136. löggjafarþing — 127. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:35]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við höldum áfram langt inn í nóttina að ræða stjórnarskrármálið. Ljóst er að ríkisstjórnarflokkarnir eru mjög einbeittir í þeim ásetningi sínum að þvinga fram í fyrsta sinn í hálfa öld breytingar á stjórnarskránni í ágreiningi á þinginu. Það er auðvitað til merkis um þann ágreining að hér hefur verið rætt í fjöldamörgum ræðum og tekist á um efnislegt innihald margra greina frumvarpsins, reyndar er tekist á um efnislegt innihald og efnislega þýðingu allra greina frumvarpsins að ég hygg.

Síðast var, í andsvörum við hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, rætt um 1. gr. frumvarpsins sem hefur reyndar verið þynnt töluvert mikið út í nefndarstarfinu og vekur reyndar töluverða athygli, eftir þær breytingar sem gerðar hafa verið á þeirri grein, hversu mikil áhersla er lögð á það af minnihlutastjórninni ásamt með Framsókn að ákvæðið nái fram að ganga. Það segir nefnilega í greinargerð frumvarpsins að mikilvægt framlag hins nýja stjórnarskrárákvæðis sé að, með leyfi forseta, „þegar auðlindir falla á annað borð undir hugtakið þjóðareign verður tryggt að þeim verði ekki afsalað varanlega til einstaklinga eða lögaðila, sbr. regluna sem fram kemur í 2. mgr. ákvæðisins“. En hún hefur einmitt verið felld brott núna í nefndarstarfinu. (Gripið fram í.) 2. og 3. mgr. falla brott samkvæmt breytingartillögunni. (Gripið fram í: Ekki síðasti málsliðurinn.) Ekki síðasti málsliðurinn, er kallað fram í. Gott og vel. En breytingarnar á 1. gr. hafa verið verulegar og eftir stendur ágreiningurinn um efnislegt innihald greinarinnar.

Dæmigert fyrir umræðu af þessum toga er að menn kalla til þá sérfræðinga sem eru yfirleitt á því að þær túlkanir sem fram koma í frumvarpinu séu ásættanlegar og nefna umsagnir þeirra til vitnis um að frumvarpið sé efnislega vel rökstutt og haldi vatni og þoli gagnrýni en láta hjá líða í umræðunni að geta þeirra sem færa fram gagnrýni.

Það sem augljóslega stendur upp úr er að mikill meiri hluti þeirra sem fengu málið til umsagnar sagði annars vegar að málið væri illa undirbúið, þyrfti lengri aðdraganda og það væri ekki boðlegt að bjóða upp á breytingar á stjórnarskránni í einhverjum flýti og hins vegar að þeir höfðu ólíkar athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Fram hefur komið í umræðunni í kvöld að sjálfstæðismenn hafi ekki teflt fram sínum breytingartillögum. Heyr á endemi! Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu í stjórnarskrárnefndinni og komu þar á framfæri öllum sínum breytingartillögum og það var einmitt í ágreiningi eftir viðræður við fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem málið var tekið út og sett á dagskrá þingsins. Það er auðvitað fráleitt að halda því fram að ekki hafi komið fram neinar hugmyndir um aðrar útfærslur á þessu frumvarpi. Svona standa menn einfaldlega ekki að því að breyta stjórnarskránni. Svona umgangast menn ekki grundvallarlögin og stjórnarskráin er ekki skiptimynt á milli stjórnmálaflokka þegar verið er að mynda ríkisstjórn. Það er ekki boðlegt fólkinu í landinu að það sé hluti af samkomulagi milli flokkanna skömmu fyrir kosningar að hver flokkur fyrir sig fái sínar draumabreytingar á stjórnarskránni í gegn óháð umsögnum sérfróðra aðila og óháð því hversu vel málið hefur í heild sinni verið ígrundað.

Þegar við ræddum síðast um breytingar á stjórnarskránni árið 2007 voru tveir núverandi hæstv. ráðherrar þátttakendur í umræðunni. Þeir höfðu afskaplega skýra sýn á það hvaða framgangur ætti að vera á breytingum af þessum toga á þeim tíma. Í fyrsta lagi hæstv. heilbrigðisráðherra sem steig hér upp í pontu og sagði, með leyfi forseta:

„Stjórnarskránni á ekki að breyta í þeim tilgangi að afla kjörfylgis í aðdraganda kosninga en framganga Framsóknarflokksins, sérstaklega í þessu máli, ber öll þess merki.“

Þetta sagði hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra á þeim tíma af því tilefni að við vorum að ræða breytingar á stjórnarskránni skömmu fyrir kosningar. Þá steig hér líka upp í pontu núverandi hæstv. utanríkisráðherra sem sagði á þeim tíma, með leyfi forseta:

„Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og það er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál.“

Þetta eru nákvæmlega sjónarmið okkar sjálfstæðismanna í umræðunni sem hér fer fram. Það er einmitt þetta sem við erum að gera athugasemdir við og ég vil taka fram svo það dyljist engum að Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið þátt í vinnu við að endurskrifa stjórnarskrána. Það höfum við gert á vettvangi stjórnarskrárnefndarinnar sem enn hefur ekki verið slitið. Við erum þeirrar skoðunar að það sé brýnt að stjórnarskráin verði endurskoðuð. Við teljum rétt að 79. gr. stjórnarskrárinnar verði breytt þannig að ekki þurfi að ganga til kosninga í hvert sinn sem breytingar ná fram að ganga á þinginu. Við teljum jafnframt að með því að breyta þeirri grein sé í raun og veru búið að höggva á alla þá hnúta sem er að finna í þessari umræðu vegna þess að með því að breyta 79. gr. stendur ekkert í vegi fyrir því að menn haldi áfram umræðu um þessi mál strax að afloknum kosningum eftir 20 daga og eftir að þing kemur saman. Ef meiri hluti næst á þinginu um að gera tilteknar breytingar, hverjar sem þær kunna að verða, gengur málið einfaldlega til þjóðarinnar í kjölfarið og það verður óþarfi að boða til kosninga. Sá fyrirvari er auðvitað á þessu að nýtt þing staðfesti þær breytingar sem við náum saman um á þessu þingi.

Það er ekki bara sú staðreynd að málið er rekið áfram í ágreiningi á milli flokkanna sem vekur með manni ugg heldur líka það fordæmi sem með því er gefið, þar sem með breytingum á 79. gr. er opnað fyrir það að á næsta kjörtímabili verði breytingarnar staðfestar af nýju þingi og þá verði hægt að halda áfram á sömu braut. Það verður hægt að halda áfram með breytingar á stjórnarskránni með þeim hætti að henni verði breytt með einföldum meiri hluta og síðan gangi málið til þjóðaratkvæðagreiðslu og það er alveg tryggt að eftir að sátt hefur verið rofin um samstöðu um slíkar breytingar þá er hugmyndin um þjóðaratkvæðagreiðslu í raun og veru ónýt. Það verður búið að eyðileggja þá hugmynd vegna þess að sú þjóðaratkvæðagreiðsla mun aldrei snúast um neitt annað en það hvort menn styðji meiri hlutann á þinginu eða ekki. Slíkt væri áfallið fyrir meiri hluta þingsins ef þjóðaratkvæðagreiðsla gengi gegn honum. Það er sérstök ástæða til að hafa áhyggjur af því að hér skuli á sama tíma og 79. gr. er breytt lagt upp með það að láta þessar breytingar ná fram í ágreiningi. Þess utan er auðvitað fullkomlega óskiljanlegt hvað það er sem rekur á eftir breytingum sem felast í 1. og 3. gr. frumvarpsins og í sjálfu sér einnig 4. gr. frumvarpsins í ljósi þess hversu skammt er til kosninga.

Hvað er það sem rekur á eftir því að við eyðum öllum tíma þingsins í að deila um þetta mál en ræðum ekki frekar um þau örfáu brýnu mál sem liggja hér fyrir — ljúkum þingstörfum og göngum út í kosningabaráttu og göngum út í vorið og sólina? (Gripið fram í.) Það eru engin augljós rök fyrir því að lögfesta þurfi þessi atriði önnur en þau að tekist hefur um það samstaða og sátt á milli Framsóknarflokksins og minnihlutastjórnarinnar að svona skuli þetta verða gert.

Það er hörmulegt að horfa á það hvernig minnihlutastjórnin hefur kjöldregið Framsóknarflokkinn frá fyrsta degi, svikið allt það sem Framsóknarflokkurinn fór fram á gegn stuðningi við stjórnina. Það eina sem situr eftir, og minnihlutastjórnin getur staðið við, er í sjálfu sér þetta skrýtna mál, mál sem ég fullyrði að engir í þingliði minnihlutastjórnarflokkanna, Vinstri grænna eða Samfylkingarinnar, hafi neina sérstaka sannfæringu fyrir.

Hafi þeir sannfæringu fyrir því að mikilvægt sé að koma á stjórnlagaþingi hlýtur maður að spyrja aftur: Hvers vegna má þá ekki gera það eftir að nýtt þing kemur saman? Hvað kemur í veg fyrir að þingið sem kemur saman í maí taki þetta mál til umfjöllunar? Hvað er svona merkilegt við þetta mál umfram önnur mál sem við ræðum hér, sem sum hver verða látin daga uppi vegna þess að allt eins er hægt að ræða þau eftir að við komum saman að nýju? Mér sýnist t.d. að það muni eiga við um frumvarpið um eignaumsýslufélögin eins og þau eru kölluð. Það mál mun daga uppi vegna ágreinings í þinginu. Í sjálfu sér er enginn skaði að því ef ræða þarf þau mál áfram vegna þess að við getum tekið það til umfjöllunar á næsta þingi. Svarið við þessu er auðvitað það að það er ekkert sem rekur á eftir því að þetta sé klárað nú.

Það er líka kaldhæðnislegt að þessu máli sé teflt fram undir merkjum lýðræðisumbóta. Undir merkjum lýðræðisumbóta er þessu frumvarpi til breytinga á stjórnarskrá teflt fram en þegar umsagnaraðilar hreyfa athugasemdum þá er valtað yfir þá. Í engu er hlustað á þær athugasemdir að svona skuli ekki staðið að málum. Meira að segja hv. þm. Kristrún Heimisdóttir fjallar um það í ágætum viðtalsþætti, morgunþætti RÚV 29. mars sl., hversu mikilvægt það sé að vinna svona breytingar í sátt, gefa sér góðan tíma og það sé óheppilegt og óeðlilegt að leiða þær fram í ágreiningi hér á þinginu.

Það er nú margt fleira sem ágætur þingmaður sagði um stjórnarskrárbreytingar yfir höfuð og vinnslu þessa máls hér á þinginu í umræddum þætti. En sérstaklega finnst mér ástæða til að vekja athygli á þessu vegna þess að hv. þingmaður kemur líka inn á það að það eina sem síðasta stjórnarskrárnefnd náði samstöðu um, þ.e. breytingin á 79. gr., er í raun og veru lykillinn að því vandamáli sem við erum hér með. Það vita allir sem hafa kynnt sér aðdraganda þessa máls að hugmyndin frá Framsóknarflokknum, um stjórnlagaþing, sprettur upp úr þeim jarðvegi að við höfum verið í vandræðum með að hafa samfellda vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar allt kjörtímabilið. Þetta hefur haft tilhneigingu til þess að fara í þann farveg að skömmu fyrir kosningar setja menn kraftinn í slíkt endurskoðunarstarf og svo læsist öll umræðan í spennunni sem magnast upp í aðdraganda kosninga og menn ná ekki neinum árangri í störfum sínum. Það virðist hafa verið lærdómurinn af stjórnarskrárnefndinni fyrir kosningarnar 2007 og það er upp úr þessum jarðvegi sem hugmyndin um stjórnlagaþing sprettur og 79. gr. er lausnin. Hún er lykillinn að þessu vandamáli og hún dugar. Það má segja að það komi ágætlega fram í umræddum morgunþætti RÚV þar sem hv. þm. Kristrún Heimisdóttir fjallar um þessi mál frá ýmsum sjónarhornum.

Ég vil halda því fram að ótrúleg þversögn sé fólgin í því hjá þeim sem standa að þessu máli að tefla því fram í nafni lýðræðisins, senda það út til umsagnar, gefa umsagnaraðilum langt nef, hlusta ekki á hugmyndir þeirra til breytinga og taka ekkert mark á athugasemdum þeirra um að svona mál skuli ekki unnin í flýti. Fjölmargir þessara umsagnaraðila neituðu meira að segja að gefa umsögn. Það eru fjölmörg dæmi um umsagnaraðila sem einfaldlega svöruðu með þeim hætti að á þetta skömmum tíma væri ómögulegt að gefa umsögn. En málið, sem teflt var fram í nafni lýðræðisumbóta, skyldi hins vegar halda áfram í umræðum á þinginu. Þvílík þversögn. Þvílík málsmeðferð. Þvílík meðferð á hugtakinu lýðræði þegar menn ganga fram með þessum hætti, í raun og veru til fullkominnar skammar.

En það er ekki bara þetta eina met sem menn eru að slá. Það er ekki bara verið að rjúfa 50 ára hefð fyrir sátt um breytingar á stjórnarskránni á þinginu heldur virðist mér sem jafnframt sé verið að setja annað met. Það er verið að setja met í því hversu lengi þinginu er haldið að störfum í aðdraganda kosninga. Aldrei áður hefur kjósendum verið boðið upp á það að jafnfáir dagar líði frá slitum þingstarfa þar til kosið er. Það verður þá arfleifð hæstv. forseta þingsins, 2. þm. Norðvest., Guðbjarts Hannessonar, að hafa stýrt þinginu með þeim hætti að gengið var á rétt kjósenda til þess að eiga eðlileg samskipti við frambjóðendur, sérstaklega þá þingmenn sem eru hér að sækjast eftir endurkjöri, og með þeim hætti að allt fer í hnút og einungis örfáir dagar líða frá þingslitum fram að kosningum. Það verður arfleifð hæstv. forseta þingsins að hafa algerlega mistekist að leiða fram sátt um framgang mála hér á þinginu.

Við höfum margítrekað óskað eftir því að fá að ræða önnur mál sem eru minna umdeild. Það færi langbest á því að þetta mál, sem er í jafnmiklum ágreiningi og raun ber vitni, færi núna aftur inn til nefndar til frekari skoðunar og umræðunni yrði haldið áfram síðar og við tækjum á dagskrá mál sem ágæt sátt er um, fjölmörg mál sem augljóst er að geta haft tiltölulega greiðan framgang hér á þinginu. Ég tel að hægt sé að ljúka þingstörfum á einum til tveimur dögum ef vilji er hjá öllum þingflokkum til þess að láta málin ganga hratt fyrir sig. Það er auðvitað eina vitið í stað þess að setja nýtt met í fjölda næturfunda hér eftir síðustu breytingar á þingsköpunum.