136. löggjafarþing — 127. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á þessari umræðu um ríki og þjóð. Það stendur í frumvarpinu að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti séu þjóðareign. Ég tel að þetta hugtak sé ekki til vegna þess að þjóð (Gripið fram í.) er eitthvað mjög óskilgreint hugtak. Hins vegar gæti maður sagt að þær séu ríkiseign, það væri alveg á tæru að segja ríkiseign. Þjóð er afskaplega óskilgreint hugtak eins og ég gat um, sums staðar eru margar þjóðir í einu ríki og annars staðar er sama þjóðin innan margra ríkja. Það væri t.d. mjög erfitt að segja að eitthvað væri þjóðareign Kúrda sem búa í fjórum eða fimm ríkjum. Mér finnst þetta vera mjög óskýrt og alls ekki hreint hugtak.

Varðandi gullið á eyðieynni, það er einskis virði þegar enginn veit um þessa eyðiey. Það er ekki fyrr en einhver finnur það og fer að beita hugkvæmni sinni og krafti til að nýta það, þá verður það auðlind, þá fyrst verður það auðlind. Þegar allt gullið í námunni hefur verið klárað hættir það að vera auðlind. Hlutir geta komið inn sem auðlind og farið aftur út úr hugtakinu auðlind. Mér finnst mjög varasamt eða undarlegt að setja eitthvað inn í stjórnarskrá sem á að vera varanleg til að vernda mannréttindi og því skil ég ekki af hverju verið er að setja þetta ákvæði í stjórnarskrá um auðlindina nema til að vernda einhverja hagsmuni sem mér finnst vera dálítið langt frá því sem ég lít á sem hlutverk stjórnarskrár sem er verndun mannréttinda.