136. löggjafarþing — 127. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:29]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú einhver ástæða fyrir því að Davíð Þór Björgvinsson segir í umsögn sinni, með leyfi forseta: „... æskilegt að nákvæm skoðun fari fram á þessu atriði“ — og þá á hann við 1. gr. frumvarpsins — „og mögulegum afleiðingum ákvæðisins að þessu leyti.“

Í þessum orðum felst að það er óljóst hvað felst í 1. gr. Það er ekki hægt að draga neinar aðrar ályktanir þegar dómari við Mannréttindadómstól Evrópu dregur þessar ályktanir af ákvæðinu. Ég get ekki séð að hægt sé að draga neinar aðrar ályktanir af því. En ég hvet þingmenn stjórnarmeirihlutans til að kynna sér þessar umsagnir.

Ég spyr hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. Er hann sáttur við að afgreiða þetta frumvarp eins og það er úr garði gert með hliðsjón af öllum þeim alvarlegu athugasemdum sem fram koma í umsögnunum? Við höfum gert grein fyrir þeim hérna og finnst honum engin ástæða til þess að taka til greina þær alvarlegu athugasemdir sem þarna koma fram?

Mig langar síðan til þess að spyrja hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hver sé munurinn á þeirri ríkiseign sem hann nefndi — og ég vil nú hrósa honum fyrir það að koma hreint fram hvað varðar skoðun hans á því hugtaki og réttmæti athugasemda minna um það atriði — en hver er munurinn á ríkiseign sem ekki má láta varanlega af hendi og annars konar ríkiseign? Er til tvenns konar ríkiseign? Við vitum að til eru ýmsar ríkiseignir eins og ríkisjarðir (Gripið fram í: Sem má selja.) sem eru seldar. Eru þær ekki þjóðareign? Eru ríkisjarðir ekki þjóðareignir? (Gripið fram í.) Ég held að það væri mikilvægt að (Forseti hringir.) fá þetta atriði fram.