136. löggjafarþing — 127. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:27]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þess sem fram kom í máli hv. þingmanns um hugtakið þjóðareign þá hefur það verið skilgreint þannig að um sé að ræða að þær náttúruauðlindir sem ekki eru undirorpnar einkaeignarrétti séu í þjóðareign, þ.e. einkaeignarrétturinn er virtur.

Ég hef alltaf skilið þetta hugtak þannig að þó það sé kallað þjóðareign að um sé að ræða ríkiseign sem hafi það einkenni að auðlindir eða verðmætin verði ekki látin varanlega af hendi. Þessi tegund eignarréttar er kölluð þjóðareign. Þannig hef ég alltaf skilið þetta ákvæði í meira en áratug.

En mig langaði vegna ummæla hv. þingmanns bara að lesa hér upp úr athugasemdum dómarans Davíðs Þórs Björgvinssonar vegna þess að hann hefur verið hafður fyrir þeirri sök hér í umræðunni að hann hafi þær hugmyndir að þjóðareign hafi litla sem enga merkingu, þ.e. þetta hugtak. Ég ætla að lesa hér beint upp úr athugasemdum hans. Þær hljóða svona, með leyfi forseta.

„Í greinargerð kemur fram að hugtakið „þjóðareign“ er sérstakrar merkingar ... Orðanotkun að þessu leyti er ekki sérstakt vandamál, enda nægjanlega skýrt af greinargerð hvað átt er við, auk þess sem hafa má hliðsjón af þjóðlendulögunum, sbr. lög nr. 58/1998, eins og bent er á í greinargerð.“

Svo segir Davíð: „Ástæða er til að taka þetta fram þar sem heyrst hafa þau sjónarmið að hugtakið sé merkingarlaust, ...“

Þetta segir Davíð Þór Björgvinsson í sínu áliti. Ég held að það sé mikilvægt að þessu sé nú til haga haldið í umræðunni vegna þess að það hefur ítrekað verið vitnað til Davíðs Þórs Björgvinssonar í umræðu um að hugtakið þjóðareign sé merkingarlaust.