136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

fundur í umhverfisnefnd – umhverfismál.

[10:43]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Málið um loftslagsbreytingar og hvernig taka á á þeim, sem meiri hluti þingmanna flytur hér og ég er 1. flutningsmaður að, er ekki óþarfi. Það er mjög þarft að þetta mál klárist vegna þeirra samninga sem við göngum brátt til. Öll rök sem hæstv. umhverfisráðherra og fleiri þingmenn hafa beitt eru nákvæmlega sömu rökin og ég þurfti að leiðrétta á sínum tíma þegar íslenska ákvæðinu var náð fram. Það var alveg sama platan: Þetta er ekki hægt, þetta má ekki gera, þangað til umhverfisráðherrar annarra landa skildu að ákvæðið var umhverfisvænt. Það er betra fyrir lofthjúpinn að samþykkja ákvæðið en ekki, það er bara svo einfalt að það blasir við öllum.

Virðulegi forseti. Ég tel að Mörður Árnason alþingismaður ætti að skammast sín. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Hann segir hér, hv. þingmaður, að þetta sé vitleysisþingsályktunartillaga. Hann segir þar með að meiri hluti þingmanna sé á einhverri vitleysisþingsályktunartillögu og klykkir svo út með því að vega að hv. þm. Kjartani Ólafssyni. Ég vil af því tilefni segja að hv. þm. Kjartan Ólafsson hefur staðið sig með miklum sóma í málinu, hann hefur verið með öfluga röksemdafærslu sem greinilega svíður undan. Fyrst hv. þingmaður — og það er varla að ég geti sagt hv. þingmaður, Mörður Árnason, af því að mér er misboðið þegar ég hlusta á málflutning hans. Það er alveg greinilegt að málflutningur hv. þm. Kjartans Ólafssonar og fleiri hefur verið það öflugur að hv. þm. Mörður Árnason kýs að niðurlægja þingmenn í röðum, bæði hv. þm. Kjartan Ólafsson og alla þá sem standa að tillögunni og það er meiri hluti þingmanna. Ég tel að hv. þm. Mörður Árnason ætti að skammast sín.