel koma í andsvör við mig þannig að við getum rætt málið og skipst á skoðunum. Að ekki sé talað um að hv. þm. Mörður Árnason komi sér á mælendaskrá þannig að hann geti lýst sjónarmiðum sínum í þessu máli. Ég tala ekki um þegar (Forseti hringir.) ég fæ þetta ákall frá hv. þingflokksformanni Samfylkingarinnar, Lúðvíki Bergvinssyni, um að hann bíði spenntur eftir ræðu minni. Ég treysti því jafnframt að hann verði hér til að hlýða á hana þegar þar að kemur.