136. löggjafarþing — 127. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:20]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég rakti hérna þá hefur verið djúpstæður ágreiningur um inntak og merkingu hugtaksins þjóðareign. Það er ekki rétt að þeir sérfræðingar sem komu fyrir nefndina og veittu umsagnir telji að það hafi verið skýrt. Sigurður Líndal segir í sinni umsögn, með leyfi forseta:

„Ég tel að skoða þyrfti 1. gr. frumvarpsins betur vegna óljósrar merkingar orða og hugtaka sem þar eru notuð.“

Ég bendi jafnframt á að Samband íslenskra sveitarfélaga segir:

„Tilgangur ákvæðisins er fremur óljós og sömuleiðis hvaða áhrif ákvæðinu er ætlað að hafa.“

Það má líka benda á að Davíð Þór Björgvinsson dómari við Mannréttindadómstól Evrópu segir, með leyfi forseta:

„... æskilegt að nákvæm skoðun fari fram á þessu atriði“ — þ.e. 1. gr. frumvarpsins — „og mögulegum afleiðingum ákvæðisins að þessu leyti.“

Ætlar hv. þm. Atli Gíslason að halda því fram að þessir þrír aðilar velkist ekki í vafa um inntak og þýðingu þessa frumvarps? Þeir segja það berum orðum að það sé óljóst og óskýrt.

Varðandi síðan það hvort aflaheimildir séu undirorpnar eignarrétti þá hef ég svo sem ekki gert nákvæma lögfræðilega rannsókn á því. En það hefur hins vegar eini doktorinn sem Íslendingar eiga í eignarrétti gert. Hún heitir Guðrún Gauksdóttir og hún skrifaði álitsgerð hér fyrir nokkrum missirum síðan og komst að því að aflaheimildir væru háðar beinum eignarrétti. Ég hygg ég muni þetta nokkuð örugglega. Hún er doktor í eignarrétti og ég hef nú tilhneigingu til þess að trúa hennar rannsóknum. (Forseti hringir.) Eitt veit ég þó að aflaheimildir sem menn hafa fest kaup á verða ekki af þeim teknar bótalaust og ég held (Forseti hringir.) að hv. þm. Atli Gíslason (Forseti hringir.) hljóti að vera sammála mér um það. Annars leiðréttir hann mig.