136. löggjafarþing — 127. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:12]
Horfa

Forseti (Einar Már Sigurðarson):

Forseti hefur nú hlýtt á ræður nokkurra hv. þingmanna og að sjálfsögðu hlustað grannt eftir því sem þar hefur komið fram. Forseta er fullkunnugt um að það er boðaður fundur í utanríkismálanefnd klukkan átta í fyrramálið. Það er auðvitað eðlilegt að hv. þingmenn fái einhverja hvíld áður en sá fundur hefst. Forseti hefur einnig tekið eftir því að það virðist vera vaxandi sáttahugur í hv. þingmönnum og það er eðlilegt að hlusta eftir því einnig. Það er einnig eðlilegt að svara hv. þm. Pétri H. Blöndal varðandi það að ef til þess kæmi að þeim dagskrárlið sem nú er yrði frestað er ekki ætlunin að taka fyrir önnur dagskrármál.

En forseti tók einnig eftir því að hv. þingmaður taldi vel liggja við að hv. þingmaður fengi að halda ræðu sína nú og forseti metur það því svo að það sé eðlilegt að hv. 6. þm. Reykv. n., Pétur H. Blöndal, fái að halda ræðu sína og lítur svo á að umræðum um fundarstjórn forseta sé lokið að sinni.