136. löggjafarþing — 127. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:52]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskránni og er það mál nú komið til 2. umr. Til þessa máls var stofnað af vinstri flokkunum sem mynduðu þá ríkisstjórn sem nú er starfandi í landinu með stuðningi Framsóknarflokksins eða í það minnsta hlutleysi Framsóknarflokksins. Reyndar verður að segjast eins og er að Framsóknarflokkurinn hefur ekki riðið feitum hesti frá þessum stuðningi við ríkisstjórnina frá því að yfirlýsing um stuðning eða hlutleysi við ríkisstjórnina gekk eftir. Fylgið hefur hrunið af flokknum á þessum tveimur mánuðum og flokkurinn hefur í rauninni ekki fengið mikið fyrir stuðning sinn nema einhverjar útþynntar hugmyndir um stjórnlagaþingið, eins og ég mun fara í gegnum á eftir. Það er reyndar svo að einn forustumaður Framsóknarflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson, sem var í ágætum umræðuþætti í kvöld og stóð sig með prýði, nýr oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, ritaði grein sem birtist fyrir helgina þar sem hann lýsir því eins og segir, með leyfi forseta:

„Þolinmæði okkar framsóknarmanna virðast engin takmörk sett. Við lofuðum að verja ríkisstjórn falli gegn því að gripið yrði til ráðstafana til bjargar heimilum og fyrirtækjum. Á því hefur staðið en við verjum enn ríkisstjórnina.

Þessi ákvörðun Framsóknarflokksins varð til þess að boðað var til kosninga eins og krafist hafði verið. Því má segja að kosningarnar séu í boði Framsóknarflokksins.“ — Skemmtilegt orðalag.

„Það veit hins vegar ekki á gott fyrir mögulegt samstarf að stjórnarflokkarnir skuli líta svo á að þeim hafi verið færðir stjórnartaumarnir til að reka kosningabaráttu á kostnað almennings í stað þess að grípa til aðgerða.

Óvinsælar aðgerðir eru slegnar af og látið að því liggja að verið sé að leita annarra lausna en meðan ríkir óvissa. Fremstur í flokki hefur farið núverandi heilbrigðisráðherra.“ Svo spyr hann:

„Hvar eru tillögurnar? Hvar eru lausnirnar fyrir heimili og fyrirtæki? Hvar er skjaldborgin um heimilin?“

Þetta sagði nýr oddviti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Því er alveg greinilegt að Framsóknarflokkurinn er búinn að átta sig á því að þeir hafi ekki fengið mikið fyrir þennan stuðning sinn við ríkisstjórnina.

Jafnframt, virðulegi forseti, var með framlagningu frumvarpsins brotin áratugahefð í þinginu. Í fyrsta lagi um samráð allra flokka um breytingar á stjórnskipuninni. Það var ekki gert og var Sjálfstæðisflokknum haldið utan við allt slíkt samráð. Það fór fram milli annarra flokka, Sjálfstæðisflokkurinn kom þar hvergi nærri.

Í öðru lagi var brotin áratugahefð um að afgreiða slíkar breytingar í sátt flokka og því er ekki til að dreifa. En ég verð að segja og draga það sérstaklega fram núna að í umræðu sem fór fram áðan og í orðaskiptum sem fóru á milli hv. þm. formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar, og hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, formanns þingflokks Samfylkingarinnar, sem jafnframt er formaður sérnefndar um stjórnarskrármálið eftir að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hvarf af þingi og úr því verki — sá orðastaður sem fór á milli þeirra og sú sáttarhönd sem þar var rétt fram af formanni Sjálfstæðisflokksins um að fresta umræðunni og taka málið í nefnd vekur ákveðnar vonir um að hægt sé að ná sátt í málinu. Ég ítreka beiðni mína sem kom fram fyrr í kvöld um að forseti fresti fundi, fresti umræðunni og leitað verði leiða til að kalla saman nefndina í fyrramálið til að átta sig á hvort sú sátt sé ekki fyrir hendi sem mér heyrðist í ræðu áðan.

Hingað til hefur verið vandað til verka við allar breytingar á stjórnarskránni en ljóst er af umsagnaraðilum, sem við höfum hér fyrir framan okkur, að margir hverjir telja að málið sé illa undirbúið. Það er jafnframt skoðun mín og annarra að frumvarpið eins og það er lagt fram sé samsuða úr hugmyndum héðan og þaðan og lítil heildarmynd á því. Jafnframt er brotin sú hefð, ég tala nú ekki um varðandi stjórnarskrána, að ekki er gefinn góður tími til að hafa góð samráð við fræðimenn, sérfræðinga og ýmsa hagsmunaaðila til að málið sé þannig úr garði gert að sómi sé að. Ég er þeirrar skoðunar að stjórnarskráin verðskuldi meiri virðingu en svo að fólk umgangist hana með þeim hætti að ekki sé vandað til verka. Það sést jafnframt á þeim miklu breytingum sem hafa orðið á frumvarpinu milli 1. og 2. umr. að ástæða var talin til að vinna það betur en ég tel að ekki sé nóg að gert.

Í fjórða lagi er einnig brotin áratugahefð með því að gera þessar breytingar rétt fyrir kosningar og hafa fræðimenn gert verulegar athugasemdir við það, eins og ég mun fara í á eftir ef mér vinnst tími til. Það hlýtur að vekja athygli og umræðu að á sama tíma og gert er ráð fyrir að sett verði á laggirnar stjórnlagaþing sem eigi að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins þar sem byggt verði áfram á lýðræðisskipan réttarríkja og vernd mannréttinda, eins og segir í skýringum með frumvarpinu, þá leggja höfundar frumvarpsins til þrjár viðbótargreinar, þ.e. leggja til tilteknar breytingar á þessari sömu stjórnarskrá. Segja má og fullyrða að það sé frekar undarleg ráðstöfun og vekur spurningar af hvaða ástæðum verið er að takmarka umboð stjórnlagaþings til breytingar á stjórnarskrá og hvort því sé ekki treyst til að endurskoða ákvæði um auðlindir um breytingar á stjórnarskrá og setja ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu. Maður veltir fyrir því sér hvað kallar á að þessar breytingar umfram aðrar séu svo brýnar að þær þola ekki bið eða hvort það er þannig, eins og ég sagði áðan, að þeir sem bera ábyrgð á frumvarpinu treysti ekki stjórnlagaþinginu til að hrinda þessum breytingum í framkvæmd og hvað það er með þessar tilteknu breytingar sem eru svo afskaplega brýnar að þær eru settar fram samhliða stjórnlagaþingshugmyndinni.

Jafnframt hefur komið fram, í umræðum á hinu háa Alþingi, spurning um það hvort fræðilegur möguleiki sé á því, sem virðist augljóst vera, að á sama tíma og hugsanlegt stjórnlagaþing er starfandi að því verkefni að breyta stjórnarskránni sé Alþingi, sem hefur löggjafarvaldið, að gera sömu breytingar, aðrar breytingar, eða þess vegna andstæðar breytingar, á stjórnarskránni. Þetta vekur manni óhug og manni líður ekki vel með þetta.

Ég vil taka fram að í umsögn laganefndar Lögmannafélags Íslands, sem töluvert hefur verið vísað í í umræðunni, má segja að umsagnir og varnaðarorð ótal annarra aðila kjarnist, umsóknir frá tugum umsagnaraðila. Þeir segja, með leyfi forseta:

„Laganefnd telur ákveðna þversögn felast í því að gera efnisbreytingar á stjórnarskránni og á sama tíma koma á fót stjórnlagaþingi sem á að semja nýja stjórnarskrá. Er vandséð að framangreindar breytingar geti haft það mikið gildi á meðan stjórnlagaþing er að störfum en samkvæmt frumvarpinu á stjórnlagaþing að ljúka störfum eigi síðar en 17. júní 2011. Ljóst er að sá tími er í sjálfu sér ekki mjög langur miðað við efni ákvæðanna sem um ræðir.“

Síðan kemur fram í áliti laganefndar Lögmannafélags Íslands — en laganefnd Lögmannafélags Íslands er umsagnaraðili sem mikið tillit hefur verið tekið til í gegnum tíðina, þykir koma með vandaðar og góðar umsagnir sem nær undantekningarlaust hafa verið skoðaðar af vandvirkni og gerðar breytingar í framhaldi af því. En þær athugasemdir sem koma frá laganefndinni hafa verið, má segja, hunsaðar í frumvarpinu. Í umsögninni kemur fram, með leyfi forseta:

„Að mati laganefndar eru þær breytingar á stjórnarskránni sem boðaðar eru með frumvarpinu í raun grundvallarbreytingar. Laganefnd áréttar mikilvægi þess að allar breytingar á stjórnarskránni séu gerðar að vel athuguðu máli og í mikilli sátt allra aðila, ekki síst þegar um grundvallarbreytingu er að ræða. Er það afstaða laganefndar að framangreindar breytingar þurfi frekari athugunar við og leggst nefndin af þeim sökum gegn samþykkt frumvarpsins eins og það er lagt fyrir.“

Ég verð að segja að þessar athugasemdir, bæði laganefndar Lögmannafélagsins og annarra, hafa ekki vakið nægilega athygli en samt hefur maður heyrt það í dag og e.t.v. í gær að fólk er að vakna til vitundar um að það eru ekki bara sjálfstæðismenn sem gera þessar athugasemdir við málsmeðferðina á hinu háa Alþingi. Á það hefur líka verið bent að það eru ekki eingöngu hægri menn og sjálfstæðismenn sem eru að gera þessar athugasemdir heldur hafa einnig komið fram athugasemdir frá vel þekktum vinstri mönnum. Ég nefni þar m.a. Gunnar Karlsson, sem er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann er einn þeirra vinstri manna sem hafa varað við fljótfærnislegum breytingum á stjórnskipun Íslands. Hann segir í grein í Eldhúsdegi, sem er fylgirit Fréttablaðsins, í síðasta mánuði, með leyfi forseta:

„Eitt afbrigðið af villigötu leitarinnar að betra lýðræði er krafan um nýja stjórnarskrá. Þar ber mest á kröfu um þrískiptingu ríkisvaldsins, einkum að löggjafarvaldið verði óháðara framkvæmdarvaldinu, ráðherravaldið minna.“

Hann gagnrýnir verulega þær tillögur sem lagðar eru til grundvallar því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar. Það er því ekki svo að það sé pólitísk skipting á því hvaða álit fólk hefur á þessum breytingum.

Við höfum rætt um það áður að Framsóknarflokkurinn hefur sett nokkur skilyrði um stuðning við ríkisstjórnina. Eina skilyrðið sem stendur eftir er það skilyrði að í síðasta lagi yrði kosið 25. apríl — þeir fengu það í gegn en það var í síðasta lagi. Í öðru lagi var það þessi hugmynd um stjórnlagaþing sem Framsóknarflokkurinn lagði mikla áherslu á. Í þriðja lagi mundu menn einbeita sér að brýnum úrlausnarefnum vegna vanda heimilanna og atvinnulífsins. Það má eiginlega segja að Framsóknarflokkurinn hafi bakkað með þessi skilyrði eins og kom m.a. fram í þeirri beinu tilvitnun sem ég fór með áðan úr grein eftir Gunnar Braga Sveinsson, oddvita Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Hann staðfestir þar það sem við sjálfstæðismenn og fleiri höfum sagt, að Framsóknarflokkurinn hefur fengið minna en ekki neitt út úr þessum stuðningi. Það verður líka að segjast að hugmyndirnar um stjórnlagaþingið, eins og þær voru lagðar fram, m.a. frá Framsóknarflokknum, eru orðnar mjög útþynntar og ég mun fara stuttlega yfir það.

Ég verð líka að segja að Framsóknarflokkurinn er heillum horfinn þegar hann er meira að segja tilbúinn til að bakka með það skilyrði að einbeita sér að brýnum úrlausnarefnum vegna vanda heimilanna og atvinnulífsins. Í gær — nú er klukkan að ganga þrjú, en í gær, en samt á þeim fundi sem við erum á nú, felldu framsóknarmenn dagskrártillögu hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, um að taka brýn mál er varða heimilin og atvinnulífið á dagskrá og fresta stjórnarskrárfrumvarpinu. Þetta kom til atkvæðagreiðslu í dag og hv. þingmenn Framsóknarflokksins felldu þessa tillögu okkar um að taka önnur mál fram yfir það mál sem við ræðum hér.

Ég sagði áðan að hugmyndir um stjórnlagaþing hefðu breyst verulega á síðustu vikum og kannski var ein sú veigamesta af hugmyndum Framsóknarflokksins, ein af þeim stóru, að fækka þingmönnum á stjórnlagaþingi úr 63 í 41. Starfstíminn hefur verið þrengdur verulega og í stað þess að stjórnlagaþing verði kosið sérstakri kosningu á þessu ári, og komi saman 1. desember nk., þá kemur fram í tillögum meiri hlutans í nefndinni að kosið verði til stjórnlagaþings samhliða sveitarstjórnarkosningum vorið 2010, þingið komi saman 17. júní 2010, sem sagt eftir rúmt ár og ljúki störfum eigi síðar en ári seinna. Fram kemur rökstuðningur úr nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar í þá veru að með þessu náist töluverður sparnaður þar sem ekki þurfi að kosta sérstakar kosningar ásamt því sem styttri starfstími sparar laun og rekstrarkostnað þingsins. Þar sem áður var gert ráð fyrir fullu starfi fulltrúa þingsins þá er hér gert ráð fyrir því að þeir þurfi ekki að vera í fullu starfi og jafnvel að þingið hittist fáeina daga í senn nokkrum sinnum yfir starfstímann en í millitíðinni væru starfshópar eða vinnustofur að störfum um afmarkað efni og starfsfólk og sérfræðingar ynnu að tillögum þingfunda og starfshópa.

Það er því alveg ljóst að hér er um verulega útþynntar tillögur að ræða frá því sem hugmyndir Framsóknarflokksins stóðu til. Ég teldi því að þeir gerðu best í því að draga þessa tillögu sína til baka, vinna hana betur og vinna henni betra fylgi ef þeir ætla að standa við hana.

En það hefur líka verið gagnrýnt verulega að stjórnlagaþing fari fram um leið og sveitarstjórnarkosningar og ef svo yrði þá mundu þær skyggja verulega á kosningabaráttu til sveitarstjórnar og jafnframt mundu þær útiloka aðila sem væru í raun og veru kjörgengir á stjórnlagaþing, þ.e. sveitarstjórnarmenn. Samkvæmt hugmyndunum er ekki gert ráð fyrir því að útiloka þá frá kjörgengi til stjórnlagaþings því að varla færu sveitarstjórnarmenn á sama tíma að bjóða sig fram til sveitarstjórna og til stjórnlagaþings. Þetta takmarkar því val á reyndu og góðu fólki og það sem skiptir ekki síður máli er að það truflar kosningabaráttuna til sveitarstjórna og finnst mér það ekki vel gert af stjórnvöldum að draga svona úr vægi annars stjórnsýslustigsins sem er starfandi á Íslandi eða gera þeim þann grikk að hafa aðrar kosningar, svona stórar kosningar, samhliða, enda hefur Samband íslenskra sveitarfélaga og formaður þeirra, Halldór Halldórsson, látið hafa eftir sér að þarna hafi ekki verið haft samráð við sveitarfélögin. Mig grunar, og ég tel mig hafa nokkra vissu fyrir því, að ekki sé mikil hrifning meðal sveitarfélaga og sveitarstjórnarmanna af þessari hugmynd.

Hugmyndir um stjórnlagaþing voru settar fram á flokksþingi framsóknarmanna í janúar. Það kemur m.a. fram í greinargerð með frumvarpinu að hugmyndir um stjórnlagaþing eru komnar frá Jónasi frá Hriflu, sem hreyfði þessu máli 1941, og síðan var það annar framsóknarmaður, Páll Zóphóníasson, þingmaður Framsóknarflokksins, sem hreyfði þessari hugmynd 1948 og svo hefur Siv Friðleifsdóttir, ásamt öðrum þingmönnum, lagt fram frumvarp um stjórnlagaþing á þessu þingi. Í millitíðinni hafði hæstv. núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, lagt fram tillögu í þessa veru frá 1995. Framsóknarflokkurinn er að leita í kistu fortíðar þegar hann dregur fram þessa hugmynd um stjórnlagaþing, þetta virðist vera gamall draumur þeirra sem þeir hanga fast í. En það má jafnframt sjá, af þeim hugmyndum sem koma fram á flokksþingi þeirra frá því í janúar, að ýmsar þær beinu tillögur sem þeir leggja til að verði teknar til umfjöllunar á stjórnlagaþingi eru ekki inni í þessum tillögum. Þeir velta m.a. upp þeirri spurningu hvort þörf sé á sérstökum þjóðhöfðingja og þá hvert hlutverk hans eigi að vera og jafnframt eru þeir með hugmyndir um hvort afnema eigi þingræði og taka upp beina kosningu æðsta handhafa framkvæmdarvaldsins. En í þeirri tillögu sem liggur nú fyrir þinginu er verkefni stjórnlagaþings engan veginn að svara þessum spurningum heldur er það tekið út fyrir sviga og sagt: Þetta er ekki verkefni stjórnlagaþingsins.

Ég hefði gjarnan viljað ræða lengur um þetta mál. Ég hef lokið þeim 20 mín. sem ég hef til umráða í þessari umferð og vonast þá til, ef þörf krefur, að fá tækifæri til að taka umræðuna upp síðar. En ég legg áherslu á þann sáttatón sem kom fram í umræðum áðan milli formanns Sjálfstæðisflokksins og þingflokksformanns Samfylkingarinnar.