136. löggjafarþing — 127. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:59]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil hv. þingmann þannig að það ætti að geta verið ágætur möguleiki á því að ná sæmilegri sátt um þetta ákvæði. Ég gat ekki skilið hv. þingmann á annan veg. Ég tek undir með honum að það er mikilvægt að þetta mál komist á ný til nefndar til þess að hægt sé að fara yfir málið og leita þá leiða til þess að ná sáttum. Ég held að það skipti miklu máli að það mundi takast.

En til þess að málið komist til nefndar þá verður umræðunni hér að ljúka. (Gripið fram í: Það er óþarfi.) (Gripið fram í: … þingreyndur maður að vita) Ég veit að möguleiki er á því að taka málið til nefndar í miðri umræðu en mér fyndist það nú vera dálítill dónaskapur. En það hins vegar ber nýrra við ef hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru að leggja það sérstaklega til að málið gangi til nefndar.

Ég hef ekki heyrt þessa tillögu áður en það kann að vera að hún hafi komið fram. Hún hefur alla vega farið fram hjá mér, að málinu verði frestað. (Gripið fram í.) Það var það sem ég átti við að það hefði kannski verið dónaskapur af okkar hálfu að taka málið út og leggja til að það færi til nefndar. Mér finnst horfa öðruvísi við ef hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggja það til vegna þess að þeir eru mjög margir hér á mælendaskrá. Ef þeir leggja þetta til finnst mér það koma fyllilega til skoðunar.