136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:56]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst umræðurnar hafa orðið heldur líflegri og ánægjulegt að sjá að bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hafa leyft sér að taka aðeins þátt í umræðunni. Þau hafa reyndar ekki farið í langar ræður en í andsvör og sýnt aðeins þá gömlu takta sem þau bæði sýndu okkur á árum áður þegar þau voru í stjórnarandstöðu og höfðu ýmislegt til málanna að leggja. Í því ljósi finnst manni hálfskondið að heyra hæstv. fjármálaráðherra býsnast yfir því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi talað í tugi klukkutíma. Út af fyrir sig hélt þjóðin sennilega, a.m.k. einhvern tíma, að það væri einungis núverandi hæstv. fjármálaráðherra og einhverjir í þingflokki hans sem gætu talað í tugi klukkutíma. (Gripið fram í: Og forsætisráðherra.) Og hæstv. núverandi forsætisráðherra, (Gripið fram í: Tíu tíma.) tíu tíma ræðan var fræg. Út af fyrir sig má kannski segja og hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa sýnt það að þeir geta líka talað í tugi klukkutíma þegar þeir leggja saman. En enginn þeirra hefur farið út í það, enda leyfa þingsköpin í dag það ekki, að ræða málin í tugi klukkutíma eins og hæstv. fjármálaráðherra gerði þegar hann var í stjórnarandstöðu og hæstv. forsætisráðherra þegar hún var í stjórnarandstöðu.

Hins vegar taldi hæstv. fjármálaráðherra að þau efnisatriði sem við erum að fjalla um hérna væru þaulrædd, og vissulega má segja að þau hafa verið mikið rædd en þau eru ekki þaulrædd og um þau er ekki sátt. Það var vitað fyrir fram, áður en þetta stjórnlagafrumvarp var lagt fram á yfirstandandi þingi. Hann spurði hvað það væri sem við hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðum við þau atriði að athuga og það vill þannig til að ég fór yfir það, sérstaklega hvað varðar auðlindaákvæði, hér fyrr í kvöld og hæstv. fjármálaráðherra sat meira að segja hérna inni meðan ég fór yfir það. Hann ætti því að vera búinn að heyra það a.m.k. tvisvar í kvöld, bæði af minni hálfu og af hálfu hv. þm. Illuga Gunnarssonar, hvað það er sem þar er um að ræða, og ætla ég ekki að endurtaka það núna nema í ljós komi að þetta hafi verið kaflinn sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson heyrði ekki í ræðu minni fyrr í kvöld. Fyrst hann er mættur í salinn er kannski rétt að ég (Gripið fram í.) flytji þennan kafla ræðunnar aftur.

Það snýst um að hugtakanotkun í þessari breytingartillögu er óskýr og óljós. Það á við um hugtakið þjóðareign, hvað það er sem þar er um að ræða. Það er ekki ríkiseign, segja menn, það er eitthvað annað en það er ekki skilgreint og sumir fræðimenn hafa beinlínis sagt að þjóðin geti ekki verið eigandi. Það kallar þá hins vegar á hitt: Hvernig er þá réttindum annarra háttað hvað varðar þjóðareign, þ.e. nýtingarrétturinn, ráðstöfunarrétturinn? Hvaða áhrif hefur þessi þjóðareign á þá þætti?

Síðan snýst þetta um nytjastofnana, hvaða stofnar eða dýrategundir eru nytjastofnar. Það þarf ekki endilega að vera sama mengið frá einum tíma til annars því að dýrategund eða stofn getur farið úr því að vera ónýttur í það að vera nytjaður og þar með nytjastofn, kannski eingöngu fyrir hugmyndaflug og hugmyndir, hugsun, frumkvæði og framtak eins manns. Það breytir þá stöðu stofnsins í að vera nytjastofn og verðmætur og þar með þjóðareign. Hvað verður þá um rétt þess aðila sem hafði frumkvæði og sýndi hugmyndaauðgi og hugsun til að nytja þann stofn?

Eins getur það gerst hætt verði að nytja dýrategund eða stofn sem nytjaður hefur verið og hættir þá væntanlega að vera nytjastofn og fellur þar með úr þjóðareign um lengri eða skemmri tíma. Hver er staðan þá? Er hann enn þá í þjóðareign? Ef byrjað verður að nytja hann aftur, er hann þá aftur kominn í þjóðareign en var það ekki í millitíðinni? Hvernig er þá með réttindi þess aðila sem hefur notin aftur? Ef hann átti réttindi á fyrra tímabilinu fær hann þau þá aftur eða fær einhver annar réttinn? Ef einhver annar aðili hefur frumkvæði að því að byrja að nytja stofninn aftur, fær hann þá réttinn? Eða sá sem nýtti stofninn á fyrra tímabili og hætti að nýta hann en hefur ekki hafið nýtinguna, eignast hann þá einhvern rétt? Þetta er allt saman óljóst. Ég held að lögfræðingur eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson ætti að átta sig á því að þarna er um óljósa hluti að ræða og óljósa hluti á ekki að setja í stjórnarskrána.

Hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, fjallaði líka um auðlindaákvæðið og taldi að í því fælist ekki nein breyting á núverandi stöðu. Þá segir maður: Ókei, til hvers þá að vera að þessu? Til hvers á að vera að breyta stjórnarskránni ef það á ekki að fela í sér neina breytingu frá núverandi stöðu? Aðrir þingmenn stjórnarflokkanna tala um annað, t.d. þingflokksformaður Vinstri grænna, Jón Bjarnason, eins og fram hefur komið. Hann telur þetta vera upphafið að róttækri breytingu á fiskveiðistjórnarkerfinu. Hverju á maður að trúa? Auðvitað hefur maður tilhneigingu til þess að trúa hæstv. forsætisráðherra frekar. En hvaða gildi hafa þau orð sem þá falla þegar hugsanlega kæmi til þess að dómstólar ættu að fjalla um málið? Þá eru það ekki orð hæstv. forsætisráðherra í ræðu eða riti sem ráða heldur er það lagatextinn sjálfur. Það hefur margsinnis verið um það fjallað og um það dæmt að Alþingi dugi ekki í greinargerðum eða nefndarálitum að skilgreina sig frá orðalagi lagatextans, en það er það orðalag sem gildir. Þess vegna held ég að yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra hafi frekar aukið á óvissuna í þessu en hitt.

Aðeins barst hérna í tal hjá hæstv. forsætisráðherra kostnaður við stjórnlagaþingið. Hæstv. forsætisráðherra taldi að það ætti að gleðja sjálfstæðismenn að búið væri að breyta því hvernig stjórnlagaþingið ætti að vera sem leiddi til þess að kostnaður yrði minni. Út af fyrir sig gleður það sjálfstæðismenn að kostnaðurinn verði minni en það þarf ekkert endilega að gleðja sjálfstæðismenn ef það þýðir að stjórnlagaþingið vinni ekki eins vel eða hafi ekki tækifæri til þess að vinna eins vel og ella hefði verið. Í núverandi hugmyndum sem fram koma í nefndarálitinu er jafnvel gert ráð fyrir að fulltrúar á stjórnlagaþinginu verði þar í hlutastarfi, það verði ekki fullt starf til tveggja ára eins og upphaflega var talað um heldur verði það hlutastarf til eins árs. Ég hef aðeins verið að velta því fyrir mér hvernig þetta gæti gengið saman. Ég hef verið að sjá sjálfan mig fyrir mér í því ef það skyldi nú verkast þannig að ég yrði fulltrúi á stjórnlagaþinginu, sem ég hef svo sem ekkert hugsað mér, en ef það væri í hlutastarfi mundi ég hugsanlega hlaupa úr fjósi í Flóanum í stjórnlagaþingsalinn og síðan í svínabúið á Kjalarnesinu þar á eftir.