136. löggjafarþing — 127. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:07]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég hef lagt mig fram við það í gegnum tíðina að safna saman þeim fræðigreinum sem skrifaðar hafa verið um hugtakið þjóðareign á náttúruauðlindum eða sameign þjóðarinnar. Þetta eru þær fræðigreinar sem skrifaðar hafa verið um það álitaefni. Þess vegna er dálítið merkilegt að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Atla Gíslason, sem einnig er hæstaréttarlögmaður, lýsa því yfir að ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum eða sameign þjóðarinnar sé skýrt og efnisinntak þessa frumvarps óumdeilt. Ég hygg að ef við skoðum réttarsöguna sé augljóst að miklar deilur séu um inntak þjóðareignarhugtaksins.

Þetta hugtak á sér töluverða sögu. Minn gamli kennari í lagadeild Háskóla Íslands, Sigurður Líndal, sem er einn harðasti andstæðingur þessa frumvarps ef marka má þær umsagnir sem liggja fyrir í málinu, upplýsti mig um það einu sinni á fundi að þetta hugtak um sameign þjóðarinnar hefði fyrst verið lögfest í stjórnarskrá Sovétríkjanna. Í þeirri ágætu stjórnarskrá voru reyndar réttindi einstaklinganna tryggð í bak og fyrir en síðar gerðist það að eignarrétturinn var afnuminn og menn lögðu dálítið annan skilning í sameign þjóðarinnar samkvæmt þeirri stjórnarskrá en ég hygg að flutningsmenn þessa frumvarps geri núna.

Ýmsar þjóðir hafa fjallað um og lögfest í stjórnarskrár sínar hugtakið þjóðareign á náttúruauðlindum. Eins og ég sagði í síðustu ræðu minni er það bara staðreynd, og ég hef lesið stjórnarskrár afskaplega margra Evrópuríkja, að eftir því sem maður fer austar í álfunni, þeim mun algengara er að rekast á þetta hugtak. Ef við skoðum þá tillögu sem liggur fyrir þinginu má segja að sú tillaga eigi sér helst fyrirmyndir í stjórnarskrám Slóvakíu og Rúmeníu, ef ég man rétt. Ég hygg að stjórnarskrá Rúmeníu sé sú sem fer næst því sem hér er lagt til. Menn verða að velta því fyrir sér hvort við viljum fara sömu leið og Rúmenar varðandi þessar hugmyndir. Af því að ég sé að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hnyklar brýnnar er kannski rétt að taka það fram að í stjórnarskrá Portúgals er einmitt sambærilegt ákvæði einnig. En að meginstefnu eru það Austur-Evrópuþjóðirnar, gömlu kommúnistaríkin, sem hafa tekið upp slík ákvæði, bara svo því sé haldið til haga.

Af þeim fræðiskrifum sem liggja fyrir um hugtakið þjóðareign og sameign þjóðarinnar er ljóst að um það eru mjög deildar meiningar meðal fræðimanna, eins og ég sagði áðan. Þetta eru þau skrif sem liggja fyrir um það, og mjög deildar meiningar eru um inntak hugtaksins. Það höfum við séð í þeim deilum sem hafa átt sér stað á Íslandi um túlkun á 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna, um að nytjastofnar sjávar við Íslandsstrendur séu sameign þjóðarinnar. Deilurnar um það ákvæði og túlkun þess bera þess glöggt merki.

Segja má að ákveðið fjör hafi færst í umræðuna þegar Sigurður Líndal skrifaði grein, Nytjastofnar á Íslandsmiðum – Sameign þjóðarinnar, sem út kom árið 1998. Þá færði hann rök fyrir því í ágætri fræðigrein sinni að þjóð í eignarréttarlegum skilningi gæti ekki átt neitt, að þjóð getur ekki verið eigandi neins í eignarréttarlegum skilningi. Ríkið getur verið það en þjóð getur ekki verið það. Sigurður kemst að þeirri niðurstöðu í grein sinni að þjóð geti hvorki haft umráðarétt, hagnýtingarrétt, ráðstöfunarrétt, skuldfestingarrétt, rétt til að láta eign ganga að erfðum eða rétt til þess að leita fulltingis almannavalds til verndar eigninni, sem eru mikilvægustu heimildirnar sem felast í eignarréttinum samkvæmt þeim skilningi sem í hann hefur verið lagður, ekki bara á síðustu árum heldur áratugum og jafnvel öldum. Ef menn vildu skýra þetta hugtak í því frumvarpi sem er til umfjöllunar væri miklu nær að menn segðu sinn hug og segðu að auðlindir þjóðarinnar eða auðlindirnar, náttúruauðlindir á Íslandi, ættu að vera í ríkiseign, enda eins og ég sagði áðan getur ríkið átt eignir, ráðstafað þeim o.s.frv.

Þetta er einmitt það atriði sem Eiríkur Tómasson, prófessor við Háskóla Íslands, benti á þegar við fjölluðum í sérnefnd um stjórnarskrármál um frumvarp sem hér var til umfjöllunar árið 2007. Hann benti á að þegar menn tala um þjóðareign á náttúruauðlindum eru menn í raun að tala um ríkiseign. Ef menn vilja skýra málin nánar, skýra þá meiningu sem þeir vilja leggja í lagatextann, ættu þeir að nefna ríkiseign en einhverra hluta vegna hefur það ekki verið gert.

Hv. þm. Atli Gíslason hefur lýst því yfir að ákvæðið eins og það er í frumvarpinu sé skýrt og undir það tók hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon. En ef við skoðum þær umsagnir sem fram hafa komið við málið gera Davíð Þorvaldsson lögfræðingur, Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, Sigurður Líndal, prófessor emerítus í lögfræði, Ragnar Árnason og Birgir Þór Runólfsson, prófessorar í hagfræði, Samorka, Landssamband smábátaeigenda, Orkustofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Landssamband íslenskra útvegsmanna og HS Orka, athugasemdir við 1. gr. og þá sérstaklega hugtakið þjóðareign. Mér er því eiginlega fyrirmunað að skilja í ljósi þessa, hafi hæstv. ráðherra og hv. þingmaður lesið þær umsagnir sem liggja fyrir í málinu, hvernig þeir geta lýst því yfir að inntak ákvæðisins, eins og lagt er til að það verði, sé skýrt. Ég tel í ljósi þess sem fram kemur í umsögnunum og áralangra dóma fræðimanna á sviði eignarréttar, um inntak þjóðareignarhugtaksins, sýni að með því að lögfesta þetta ákvæði erum að við að setja á svo mikla réttaróvissu á Íslandi varðandi þessa þætti að ekki er hægt að fallast á það.

Ég tek síðan undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa bent á að athyglisvert sé að sjá hvernig þingmenn stjórnarflokkanna og hæstv. ráðherrar túlka með mismunandi hætti ákvæði 1. gr. Hæstv. forsætisráðherra sagði í andsvari í 1. umr. að með því ætti ekki að hrófla við núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Svo koma hv. þingmenn Jón Bjarnason og Guðbjartur Hannesson, hæstv. forseti þingsins, og lýsa því yfir að með þessari breytingu sé verið að stíga fyrstu skrefin í því að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu. Maður fær svolítinn hroll þegar maður les ályktun landsfundar Samfylkingarinnar um sáttagjörð í fiskveiðistefnu.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Allar aflaheimildir í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi verða innkallaðar eins fljótt og auðið er og að hámarki á 20 árum.“

Að hámarki á 20 árum. Það þýðir að komist Samfylkingin til valda má allt eins búast við því að fiskveiðistjórnarkerfinu verði umbylt að kosningum loknum. Ég velti því fyrir mér hvort Framsóknarflokkurinn viti virkilega af þessu vegna þess að oddviti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi lýsti því yfir að hann styddi núverandi kvótakerfi.

Nei, herra forseti, ég held að þegar frumvarp til stjórnarskipunarlaga er útbúið með þeim hætti sem hér er gert ættu menn að hugsa sig tvisvar um og velta því fyrir sér hvort þeir geti ekki gert betur vegna þess að ekki viljum við skapa réttaróvissu (Forseti hringir.) á þessum sviðum. Ég minni á að menn hafa haft mjög miklar athugasemdir við (Forseti hringir.) framgöngu ríkisins varðandi eignarrétt á fasteignum, (Forseti hringir.) þar á meðal í þjóðlendumálum. Ég mun hugsanlega víkja að því í næstu ræðu minni.