136. löggjafarþing — 127. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:42]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Mér hefur enn ekki gefist tími til að fjalla um einstakar greinar frumvarpsins. Ég hef fjallað um það almennt og um stjórnarskrárbreytingar, vinnuna í sérnefndinni og hvernig þeirri vinnu hefur fleygt fram. Ég hef talað um að ef samþykkt yrði ákvæði 4. gr., þ.e. í samræmi við þá breytingartillögu sem fyrir liggur eða eins og það var í 4. gr., þá tel ég að það mundi leiða til stjórnskipulegrar ringulreiðar. Ég er alfarið á móti því að sett sé slíkt bráðabirgðaákvæði í stjórnarskrá og tel að með því sé Alþingi að rýra vald sitt. Á sama tíma og kallað hefur verið eftir því að auka vald Alþingis er lögð fram tillaga sem felur í sér að draga á úr valdi Alþingis. Eins og ég minntist á í frumræðu minni um stjórnarskrána hefur Alþingi ákveðin skilgreind völd samkvæmt stjórnarskránni. Alþingi hefur lagasetningarvald, Alþingi hefur fjárveitingavaldið og Alþingi hefur vald til að gera breytingar á stjórnarskrá. Þetta þrennt er í raun það valdsvið sem Alþingi hefur.

Því má bæta við að Alþingi verður að sætta sig við stjórnarskrá. Í því felst þingbundin ríkisstjórn. Það verður að sætta sig við að ríkisstjórn getur setið svo lengi sem ekki verður samþykkt vantraust á ríkisstjórnina. Af því að það virðist eitthvað fara á milli mála í umræðunni vil ég geta þess sérstaklega að eðlileg skilgreining á því hvað telst vera stjórnarsinnar, stjórnarflokkar eða flokkar í stjórnarandstöðu þá liggur það alveg fyrir að flokkur sem hefur tekið að sér að verja ríkisstjórn falli er ekki flokkur í stjórnarandstöðu. Það er flokkur sem er hluti af þeirri ríkisstjórn sem um er að ræða. Þess vegna er Framsóknarflokkurinn ekki stjórnarandstöðuflokkur heldur í raun hluti af þingliði ríkisstjórnarinnar, eins og kemur m.a. fram í þessu máli þar sem Framsóknarflokkurinn vinnur að því með ríkisstjórnarflokkunum að koma fram með þær tillögur sem hér er um að ræða og standa að þeim meiri hluta sem knúði þetta úr sérnefndinni um stjórnarskrána.

4. gr. þar sem fjallað er um stjórnlagaþing var upphaflega þannig að miðað var við það að þingið skyldi sett að loknum alþingiskosningum vorið 2009 og síðan segir: „Stjórnlagaþing setur sér sjálft starfsreglur.“ Miðað við það að gert var ráð fyrir að stjórnlagaþingið kæmi saman vorið 2009, þ.e. á svipuðum tíma og nýkjörið Alþingi kæmi saman, var það í sjálfu sér ekki órökrétt að leggja áherslu á að setja það bráðabirgðaákvæði inn í stjórnarskrá sem þannig hljóðaði. En með breytingartillögum meiri hluta stjórnarskrárnefndarinnar hefur heldur betur orðið breyting á þessu atriði og þá segir allt í einu að þingið skuli koma saman 17. júní 2010, eða rúmu ári eftir fyrirhugaðar alþingiskosningar sem eiga að fara fram 25. apríl næstkomandi. Þá er spurningin: Hvaða þörf er á að Alþingi taki ákvörðun um að setja þetta bráðabirgðaákvæði með þessum hætti? Svarið er einfaldlega það að eins og nú háttar til er engin þörf á að setja inn þetta bráðabirgðaákvæði í stjórnarskrá. Stjórnlagaþingið á ekki að koma saman fyrr en rúmu ári eða 14 mánuðum eftir alþingiskosningar og af sjálfu leiðir að það væri því eðlilegt viðfangsefni þess þings sem kjörið verður í lok þessa mánaðar að fjalla um það hvort það telji eðlilegt að hafa hlutina með þeim hætti sem hér er lagt til.

Ég hef lýst yfir að ég er alfarið á móti hugmyndum um sérstakt stjórnlagaþing. Mér finnst það röng og hættuleg aðferðafræði. Ég velti fyrir mér hvernig menn ætli að fara að þegar þeir eru annars vegar með 63 þingmenn á Alþingi Íslendinga við að fjalla m.a. um breytingar á stjórnarskrá og eru síðan með 41 þingmann á sérstöku stjórnlagaþingi til að fjalla um hlutina með sama hætti. Hvaða vit ætti að koma út úr slíkri stjórnskipulegri ringulreið? Ég held að það eina sem gæti komið út úr slíku væri vit-leysa. Af hverju skoðum við ekki hvernig nágrannaþjóðir okkar hafa farið að, t.d. sú þjóð sem hefur gengið frá víðtækustu breytingum á stjórnarskrá sinni í fullkominni sátt? Og er ég þá að tala um Svíþjóð. Af hverju getum við ekki hugað að aðferðafræði og starfsaðferðum eins og þar í landi þar sem mynduð var sérstök stjórnarskrárnefnd, stór stjórnarskrárnefnd, þar sem sátu helstu stjórnmálaleiðtogar þjóðarinnar, bæði starfandi og fyrrverandi? Í nefndinni sátu fræðimenn og ýmsir aðrir málsmetandi aðilar sem komið höfðu að ýmsum atriðum þjóðlífsins í Svíþjóð. Þeir aðilar sátu á rökstólum um nokkurra ára skeið og þeim tókst að ná fullkominni sátt og samkomulagi um hvernig skyldi leggja hlutina fyrir þing Svíþjóðar og það var gert með ákveðnum skýrslum sem ég vísaði í í frumræðu minni um þetta mál, að því er mig minnir í desember síðastliðnum. Sú leið væri mun skynsamlegri og líklegri til að ná vitlegum árangri til að gera þær breytingar á stjórnarskránni sem vissulega væri ástæða til að taka upp margar hverjar. Ég hef nefnt nokkrar og tel að aðrar hljóti að koma til skoðunar, m.a. að leggja áherslu á að auka vald Alþingis, sem ég tel mjög mikilvægt, og gefa Alþingi möguleika á ákveðnum frumkvæðisrétti. Þegar efnahagshrunið varð birtist vanmáttur Alþingis að mörgu leyti með gleggri hætti en nokkru sinni fyrr. Hvers vegna? Vegna þess að Alþingi hafði engan frumkvæðisrétt, hafði ekki möguleika í raun til að gera nauðsynlegar ráðstafanir eða gangast fyrir nauðsynlegum ráðstöfunum. Eini möguleikinn eða kostur Alþingis var að koma með fyrirspurnir eða athugasemdir, leita eftir upplýsingum eða þá hreinlega að samþykkja vantraust á sitjandi ríkisstjórn en það er í sjálfu sér ekki beinlínis eitthvað sem skilgreint er sem frumkvæðisréttur löggjafarþings. Spurningin var því um að veita Alþingi ákveðinn frumkvæðisrétt, sem hefði verið mikilvægur, og þess vegna setja ákveðin ákvæði sem m.a. einn fyrrverandi þingmaður, Vilmundur Gylfason heitinn, barðist mikið fyrir, m.a. um að settar væru sérstakar rannsóknarnefndir á fót sem gæfu Alþingi og alþingismönnum möguleika á að hafa ákveðið frumkvæði sem ekki er möguleiki á í dag. Ég hygg að hv. þingmenn ættu að huga að því með hvaða hætti og hvernig nauðsynlegt er að gera breytingar á íslensku stjórnarskránni til að auka veg, völd og virðingu Alþingis, til að Alþingi geti brugðist við, geti haft ákveðinn frumkvæðisrétt sem er nauðsynlegur, sem var ákall þjóðarinnar þegar efnahagshrunið varð. Við því eigum við að bregðast en ekki með því að leggja grunninn að stjórnskipulegri ringulreið eins og lagt er til með 4. gr. frumvarps ríkisstjórnarinnar.